Gola Vilborg gáir til veðurs.
Gola Vilborg gáir til veðurs. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig var veðrið í gær? Segðu það með þínum orðum, þau segja það með sínum orðum, fjórar kynslóðir orðlagðra Íslendinga, sem hver um sig lýsir veðri gærdagsins á sinn hátt.

Örlítill andvari

„MIÐAÐ við árstíma þá er veðrið mjög gott. Það er ekki dimmt og það er ekki bjart. Það sér ekki neins staðar í bláan blett á himninum. Það er örlítill andvari og raki, – ekki rigning, ekki dropar, en maður finnur raka í loftinu, svo þessi gola er örlítið blaut. Það bærast aðeins mjóu greinarnar á öspunum hérna fyrir handan, en auðvitað eru þær alveg lauflausar. Það eru engin lauf á trjánum sem ég sé hér, þau eru öll fokin af.“

Vilborg Dagbjartsdóttir

kennari og skáld

Ýrir aðeins úr lofti

„ÞAÐ er alltaf bjart yfir hjá mér. En af glugganum að dæma er grámi yfir Vatnsmýrinni. Af ferðum mávanna sé ég að það viðrar mjög vel til flugs; þetta er draumaveður til að spila fótbolta. Það er aldrei betra að hreyfa sig en þegar ýrir aðeins úr lofti og regndroparnir leka niður með svitadropunum. Þetta er draumaveður miðað við árstíma. Svo getur skipast veður í lofti og staðan gjörbreytt eftir hálftíma. Þá er að taka því eins og öðrum lífsins lystisemdum.“

Dagur B. Eggertsson

borgarstjóri

Súldin er ekkert síðri

„ÉG fékk textaboð frá vinkonu minni í London, sem óskaði sér þess að ég ætti töfrateppi til að koma og horfa á morgunbjarmann. Þá fór ég að líta í kringum mig, var að ganga heim af æfingu. Ég hugsaði: Súldin hér er ekkert síðri, því súldin er uppáhaldsveður hjá mér, ég tala nú ekki um ef það er líka þoka. Hún er umvefjandi og á þessum tíma fer maður svolítið inn í sjálfan sig. Ég hugsa að ég hefði hafnað töfrateppinu til að geta notið súldarinnar.“

Einar Jóhannesson

klarinettuleikari

Skýjað og smá úði

„ÞAÐ var kalt veður í dag og smá úði, en stillt. Það var líka skýjað. Mér finnst svona veður bara þægilegt, sérstaklega þegar það er ekki rok.

Þetta er bara gott veður. En maður er kannski meira inni í svona veðri. Mér finnst best þegar það er stillt veður, en það má þá líka vera sól og blíða.

Annars hlakka ég til að það fari að snjóa, ég myndi miklu frekar vilja hafa snjó en svona veður.“

Védís Pálsdóttir

framhaldsskólanemi