Áfram! Hvatning 2 milljóna áhorfenda gerir New York maraþonið bærilegra. Það dugar þó ekki alltaf til.
Áfram! Hvatning 2 milljóna áhorfenda gerir New York maraþonið bærilegra. Það dugar þó ekki alltaf til. — AP
METÞÁTTTAKA var í maraþonhlaupum Íslendinga erlendis í ár, en um 270 íslenskir hlauparar hafa tekið þátt í erlendum maraþonum á þessu ári. Þetta er mikill fjöldi ef borið er saman við þátttöku Íslendinga í hlaupum hérlendis.

METÞÁTTTAKA var í maraþonhlaupum Íslendinga erlendis í ár, en um 270 íslenskir hlauparar hafa tekið þátt í erlendum maraþonum á þessu ári.

Þetta er mikill fjöldi ef borið er saman við þátttöku Íslendinga í hlaupum hérlendis. Í Reykjavíkurmaraþoninu voru 180 íslenskir þátttakendur (útlendingar voru 382), 32 Íslendingar hlupu Mývatnsmaraþon og um 90 hlupu Laugavegsmaraþonið.

Til samanburðar mætti taka Berlínarmaraþonið, en þar tóku 88 Íslendingar þátt, 67 Íslendingar hlupu maraþon í Kaupmannahöfn og 41 í New York.

Þessar upplýsingar má finna á vefsíðunni hlaup.is. Sumir hlauparanna tóku þátt í fleiri en einu hlaupi. Þá er auðvitað hugsanlegt að íslenskir langhlauparar hafi keppt í maraþoni á erlendri grundu án þess að upplýsingar um það hafi borist hlaup.is.

Breyttur lífsstíll Íslendinga

Eitt af því sem heillar við erlend maraþon er að þar eru áhorfendur fleiri og hlaupin því ekki eins einmanaleg og stundum vill verða í íslenskum hlaupum.

Torfi H. Leifsson umsjónarmaður vefsíðunnar hlaup.is segir breyttan lífsstíl einnig geta haft sitt að segja. Nú telji fólk sig þurfa að gera eitthvað annað í utanlandsferðum en að liggja í sólbaði eða versla. Hann bendir jafnframt á að áhugi á hlaupum hafi aukist gríðarlega svo það útskýri einnig þessa miklu aukningu.

Skipulagning ferða eins og á vefsíðunni hlaupaferdir.is geri það einnig mun auðveldara að komast inn í erlendu hlaupin en áður, en þar er þegar farið að skrá keppendur fyrir New York maraþonið í nóvember 2008.

„Það að hlaupa í svona stórum hlaupum með fullt af fólki á hliðarlínunni er svo einstök upplifun. Það er svo miklu auðveldara að klára hlaupið, svo ánægja og árangur verða miklu meiri,“ segir Torfi. Hann segir marga nýja hlaupara kjósa að byrja í erlendum maraþonhlaupum því það sé svo miklu auðveldara andlega.