— Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkrir þjóðþekktir einstaklingar voru inntir eftir því hvert þeirra uppáhaldsorð væri í íslensku máli. Ekki stóð á svörum og ráku allir út úr sér tunguna í tilefni af Degi íslenskrar tungu.

Uppáhaldsorð? „Kærleikur“

Af hverju? „Kærleikur er það fyrsta sem kemur upp í hugann en auðvitað er orðgnótt íslenskunnar mikil. Með þessu orði verður mér sjálfkrafa hugsað til fjölskyldunnar minnar en það dásamlega við íslenskuna er hið tilfinningalega umrót og unaður sem hún getur hrint af stað. Orðið kærleikur er nátengt ástinni og stuðlar að vellíðan meðan önnur orð geta dregið fram aðra tilfinningu, aðrar kenndir. Náttúran okkar geymir mörg af okkar fallegustu orðum eins og blágresi, eyrarrós, Herðubreiðarlindir. Með móðurmálinu og náttúrunni verður ferðalagið, lífið, skemmtilegt.“

Þorgerður Katrín

Gunnarsdóttir,

menntamálaráðherra

Uppáhaldsorðið? „Fiðrildi“

Af hverju? „Mér finnst það svo fallegt orð, miklu fallegra en „butterfly“, fallegra en „smjörfluga“ (bein þýðing á butterfly).“

Paul F. Nikolov,

varaþingmaður Vinstri grænna

Uppáhaldsorðið? „Fjölkollusvæði“

„Þegar ég var lítill var ég í sveit og þá vorum við að tína æðardún frá æðarkollum í stóru varpi. Þegar við vorum að tína var varpinu skipt upp í svæði. Þar sem voru svæði þar sem voru margar kollur og nóg af dúni á hverjum degi, þá datt mér í hug þetta orð og þetta fannst foreldrum mínum æðislega sniðugt.“

Árni Beinteinn Árnason,

kvikmyndagerðarmaður

Uppáhaldsorðið? „Ha“

Af hverju: „Af því erlendis er þetta talið dónalegt, mjög mikil ókurteisi. Við svífumst einskis með að nota það. Þetta lýsir okkur rosalega vel. HA?! HA?!“ hrópar Krummi og hlær. „Þetta er eins og segja What?! What?! WHAT?!, þú veist. „Ha“ er algjör snilld.“

Krummi Björgvinsson,

söngvari

Uppáhaldsorð? „Grjót“

Af hverju? „Það hljómar svo fallega, sterkt orð. Uppáhaldsíþrótt mín í barnæsku var grjótkast, ekki nokkur spurning,“ segir Kári. Hann hafi sett saman ættjarðarljóð eitt sinn er hann kom til Íslands eftir langa veru erlendis: „Það er á mínu böli bót/ og björg úr ljótum pínum/ aftur að hafa íslenskt grjót/ undir fótum mínum. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ættjarðarástin hjá mér snerist öll um grjót.“ Kári segist aðspurður ekki muna eftir því að hafa kastað grjóti í mann þegar hann bjó í Bandaríkjunum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar

Uppáhaldsorð? „Kærleikur“

Af hverju? „Mér finnst það ótrúlega vel heppnað orð. Það er kampavín í því, „upp-orka“,“ segir Halldóra. „Það er eiginlega dansandi uppstreymi. Dansandi hlýtt. Bæði hlýtt og dansandi. Það er hlýr, dansandi andblær í uppstreymi.“

Halldóra Geirharðsdóttir,

leikkona

Uppáhaldsorð? „Skarbítur“

Hvað er nú það? „Það er tæki til að klippa kveik af kerti sem orðinn er of langur. Hann lítur út eins og skæri með lítilli skúffu sem grípur kveikinn.“

Af hverju þetta orð? „Ég var að horfa á svo fallegt skarbítasafn sem vinur minn á og þá fór ég að hugsa um hvað þetta er fallegt orð, skarbítur.“ Þórarinn segir vin sinn alltaf á höttunum eftir skarbítum, hann sé skarbítasafnari. Það er líka fallegt orð.

Þórarinn Eldjárn, rithöfundur

Uppáhaldsorð? „Raggeit“

Af hverju? „Það er svo ótrúlega þjált og fallegt en um leið svo rosalega gildislægt!“ hrópar Dóri DNA af hrifningu yfir orðinu.

Hvernig rappar maður „raggeit“? „Mamma þín er akfeit og pabbi þinn er raggeit,“ svarar Dóri um hæl, og leggur áherslu á framburðinn, hann segi rag-geit.

Dóri DNA, rappari

Uppáhaldsorð? „Langintes“

Af hverju? „Ekki af neinni ástæðu, það er bara svo skemmtilegt.“

Heldurðu að það sé gaman að vera langintes? „Ég veit nú ekki hvort það er gaman en orðið er flott.“

Kristín Svava Tómasdóttir,

ljóðskáld

Uppáhaldsorðið? „Skrímsl“

Af hverju? „Af því það er bæði fallegt orð og skemmtilegt fyrirbæri. “

Úlfhildur Dagsdóttir,

bókmenntafræðingur

Uppáhaldsorð? „Rökrétt“

Af hverju? „Það fer svo í pirrurnar á mér þegar Íslendingar segja að eitthvað „meiki sens“. Það er annar hver maður í kringum mig sem segir að eitthvað meiki sens,“ segir Birgitta. „Rökrétt er miklu betra orð að nota. Það fara oft í mig einhverjar svona slettur sem mér finnst svo ljótar í okkar fallega tungumáli.“

Birgitta Haukdal,

söngkona

Uppáhaldsorðið? „Kærleikur“

Af hverju? „Það er bara svo flott orð. Þetta er svo stórt orð, nær yfir svo margt.“

Fanney Lára Guðmundsdóttir,

Ungfrú Eystrasalt og Skandinavía