Það er auðvitað ljóst að gera verður stórátak í því að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og lands. Hvorki skipaferðir né flug eru með viðunandi hætti.
Það er auðvitað ljóst að gera verður stórátak í því að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og lands. Hvorki skipaferðir né flug eru með viðunandi hætti.

Hins vegar er nokkuð ljóst, að jarðgöng milli lands og Eyja eru fjarlægur möguleiki á þessari stundu, eftir að niðurstöður Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens voru lagðar fram varðandi kostnað við gerð slíkra jarðganga.

Verkfræðistofan telur að kostnaðurinn verði á bilinu 50-82 milljarðar. En hitt skiptir ekki síður máli, að sérfræðingar varpa fram þeirri spurningu, hvort nokkurn tímann geti verið réttlætanlegt að grafa og reka svo löng jarðgöng og djúpt undir sjó á svo jarðfræðilega virku svæði sem Vestmannaeyjasvæðið er.

Þegar þetta tvennt kemur saman, annars vegar gríðarlegur kostnaður og hins vegar jarðfræðileg álitamál, er niðurstaðan nokkuð ljós.

Hins vegar verður að teljast sjálfsagt, eins og Morgunblaðið hefur áður sagt, að ljúka jarðfræðilegum og jarðtæknilegum rannsóknum á þessu svæði, þannig að þær niðurstöður liggi fyrir. Þar er um að ræða kostnað, sem talinn er nema 115-275 milljónum króna. Það er skynsamlegt að ljúka þessum rannsóknum. Leiði þær í ljós möguleika á gerð jarðganga er það alveg rétt, sem bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að kostnaður við jarðgöng er sífellt að lækka.

Tæknibúnaður á borð við þann sem notaður hefur verið við Kárahnjúkavirkjun er bylting í gerð jarðganga og gerir það að verkum, að jarðgöng verða snar þáttur í vegaumbótum á Íslandi á næstu árum.

Þess vegna er engin ástæða til að útiloka jarðgangagerð milli lands og Eyja í framtíðinni, þótt ljóst sé að uppbygging í Bakkafjöru sé bezti kosturinn, bæði fyrir Vestmannaeyinga og aðra á þessari stundu.

Vestmannaeyingar eiga kröfu á miklu betri samgöngum en þeir búa nú við. Í raun má segja, að langlundargeð þeirra hafi verið ótrúlega mikið. Flugsamgöngur við Vestmannaeyjar hafa beinlínis versnað og samgöngur á sjó hafa staðið í stað.

Þegar Kristján Möller samgönguráðherra leggur tillögur sínar fyrir ríkisstjórnarfund á morgun, föstudag, hljóta þær að byggjast á því að byggja upp aðstöðu í Bakkafjöru og láta hendur standa fram úr ermum en ljúka jafnframt rannsóknum á svæðinu í kringum Vestmannaeyjar þannig að þeim verði lokið en ekki skotið á frest. Um slíka niðurstöðu ætti að geta orðið sæmileg sátt við Vestmannaeyinga, þótt margir þeirra hafi áreiðanlega bundið miklar vonir við jarðgöng. En það þarf að bretta upp ermarnar.