Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is ÞÚSUNDIR heimila eyðilögðust í öflugum fellibyl sem gekk yfir suðvesturströnd Bangladesh í gærkvöldi. Hundruð þúsunda manna þurftu að flýja heimili sín, m.a. vegna hættu á mikilli flóðbylgju.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

ÞÚSUNDIR heimila eyðilögðust í öflugum fellibyl sem gekk yfir suðvesturströnd Bangladesh í gærkvöldi. Hundruð þúsunda manna þurftu að flýja heimili sín, m.a. vegna hættu á mikilli flóðbylgju.

Vindhraðinn var allt að 67 metrar á sekúndu, en hér á landi miðast fárviðri, eða tólf vindstig, við tæpa 33 metra á sekúndu. Búist var við að fellibylurinn ylli allt að sex metra hárri flóðbylgju sem gæti fært stór svæði í strandhéruðunum í kaf.

Haft var eftir íbúum strandhéraðanna að þúsundir heimila, aðallega strá- og leirkofar, og margir skólar hefðu eyðilagst í óveðrinu.

Ekki var vitað um manntjón af völdum óveðursins í gærkvöldi.

Miklar varúðarráðstafanir

Yfirvöld sögðu að um 3,2 milljónum manna hefði verið sagt að forða sér af strandsvæðunum og að minnsta kosti 650.000 manns hefðust við í neyðarskýlum.

Samarendra Karmakar, veðurstofustjóri Bangladesh, sagði að bylurinn hefði verið álíka öflugur og fellibylur sem gekk yfir landið árið 1991 og varð u.þ.b. 138.000 manns að bana. „Við búumst þó við minna manntjóni núna vegna þess að stjórnvöld gripu tímanlega til varúðarráðstafana. Við gerðum fólki viðvart og sögðum því að forða sér fljótt.“

Almannavarnayfirvöld í Bangladesh spáðu því að eignatjónið yrði gríðarlegt. Um 40.000 lögreglumenn, hermenn, læknar og hjúkrunarfræðingar voru send á hættusvæðin á ströndinni. Talið var að fellibylurinn gæti einnig valdið tjóni á austanverðu Indlandi og á vesturströnd Búrma.

Fellibyljir eru algengir í strandhéruðum Bangladesh. Mannskæðasti bylurinn kostaði rúma hálfa milljón lífið árið 1970. Hann varð til þess að yfirvöld komu upp mörgum neyðarskýlum og viðvörunarkerfi sem hefur orðið til þess að manntjónið af völdum fellibylja hefur minnkað til muna.