Vinsæl Lindin á Laugarvatni er ekki síður vinsæl á meðal útlendinga eins og gestabókin ber vitni um og er súkkulaðimús hússins þar nánast nefnd á hverri síðu.
Vinsæl Lindin á Laugarvatni er ekki síður vinsæl á meðal útlendinga eins og gestabókin ber vitni um og er súkkulaðimús hússins þar nánast nefnd á hverri síðu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veitingastaðurinn Lindin á Laugarvatni er eitt af best geymdu leyndarmálum veitingastaðaflórunnar að mati Eddu Jóhannsdóttur og reyndar erlendra ferðahandbóka og fransks tímarits. Hún gæddi sér á gómsætu jólahlaðborðinu.

Gestabókin er full af útlendum nöfnum og þakklætiskveðjum og Íslendingar eru að bætast í hópinn þar, því sem betur fer hefur orðstírinn breiðst út.

Nú fara æ fleiri á Laugarvatn gagngert til að gæða sér á réttum Baldurs Öxdals, matreiðslumanns á Lindinni, og njóta frábærrar þjónustu. Staðurinn hefur hlotið viðurkenningu tímaritsins Lonely planet sem gefur honum hæstu einkunn fyrir mat og þjónustu og franskt tímarit hefur skrifað um staðinn og lofað hann í hástert.

Þjónninn okkar kvöldið sem við heimsækjum Lindina kemur alla leið frá Austurríki, heitir Nikulás og er á þönum í kringum okkur allan tímann. Þegar hann hefur fært okkur kaffið og Baldur er á fullu í matseldinni er ekki hægt annað en fá Nikulás til að setjast niður og rekja svolítið úr honum garnirnar. Hann hefur verið á Íslandi í fimm ár og talar lýtalausa íslensku, sem hann segir fyrrverandi eiginkonu að kenna – eða kannski þakka.

"Ég keypti mér kennslubók í íslensku og ætlaði bara að læra nokkur aðalatriði en þegar konan mín fyrrverandi var búin að lesa tvær fyrstu línurnar sagði hún: "Þú getur aldrei lært þetta." Þá tók ég ákvörðun um að læra íslenskuna eins vel og ég gæti," segir Nikulás hlæjandi og viðurkennir að svona áskoranir standist hann ekki. Hann fékk sér einkakennara og árangurinn er nánast fullkominn.

Hann hefur alltaf haft áhuga á Íslandi, segir það vera í beinunum og tengir það líka Wagner sem var mikið spilaður á æskuheimili hans. "Niflungahringurinn var einhvern veginn svo tengdur þessu landi og ég vissi alltaf að ég yrði að koma. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum," segir hann hlæjandi.

Matreiðslumeistari í þekkingarleit

Nú kallar Baldur og Nikulás hraðar sér í eldhúsið. Þeir koma til baka með skógarhjört og hreindýr og maturinn er svo unaðslegur að við megum vart mæla. Sem er ágætt því þá getur Baldur frætt okkur svolítið um staðinn á meðan.

Baldur Öxdal Halldórsson er matreiðslumeistari, en fór meðal annars til New York og lærði þar ýmislegt tengt veitingahúsarekstri, desert-gerð og fleiru. Hann lærði einnig hvernig staðið er að matargerð fyrir sjónvarp og tímarit.

"Hér heima byrjaði ég svo á því að opna Arnarstapa á Snæfellsnesi, árið 1986 að mig minnir. Ég fór síðan aftur til New York og bætti við mig. Skólinn sem ég var á í New York er mekka matreiðslumanna í heiminum og þegar ég kom þaðan byrjaði ég á Holiday Inn og kom þar eftirréttum á kortið. Ég aflaði mér mikillar þekkingar á þessum tíma og þróaði þá eftirréttina. Ég lét svo gamlan draum rætast og fór í konditorskóla í Sviss. Eftir það vann ég meðal annars hjá Sveini bakara, en ég hef alltaf verið að vafstra í mörgu.

Baldur og vinirnir veiða villibráðina

Baldur tók við Lindinni fyrir fimm árum, en þá var veitingastaðurinn í rekstri stuttan tíma á ári og mest með pítsur.

"Þetta var ágætur staður en ég gat ekki hugsað mér að halda áfram með hann óbreyttan. Við gerðum nokkrar breytingar á húsnæðinu og ég ákvað að "villt og sætt" yrði aðal staðarins. Villibráðin er mest hér úr sveitinni, eins og silungurinn til dæmis, og svo hef ég sjálfur verið að veiða og skjóta. Ég og vinir mínir veiðum mikið af villibráðinni sem er borin er á borð hér. Svo má ekki gleyma eftirréttunum, ég legg mikla áherslu á deserta og súkkulaðimúsin okkar er fræg um víða veröld," segir Baldur hlæjandi og blaðamaður fær það heldur betur staðfest þegar hann flettir gestabókinni þar sem súkkulaðimúsin er nefnd á nánast hverri síðu. Eftir að hafa fengið að bragða á nefndri súkkulaðimús var blaðamaður einfaldlega "kjaftstopp" þó að það sé næstum dauðasynd að nota þetta ljóta orð í virðulegu blaði um virðulegan veitingastað.

Lindin ljómar af jólum

Á sumrin skrifa starfsmenn Lindarinnar matseðilinn á spegilinn og reyna að hafa hlutina sem einfaldasta. "Ferðamenn eru oft á hraðferð og þá er gott að vera með einfaldan matseðil," segir Baldur. "En nú hefur þetta verið að breytast, fólk kemur orðið meira til að njóta matarins og umhverfisins í ró og næði."

Til stendur að tvískipta Lindinni þannig að salurinn sem búið er að bæta við verði meira eins og kaffi-bistro-staður með léttum réttum og þar er stór skjár fyrir þá sem vilja horfa á boltann til dæmis.

Hinu megin verður restaurantinn þar sem fólk getur valið milli eðalrétta og haft nógan tíma til að borða og njóta. Í ár verður Lindin opin fram í miðjan desember og boðið verður upp á jólahlaðborð ásamt villibráð og húsið verður skreytt hátt og lágt og ljómar af jólum.

Nikulás er sestur hjá okkur aftur og segist stundum sakna Austurríkis á jólunum. "Ég ólst upp í skíðaþorpi svo jólin í minningunni eru bara fullar skíðabrekkur og veitingastaðir fullir af fólki. Við héldum upp á jólin 14. desember því daginn eftir fór túrisminn í gang. Á aðfangadagskvöld er borðað nokkurs konar nautasoð, pakkar opnaðir og svo farið á djammið," segir Nikulás hlæjandi og rifjar upp þegar hann kom hingað sem ferðamaður til að halda upp á jólin fyrir mörgum árum.

"Það var ömurlegt," segir hann. "Það var allt lokað og túristarnir voru á ráfi í bænum að reyna að finna einhverja opna matsölustaði, örvæntingarfullir af hungri og leiða."

Þeir sem vilja gera sér dagamun fyrir jólin þurfa ekki að upplifa þessa leiðu stemningu heldur geta pantað borð á Lindinni og átt þar ógleymanlegt kvöld, etið dýrðlegan mat og notið þjónustu og umhverfis eins og það gerist best.

eddajoh@mbl.is