[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is ENGU er logið þegar fullyrt er að arabísku furstadæmin við Persaflóa verði æ meira áberandi í viðskiptalífi Vesturlanda.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is ENGU er logið þegar fullyrt er að arabísku furstadæmin við Persaflóa verði æ meira áberandi í viðskiptalífi Vesturlanda. Nýjasta dæmið er furstadæmið Katar sem reynt hefur að eignast bresku smásölukeðjuna Sainsbury's, keypt 20% hlut í eignarhaldsfélagi kauphallarinnar í London (LSE) og gerir nú allt sem það getur til þess að torvelda yfirtöku frændans í Dubai á norrænu kauphöllinni OMX. Vangaveltur eru uppi um hvort Qatar Holding, eignarhaldsfélag ríkisstjórnar Katar, muni sjálft gera yfirtökutilboð í OMX en slíkt hefur enn ekki borist þrátt fyrir að Qatar Holding hafi þegar flaggað nær 10% hlut í félaginu og gert stærstu hluthöfum þess tilboð í hlut þeirra.

Katar er svo sem ekki fyrsta arabíska furstadæmið sem reynir að gera sig gildandi á alþjóðamörkuðum og er þar skemmst að minnast áðurnefnds frændríkis í Dubai. Emírinn þar á bæ hefur auk þess að reyna að taka yfir OMX gert árangurslausa tilraun til þess að taka yfir þekktasta knattspyrnufélag heims, enska stórveldið Liverpool. Þá hefur eyjaframleiðsla hans vakið verðskuldaða athygli. En víkjum nú að grannríkinu Katar, sem stýrt er af emír Hamad bin Khalifa Al-Thani.

Verður hjartað í Doha?

Höfuðborg landsins, Doha, hefur á undanförnum árum helst verið þekkt fyrir að vera gestgjafi viðræðna um milliríkjaverslun en nú dreymir emírinn og skósveina hans um að Doha verði fjármálamiðstöð Mið-Austurlanda, ekki ósvipað þeirri draumsýn sem áðurnefndur emír í Dubai hefur. Og í fjármálahverfi borgarinnar virðist sjálfstraustið vera í botni eins og orð Charles Moncrieff, forstjóra HSBC í Katar, gefa til kynna. "Ekkert ræður við efnahagslegan styrk okkar," segir hann við Dagens Industri , en HSBC er stærsti banki Evrópu og sá þriðji stærsti í heiminum.

Reyndar virðast flestir í fjármálahverfi Doha vera sannfærðir um að hjarta fjármála í Mið-Austurlöndum muni í framtíðinni slá í Doha en ekki í Dubai. Ljóst er að fjárhagslegur styrkur er fyrir hendi, auk þess sem unnið hefur verið að því að einfalda lagaramma og sníða hann að því sem vestrænir aðilar eiga að venjast. Til þess að geta laðað að sér stóra fjárfesta annars staðar að úr heiminum er hins vegar mikilvægt að koma á fót leiðandi kauphöll og það er einmitt þess vegna sem OMX er svo lokkandi. Eins og fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaði Morgunblaðsins hinn 23. ágúst sl. er OMX á meðal þeirra allra fremstu í heiminum í þróun markaðslausna og upplýsingatækni fyrir kauphallir, ef ekki fremst í flokki. Og það er fyrst og fremst sú þekking sem emírarnir báðir, og reyndar Nasdaq einnig, ásælast. Og þeir virðast báðir vera tilbúnir til þess að ganga langt til þess að ná markmiðum sínum.

Borse Dubai hefur boðið hluthöfum OMX 230 sænskar krónur á hlut, í reiðufé, fyrir hlut þeirra í félaginu. Qatar Holding hefur greitt 260 krónur á hlut fyrir þá hluti sem félagið hefur verið að kaupa að undanförnu. Og nú er talað um að báðir aðilar séu tilbúnir til þess að greiða allt að 300 sænskar krónur á hlut. Til þess að setja töluna í samhengi er rétt að benda á að gengi OMX í sænsku kauphöllinni hefur ekki verið nálægt 300 síðan á síðari hluta ársins 2000.

Hagvöxtur á ári er 24%

Þeir eru til sem reikna með að Katar verði árið 2010 orðið ríkasta land heims miðað við verga landsframleiðslu á mann enda mun hagvöxtur vera um 24% á ári. Ljóst er að landið er eitt örast vaxandi hagkerfi heims og lykillinn að því er, eins og hjá mörgum öðrum arabaríkjum, gífurlega auðugar náttúruauðlindir landsins. Árið 2010 er talið að verg landsframleiðsla Katar verði tæplega 6.700 milljarðar króna, verg landsframleiðsla Íslands árið 2006 er áætluð tæplega 1.163 milljarðar króna en íbúafjöldi Katar er innan við þrefaldur íbúafjöldi Íslands.

Velmegun Katar-búa byggist eins og áður segir að mestu á gríðarlegum náttúruauðlindum landsins en olían leikur þar ekki stærsta hlutverkið, líkt og víða annars staðar í Arabíu, heldur er það fljótandi náttúrugas sem er helsta auðlindin. Á þessu ári er reiknað með að landið muni flytja út um 25 milljónir tonna af náttúrugasi en áætlað er að útflutningurinn muni þrefaldast á næstu þremur árum. Fari svo verður Katar leiðandi náttúrugasframleiðandi í heiminum. Og efnahagur landsins er fjarri því að vera háður efnahagsástandi í Bandaríkjunum ef marka má Charles Moncrieff. "Niðursveifla í Bandaríkjunum hefur ekki mikil áhrif í Katar. Útflutningur til Asíu er mjög umfangsmikill og stöðugt er verið að stofna til nýrra tengsla," segir hann.

Ótrúlegur metnaður

ÍSLENDINGURINN Örn Valdimarsson starfar á skrifstofu breska bankans Standard Chartered í alþjóðlegu fjármálamiðstöðinni í Dubai (DIFC) þar sem Kaupþing banki hefur fengið leyfi til þess að opna útibú.

Hann hefur búið í Dubai í tvö ár og segir að uppgangurinn og metnaðurinn sem einkennir ríkið sé alveg ótrúlegur. Dubai eigi ekki eingöngu í baráttu við Qatar um að verða fjármálamiðstöð Mið-Austurlanda því annað arabískt furstadæmi, Abu Dhabi, hafi einnig hug á því. Abu Dhabi er höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna en Dubai fjármálamiðstöðin. "Dubai er reyndar ekki viðurkennda fjármálamiðstöðin heldur er sjeikinn hér að reyna að festa hana í sessi sem slíka. Þetta er mikið kapphlaup við Abu Dhabi sem einnig vill vera fjármálamiðstöð furstadæmanna. Sjeikinn hér í Dubai hefur unnið mjög markvisst að því að fá erlend fjármálafyrirtæki til þess að opna hér starfsstöðvar og náð mun meiri árangri í því en Abu Dhabi," segir Örn.

Dubai á, að sögn Arnar, minni olíu en Abu Dhabi og því hafi sú leið verið farin að reyna að efla ferðamannaiðnað og fjármálaiðnað. "Sem dæmi má nefna að hér er verið að byggja stærsta flugvöll í heimi, hann á að vera stærri en O'Hare-flugvöllurinn í Chicago og Heathrow í London samanlagðir. Stærðirnar sem maður heyrir talað um hér eru stundum svo miklar að maður skilur það bara ekki. Þegar ég spyr svo hvað menn hafi hugsað sér að fá marga ferðamenn eru svörin enn ótrúlegri," segir Örn.

Örn segir að fjármálastarfsemi í Dubai sé að einu leyti mjög frábrugðin því sem gerist í hinum vestræna heimi. Samkvæmt hinum íslömsku Sharia-lögum, sem gilda um fjármálastarfsemi, eru vextir á lánum ekki leyfilegir. Því verði fjármálafyrirtæki að grípa til annarra ráða til þess að hagnast. Nær allar tekjur eru fengnar með þjónustugjöldum eða jafnvel með kaupleigufyrirkomulagi. Örn segir það athyglisvert að Kaupþing skuli hafa ákveðið að opna skrifstofu í Dubai og leiðir að því líkum að ástæðan sé sú að annað íslenskt fyrirtæki hyggist færa út kvíarnar til Persaflóasvæðisins. Oftast er það þannig að bankar fara í útrás til þess að fylgja eftir einhverjum viðskiptavinum sínum og geta veitt þeim þann stuðning sem þau þurfa á staðnum," segir Örn og tekur fram að hann vilji óska Kaupþingi til hamingju með skrifstofuna í Dubai.