Í TILEFNI af útgáfu 30 ára afmælisrits Eiðfaxa verður efnt til afmælishátíðar í Vetrargarðinum í Smáralind á milli kl. 16 og 19 í dag, föstudaginn 16. nóvember.

Í TILEFNI af útgáfu 30 ára afmælisrits Eiðfaxa verður efnt til afmælishátíðar í Vetrargarðinum í Smáralind á milli kl. 16 og 19 í dag, föstudaginn 16. nóvember. Þar munu margir af fremstu knöpum landsins úr meistaradeild VÍS sýna hesta sína og taka þátt í keppni í hægatölti, segir í fréttatilkynningu.

Meðal hestamanna sem fram koma á hátíðinni verður Valdimar Bergstað, en hann var kjörinn efnilegasti knapinn árið 2007 á uppskeruhátíð hestamanna um síðustu helgi.

Þá mun Þorvaldur Árni Þorvaldsson reiðkennari verða með sýnikennslu í grunnatriðum reiðmennskunnar.

Leitast verður við að bjóða upp á spennandi og skemmtilega dagskrá þar sem lögð er áhersla á að skemmta bæði hestamönnum sem öðrum. Settir verða upp sýningarbásar í Vetrargarðinum þar sem fyrirtæki sýna vörur sem tengjast hestamennsku og félagasamtök hestamanna kynna starfsemi sína.

Aðgangur að afmælishátíðinni er ókeypis og er hægt að nálgast dagskrá hennar á vef Eiðfaxa: www.eidfaxi.is