Alsæll Ottó var býsna sáttur við Piper Cup-flugvélina, sem er sú sama og hann tók prófið á fyrir 50 árum.
Alsæll Ottó var býsna sáttur við Piper Cup-flugvélina, sem er sú sama og hann tók prófið á fyrir 50 árum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is "PRÓFIÐ er eitthvað sem maður gleymir aldrei," segir Ottó Tynes, fv. flugstjóri, sem í gær hélt upp á að fimmtíu ár eru liðin frá því að hann þreytti próf til einkaflugmanns.
Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

"PRÓFIÐ er eitthvað sem maður gleymir aldrei," segir Ottó Tynes, fv. flugstjóri, sem í gær hélt upp á að fimmtíu ár eru liðin frá því að hann þreytti próf til einkaflugmanns. Af því tilefni kallaði hann til hópinn sem lærði til flugs á sínum tíma og flaug á sömu flugvélinni tvo hringi í kringum Reykjavíkurflugvöll – sama hring og fara þurfti í prófinu fyrir fimmtíu árum.

Flugvélin er af gerðinni Piper Cup og var framleidd árið 1946. Hún er í eigu Sigurðar Halldórssonar sem lét gera hana upp en vélina eignaðist hann árið 2002. Vélin er að vísu nokkuð breytt frá því sem var árið 1957, aðeins öflugri mótor hefur verið komið fyrir og tveimur eldsneytistönkum í vængjum í stað eins. Þá er hægt að ræsa vélina með rofa en áður þurfti að gera það handvirkt.

Flogið sleitulaust frá 1957

Góð stemning var á Reykjavíkurflugvelli þegar Ottó tókst á loft og ekki var hún síðri þegar hann flaug að nýju yfir og veifaði til áhorfenda – að sjálfsögðu með vængjum vélarinnar. Lendingin tókst svo eins og í sögu og var það mál manna að Ottó hefði tekist að ná prófinu á nýjan leik.

Reyndar er það ekki að undra þar sem Ottó hefur flogið nær sleitulaust frá því hann fékk réttindi einkaflugmanns. Hann var atvinnuflugmaður í 35 ár auk þess sem hann flýgur reglulega litlum vélum. Hann hafði þó ekki flogið þessari nema einu sinni áður. "Þetta var næstum því sama tilfinningin og þegar ég flaug fyrir fimmtíu árum," sagði Ottó eftir lendingu. Hann segir prófið eittvað sem ekki gleymist. "Maður var búinn að fljúga með kennara allan tímann. Svo þegar kemur að prófinu fer hann í land og þá verður vélin nærri hundrað kílóum léttari. Þá æðir hún upp úr öllu valdi, það er það sem maður man eftir, og auðvitað er þetta sérstök tilfinning."

Verið gera upp fleiri vélar

Piper Cup-flugvélarnar voru aðalkennsluvélarnar á árum áður en framleiðsla þeirra hófst á fjórða áratug síðustu aldar. Þær eru bandarískar að uppruna og fjölmargir flugmenn byrjuðu feril sinn á Piper Cup. Talið er að yfir tíu þúsund vélar hafi verið framleiddar en á Íslandi eru sjö, átta vélar. Þær eru í misjöfnu ástandi en unnið hefur verið að því hörðum höndum að gera vélarnar upp.

Eins og áður kemur fram á Sigurður Halldórsson vélina sem Ottó tók prófið á fyrir hálfri öld. Hann notar vélina mikið og ferðast vítt og breitt um landið. Vélinni breytti hann úr hefðbundinni Piper Cup-vél í PA11 sem hefur um sjö klukkustunda flugdrægni í stað tveggja og hálfrar sem er hefðbundið.

Í hnotskurn
» Í gær voru fimmtíu ár síðan Ottó Tynes, fv. flugstjóri, þreytti próf til einkaflugmanns.
» Af því tilefni flaug hann tvo hringi í kringum Reykjavíkurflugvöll á sömu flugvél – þó að breytt sé.
» Vélin er af tegundinni Piper Cup og var framleidd árið 1946.
» Sigurður Halldórsson eignaðist vélina árið 2002 og gerði hana upp frá grunni.
» Sjö, átta Piper Cup-vélar eru til á Íslandi.