Einar Karl Haraldsson
Einar Karl Haraldsson
Einar Karl Haraldsson skrifar í tilefni greinarinnar "Til varnar Tyrkjum" í Lesbók: ""Á prenti er þessi staðhæfing furðu lík fullyrðingum öfgamanna um að helför gyðinga hafi aldrei átt sér stað.""
STUNDUM verður maður aldeilis hlessa á þeim túlkunarfræðum sem ástunduð eru í eftirlegukimum marxismans í Háskóla Íslands. Þar virðast enn vera í tísku þau afsökunar- og afneitunarafbrigði vinstrimennsku sem felast í því að réttlæta alla þá sem gera árás á

kristna menningu og vestræna lífshætti. Aðferðin felst í því að beygja heimildir undir steingeldar kenningar um nauðsyn þess að afbyggja merkingu sem flestra fyrirbæra og stofnana samfélagsins vegna þess að þau séu tæki í höndum stéttaróvinarins.

Nú getur að lesa í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 21. júlí greinina Til varnar "Tyrkjum" eftir Bryndísi Björgvinsdóttur: "Þegar Tyrkjaránanna er minnst skiptir atburðurinn sem slíkur ekki máli, það sem máli skiptir er notkun okkar Íslendinga á honum. Þau "Tyrkjarán" sem við höfum verið að minnast í gegnum aldirnar og minnumst í dag gerðust aldrei."

Hugsanlega þykir þessi framsláttur smart í lokuðum kennslusal þar sem nemendur einir eru í heilaþvotti. Á prenti er þessi staðhæfing furðu lík fullyrðingum öfgamanna um að helför gyðinga hafi aldrei átt sér stað.

Fjölbreytt heildarmynd

Bryndís gerir mikið úr þeirri hugljómun sinni að fólk og stofnanir hafi tilhneigingu til þess að líta sögulega atburði í ljósi sinnar samtíðar. Það er álíka mikil tíðindi og þegar félagsfræðingar birta þau sannindi að tekjulágt fólk hafi almennt tilhneigingu til þess að eyða minni peningum en ríkt fólk. Hvaða týru hafa menn aðra með leyfi að spyrja en ljós samtíðar sinnar þegar þeir skoða heimildir um liðna tíð? Það er að minnsta kosti deginum ljósara hvaða fræðaljós lýsir Bryndísi um rökkur fortíðar.

Verst er þó að gerð er tilraun til þess að draga nýliðna Minningardaga um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum niður í túlkunarsvamlið og gera lítið úr þeim án þess að kynna sér það sem fram fór. Fyrir okkur sem vorum viðstödd fjölmenna minningarathöfn á Skansinum um þá 242 einstaklinga sem numdir voru úr Eyjum árið 1627, auk hinna 36 sem myrtir voru í ráninu, var um heilaga stund að ræða. Undanfari hennar var afar vönduð dagskrá þar sem blandað var saman fræðilegum erindum, sögusýningu, sviðsetningu, tónlistarflutningi og staðfræði. Heildarmyndin sem dregin var upp á minningardögunum af ránsferð sjóvíkinga frá Alsír og Salé til Vestmannaeyja fyrir 380 árum var allt önnur og fjölbreyttari en Bryndís vill vera láta, enda fellur hún ekki að kenningum hennar.

Metnaður í Eyjum

Í Vestmannaeyjum er mikill metnaður um þessar mundir til þess að gera Tyrkjaráninu skil.

Það er frumkraftur í Tyrkjaránsfélaginu sem hefur hafið endurgerð bygginga í Dal er hýsa munu safn, leikhús og fræði þegar fram líða stundir. Þessi áhugi hefur skilað Eyjamönnum skilningi á því að þegar persónur úr Tyrkjaráninu eru leiddar fram í sviðsljósið þá verður það ljóst að meðal forfeðra þeirra voru menn og konur sem eiga að vera á palli með öðru evrópsku afreksfólki. Þannig voru Cervantes, D'Aranda og Mascarenas allir kristnir menntamenn er hnepptir voru í þrældóm og rituðu um reisur sínar, eins og fram kom í erindi Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar um Ólaf Egilsson og umheiminn. Séra Ólafur í Ofanleiti mun vera fyrstur norrænna manna sem skráð hefur frásögn af lífi og háttum sjóræningja í Alsír og er algjörlega á pari við hina frægu menn í því efni, en óþýddur. Ekki var síður fróðlegt að heyra Kára Bjarnason bókmenntafræðing lýsa kvæðaarfi séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts, en skýrt má vera af því að Hallgrímur Pétursson stóð m.a. á herðum Jóns þegar hann gaf okkur Passíusálmana. Og hefði Bryndís haft áhuga á því að kynna sér viðhorf kirkjunnar manna til Tyrkjaránsins, hefði henni verið í lófa lagið að lesa merkt erindi Eyjaklerksins, séra Kristjáns Björnssonar, á heimasíðu Landakirkju.

Upplagt Evrópuverkefni

Það er átakanlegt að sjá að hinna ríkulegu heimilda á Íslandi um Tyrkjaránið skuli vart vera getið í þeim bókum sem nú koma út í Evrópu um kristna þræla í Alsír og Marokkó. Þarna er verkefni fyrir fræðimenn og Eyjamenn í sameiningu um leið og þeir skýra það hryðjuverk sem framið var í Eyjum fyrir sér og öðrum. Ránið hefur óteljandi skírskotanir til fortíðar, nútíðar og framtíðar og ætti að vera Evrópuverkefni vegna þess að það er týndur hlekkur í Evrópusögunni. Glíman við þetta verkefni mun styrkja sjálfsmynd Vestmannaeyjabúa og vera framlag í sístæða umfjöllun um stríð og frið.

Höfundur er ráðgjafi.