Indriði Aðalsteinsson
Indriði Aðalsteinsson
Það er sjálfgert að friða rjúpuna segir Indriði Aðalsteinsson: "Við Djúp eru banhungraðar tófur á eftir rjúpunum allan veturinn svo þær sem þó sleppa frá skotveiðimönnum lifa það fæstar lengur að sjá vorsólina."
ÁGÆTI umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Um leið og ég óska þér velfarnaðar í nýju starfi langar mig til að vekja athygli þína á ákveðnu málefni sem ráðuneyti þitt varðar, ástand rjúpnastofnsins. Ég er fjárbóndi og hef verið útivistarmaður alla tíð, fengsæl rjúpnaskytta lengi, meðan í eitthvað var að sækja, og hef þurft að sinna vargaeyðingu hin seinni ár. Það má því segja að ég hafi alltaf verið á vettvangi rjúpunnar, og ég hef skipt mér töluvert af fjölmiðlaumræðu um þennan merka fugl.

Álfar út úr hól

Árið 2003 lagði Náttúrustofnun til fimm ára veiðibann á rjúpu vegna hörmulegs ástands stofnsins. Það varaði þó aldrei nema tvö ár vegna skammsýni tveggja forvera þinna í embætti en hafði þó þau áhrif að stofninn óx um 80-100 prósent en hefur síðan dalað, samkvæmt talningu, fyrst um 12 prósent og síðan 27 prósent í vor þrátt fyrir að samkvæmt tíu ára sveiflukenningu rjúpnafræðinga ætti stofninn nú að vera á hraðri uppleið. Skotveiði var sáralítil eða engin þessa tvo síðustu vetur hjá þeim sem fóru til veiða en um 40 prósent veiðimanna sáu sóma sinn mestan í þessari stöðu að sitja heima.

Ég hef lengi furðað mig á að rjúpnafræðingarnir eru eins og álfar út úr hól í vísindum sínum. Lengi sögðu þeir að veiði hefði engin áhrif á stofninn. Svo var dregið í land með þá kenningu en ný smíðuð um að ungrjúpan hryndi niður í tugþúsundatali í fyrstu hausthretum. Hvorki ég né nokkrir aðrir hafa þó fundið ræflana af öllum þessum fjölda enda mun þessi bábilja nú vera dáin drottni sínum.

Enn er þó farið á flot með ný afránsfræði. Í Morgunblaðinu 16. júní af Ólafi K. Nílsen þar sem hann vill meina að girðingar og raflínur vítt og breitt um landið varni nú uppsveiflunni. Áflugið drepi sem sé tugþúsundir rjúpna. En tún og hagagirðingar hafa aldrei verið rjúpunni mjög skeinuhættar; símalínur sem áður þveruðu alla dali eru horfnar og þótt raflínum hafi ef til vill fjölgað er þessi afránsþáttur smámunir miðað við það sem áður var. Hvað aðrar ástæður varðar nú en ekki fyrr nefnir Ólafur svo ágang minks og betri búnað veiðimanna. Þetta hvort tveggja er náttúrlega miklu alvarlegra mál en áflug á línur. En hvers vegna í ósköpunum lætur Ólafur óáminnst það sem mestu veldur um hörmungar rjúpunnar, en það er refurinn?

Friðlaus fugl

Nú á dögunum fór ég í seinni grenjaleit á mínu veiðisvæði. Nóg var af refnum enda ríkisuppeldisstofnun vargsins, Hornstrandafriðland, á næsta leiti. En þó ég sé nánast genginn upp að hnjám hef ég ekki enn gengið fram á nokkurn rjúpuunga á þessum fyrrum frægu rjúpnaslóðum. Slíkt hefur auðvitað aldrei gerst áður í mínu tilviki. En við Djúp eru banhungraðar tófur á eftir rjúpunum allan veturinn svo þær sem þó sleppa frá skotveiðimönnum lifa það fæstar lengur að sjá vorsólina og auka kyn sitt. Fyrir skömmu var ég í brúðkaupi systursonar míns og var þá svo heppinn að hafa að sessunaut Sigurð G. Tómasson, útvarpsmann og fjölfræðing. Hann á sumarbústað í Þingvallasveit og sagði mér að rjúpa hefði varla sést þar í vor og aldrei þessu vant ekkert hreiður verið í námunda við bústaðinn enda ekki von, allur fugl strádrepinn af skotveiðimönnum, sagði Sigurður. Viðlíka fregnir um algert rjúpnaleysi hef ég víðar að en að sama skapi fjölgar alls staðar ref. Fálka hef ég ekki séð lengi og segir það sitt um ástandið.

Friðun

Í þessari stöðu finnst mér sjálfgert að friða rjúpuna, að minnsta kosti næstu fimm árin. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur ábyrgur aðili geti mælt með því. Meira að segja hefur stjórn Skotvíss viðurkennt bágt ástand stofnsins með heilsíðu varnaðarauglýsingu í blöðum í fyrrahaust.

En friðun er engan veginn nóg heldur verður að snúast gegn varginum, og þá fyrst og fremst ref og mink, af fullkominni hörku. Stórauka þarf fjárframlög ríkisins í því skyni. Það taki minkaveiðikostnaðinn alfarið á sínar herðar og standi undir helmingi af greiðslu fyrir unna refi eins og verið hefur til skamms tíma. Veiðistjóraembættið, sem nú er rjúkandi rúst, verði endurreist undir stjórn veiðimanns, ekki líffræðings, og refa- og minkaeyðing verði aftur heimiluð í þjóðgörðum, friðlöndum og miðhálendinu.

Sért þú ekki þegar búin að ræða við stjórn Bjarmalands, félags refa- og minkaveiðimanna, hvet ég þig eindregið til að gera það sem fyrst til að fræðast um stöðu mála. Formaður þess er Snorri Jóhannesson, Augastöðum í Hálsasveit í Borgarfirði.

Með baráttukveðju

Höfundur er bóndi á Skjaldfönn v/Djúp.