Glæsilegt Jón Gíslason með útskorinn kontrabassaleikara og Haraldur Ingi safnstjóri heldur á manni að vinna við hefilbekk. Verkin eru gerð af miklum hagleik og ríkri tjáningarþörf, segir Haraldur.
Glæsilegt Jón Gíslason með útskorinn kontrabassaleikara og Haraldur Ingi safnstjóri heldur á manni að vinna við hefilbekk. Verkin eru gerð af miklum hagleik og ríkri tjáningarþörf, segir Haraldur. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Gíslason fyrrverandi húsasmíðameistari hefur fært Iðnaðarsafninu á Akureyri að gjöf 30 útskurðarmyndir eftir sjálfan sig. Jón er á tíræðisaldri, fæddur 1915, og er enn að skera út listaverk. Glæsilega gripi af ýmsu tagi eins og sjá má í safninu.

JÓN Gíslason fyrrverandi húsasmíðameistari hefur fært Iðnaðarsafninu á Akureyri að gjöf 30 útskurðarmyndir eftir sjálfan sig. Jón er á tíræðisaldri, fæddur 1915, og er enn að skera út listaverk. Glæsilega gripi af ýmsu tagi eins og sjá má í safninu.

Jón lagði stund á húsasmíðar á Akureyri allan sinn starfsferil. Listáhuginn blundaði ávallt í Jóni og hann sótti námskeið fyrir margt löngu hjá Hauki Stefánssyni listmálara og Jónasi S. Jakobssyni sem m.a. gerði styttuna af Helga magra og Þórunni hyrnu.

Jón hefur sinnt listsköpun áratugum saman, mótað verk í leir og gifs auk þess að teikna, en það var ekki fyrr en undir áttrætt sem hann tók til við að skera út í íslenskt birki hinar fjölbreytilegustu myndir. Myndefnið er margvíslegt, eins og Haraldur Ingi Haraldsson, safnstjóri Iðnaðarsafnsins, nefndi í gær, þegar hann tók formlega við gjöfinni. „Tréskurðarmyndirnar eiga það sameiginlegt að vera gerðar af miklum hagleik og ríkri tjáningarþörf,“ sagði Haraldur Ingi. „Iðnaðarsafninu á Akureyri er mikill fengur af þessum verkum úr hendi manns sem starfsævi sína hafði atvinnu af húsasmíðaiðnaði. Sú tenging við listina gerir verkin sérstaklega verðmæt fyrir þetta safn, sem einbeitir sér að því að safna iðnmunum. Þessir gripir gefa okkur nýja vídd, nýja sýn.“

Haraldur Ingi lýsti yfir mikilli ánægju með gjöfina. „Þetta eru hagleiksgripir og einstaklega tjáningarríkir, Jón tekur fyrir hin aðskiljanlegustu efni; það er ólgandi tónlist í gripunum, móðurást, trúmál, sorgin, gleðin og vinnan...“

Jón Gíslason sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins að þrátt fyrir að heyrnin væri farin að bila gæti hann enn vel unnið í höndunum, og það leyndi sér ekki á gripunum. Og Jón hefur gaman af því að skera út þó hann segðist gera minna af því en áður. „Það er ekkert betra til þess að eyða tímanum,“ sagði hann.