Hjörtur Þór Gunnarsson fæddist á Sauðárkróki 16. september 1946. Hann lést á líknardeild Landspítala í Kópavogi 1. nóvember síðastliðinn og var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju 12. nóvember.

Bróðir minn og kær vinur lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. nóvember sl.

Hann er annar úr hópi átta systkina okkar sem kveður þennan heim. Áleitnar spurningar leita á hugann við svona ótímabær leiðarlok. Fyrir mér er það ósanngjarnt og óréttlátt hvað sumir eru kallaðir snemma í burtu. Lengst af var Hjörtur heilsuhraustur, greinist síðan með krabbamein og undir lokin urðu veikindi hans þungbær, en hann sýndi ótrúlegan styrk, yfirvegun og jafnaðargeð sem var eitt af einkennum hans alla tíð.

Hjörtur lærði húsasmíði og vann fyrri hluta ævi sinnar við smíðar, þó mest við fínsmíði og innréttingar. Hann var bóngóður með afbrigðum, þolinmóður og snemma komst það orð á, að verk sem hann tók að sér væri í góðum höndum. Nei var ekki til í hans orðabók. Seinna starfaði Hjörtur sem húsvörður í Verslunarskólanum og nú síðast í Háskólanum í Reykjavík. Í húsvarðarstarfinu naut hann sín vel enda komu mannkostir hans þar vel í ljós, hjálpsemi, þjónustulund og útsjónarsemi.

Kornungur hitti hann konuefni sitt, Kristínu Ríkharðsdóttur. Þau bjuggu í farsælu hjónabandi og bjó hún þeim og börnum þeirra, Ríkharði og Þuríði, fallegt og menningarlegt heimili. Kristín, eða Didda eins og hún er ætíð kölluð, er mikill gleðigjafi og sérstaklega tónelsk, söng í kórum og kunni alla texta. Oft var gaman að hlusta og taka þátt í rödduðum söng með fjölskyldunni í Grófarselinu. Fjölskyldan var Hirti mjög kær og voru börnin miklir vinir hans og félagar. Hjörtur studdi Diddu og börnin sín á tónlistarbrautinni og oft gætti hann barnabarnanna þegar foreldrar þeirra voru við söngæfingar. Það var einnig unun að fylgjast með hvað hann lagði mikla rækt við barnabörnin sín sex.

Leiðir okkar Hjartar bróður lágu saman strax á unglingsárum og alveg fram á það síðasta. Í frístundum okkar áttum við sameiginlegt áhugamál, hestamennskuna. Upp í hugann koma ljúfar minningar, jafnt úr ferðum á fjöllum, sem og á venjubundnum degi í hesthúsinu, spjall og hlýja, enda var hann vinmargur og traustur. Hann var hjálparhella mín og virtist alltaf hafa tíma til aðstoðar og ráðlegginga. Hjörtur bróðir minn reyndist mér og mínum börnum yndislegur frændi og hafa þau alltaf metið hann mikils og minnast hans með söknuði.

Kæri bróðir og vinur, þín verður sárt saknað. Ég bið góðan Guð að styrkja fjölskyldu þína í sorg sinni og söknuði. Við sem þekktum þig og kynntumst þér getum öll verið sammála um, að hér fór góður maður.

Kristján Ingi Gunnarsson.

Kveðja frá Verzló

Það mun hafa verið 1983 að Þorvarður skólastjóri, að ábendingu Sölva Eysteinssonar, réð að skólanum nýjan húsvörð. Þar með bættist Hjörtur Þór Gunnarsson húsasmíðameistari í okkar hóp en tók ekki við öfundsverðri stöðu. Húsakynni skólans í þremur gömlum og hálfniðurníddum húsum, húsi sem Thor Jensen reisti fyrir syni sína, öðru sem Ágúst H. Bjarnason byggði fyrir sig og sína og litlu nýrra húsi við Þingholtsstræti. Með stakri útsjónarsemi tókst Hirti að halda húsnæðinu í horfinu næstu fjögur árin og varð þá oft að klífa þrítugan hamarinn.

Þegar skólinn flutti starfsemi sína í Ofanleiti markaði Hjörtur okkar að mörgu leyti umgengnisvenjur í nýju húsnæði, útsjónarsamur að vanda og gjörhugull, þéttur fyrir en okkur kennurum bóngóður með afbrigðum. Hjörtur naut óblandinnar virðingar nemenda sem ekki komust upp með neinn moðreyk og gengið var eftir því að umgengni væri með sómsamlegum hætti. Eigi að síður reyndist hann þeim ætíð sanngjarn og ef um allt þraut hjá strákaormum í nemendahópnum áttu jafnan glæsilegar ungmeyjar skólans aðgang að hjarta hins röggsama húsvarðar.

Fengur var okkur kennurunum og starfsmönnum í Hirti sem var jafnt gleðimaður sem söngva og engin skemmtun stóð undir nafni nema hinn lífsglaði Skagfirðingur kæmi þar að. Ekki dugðu venjubundnar skemmtanir til heldur stóð Hjörtur fyrstur fyrir ferðum okkar út fyrir bæinn og jafnvel lengra. Mörg okkar muna hann kátastan í dunandi dansi á skemmtikvöldi austur í Pétursborg þegar hópur okkar lagði leið sína þangað um árið.

Við í Verzló kveðjum með söknuði góðan vin en minningin um glaðan félaga mun lifa og við sendum Kristínu og börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum almættið að vernda þau.

Kennarar og starfsfólk VÍ.

Í dag verður gerð útför Hjartar Gunnarssonar, vinar okkar og félaga til fjölda ára.

Hjörtur var einstaklega traustur og heilsteyptur maður. Sannkallaður vinur vina sinna. Hvar sem hann fór átti hann auðvelt með að blandast í hópinn og var hvarvetna hrókur alls fagnaðar.

Hjörtur átti mörg áhugamál og hafði mikið yndi af hestum. En þótt hestamennskan hafi verið einna efst á blaði var það sú ánægja sem hann og Kristín Richardsdóttir, eiginkona hans, höfðu af samskiptum við fólk sem upp úr stendur nú þegar leiðir skilur. Mörg dæmi eru um þetta og má nefna eitt þeirra sem nýjast er. Á vinnustað Hjartar hefur um nokkurt skeið verið í undirbúningi hópferð til Kína og Tíbets. Eins og vænta mátti bókaði Hjörtur sig og Kristínu í ferðina. En ekki nóg með það. Hann bókaði tugi farmiða að auki, viss um að margir vildu fara með. Þau Kristín eiga slíkan fjölda vina og kunningja að á kynningarfundi um ferðina var tilkynnt að mættir væru um 50 fyrir tilstilli Hjartar en það er um fimmtungur alls hópsins. Sjálfur gat hann ekki mætt á fundinn þótt hann væri ákveðinn í að fara í ferðina allt þar til ljóst var orðið að honum mundi ekki endast aldur til.

Kristín fór að vinna hjá Landsvirkjun fyrir um 25 árum. Það er fjölmennur vinnustaður og eignuðust þau Hjörtur þar marga kunningja og vini enda tóku þau ætíð virkan þátt í félagslífi innan fyrirtækisins.

Fyrir mörgum árum myndaðist dálítill hópur samstarfsfólks Kristínar sem tekur fram gönguskóna á sunnudagsmorgnum frá því snemma á haustin og fram á vor.

Hópurinn hittist auk þess af og til af ýmsu öðru tilefni og hefur myndast innan hans traust vinátta og samheldni og átti Hjörtur sinn stóra þátt í því.

Hjörtur var afar frjór og hugmyndaríkur og fylgdi hugmyndum sínum jafnan eftir af krafti og áræði. Eitt sinn boðaði hann til dæmis allan gönguhópinn með örstuttum fyrirvara í Elliðaárdal. Enginn vissi hvað til stóð. Þegar til kom áttum við ógleymanlega kvöldstund í útileikhúsi í sumarblíðunni í dalnum. Annað dæmi lýsir Hirti vel. Við vorum á sunnudagsgöngu við Elliðavatn að vetrarlagi. Þá sáum við álft sem virtist frosin föst úti á vatninu. Hjörtur hljóp strax til og reyndi að koma fuglinum til hjálpar. Það tókst ekki, fuglinn var of langt frá landi. Hjörtur lét ekki við svo búið standa heldur gekk alllangan spöl að íbúðarhúsi þar í grenndinni og lét vita og bað íbúana um að gera viðeigandi ráðstafanir. Þetta lýsir Hirti. Hann hvarf ekki frá því sem hann ætlaði sér.

Kristín mætti í sunnudagsgönguna rúmri viku áður en Hjörtur kvaddi þennan heim. Þegar leið á gönguna sagði hún okkur frá því að Hjörtur hefði talað um að gaman væri að fá hópinn í heimsókn á líknardeildina þar sem hann hafði notið umönnunar um skeið. Hann var alltaf samur við sig. Þarna áttum við saman enn eina yndislega stund þótt tilefnið væri annað en endranær.

Elsku Kristín. Við tökum af heilum hug þátt í söknuði og sorg þinni, barnanna ykkar og fjölskyldna. Við dáumst að þeim styrk og kærleika sem þú hefur sýnt í þessari erfiðu baráttu. Við treystum því að sá fjöldi vina sem þið Hjörtur hafið eignast um ævina muni verða fjársjóður sem endist þér um alla framtíð.

Gönguvinafélagið.

Hjörtur Gunnarsson, vinur okkar, er látinn. Við minnumst hans sérstaklega fyrir hans léttu lund, hjálpsemi og jákvæða viðmót.

Við í Landsvirkjunarkórnum höfum átt margar skemmtilegar stundir með Hirti og konu hans, Kristínu. Þegar kórinn var stofnaður myndaðist strax dyggur hópur áhangenda sem hefur æ síðan fylgt kórnum nánast hvert fótmál. Einkum eru þetta makar kórfélaga. Þessi hópur hefur stutt dyggilega við bakið á kórnum og haldið uppi liðsandanum. Fór Hjörtur þar fremstur í flokki og verður það skarð sem myndaðist við fráfall hans seint fyllt.

Margar skemmtilegar ferðir, bæði innanlands og til útlanda, fórum við saman og átti Hjörtur ekki minnstan þátt í að gera þær jafn skemmtilegar og eftirminnilegar og raun varð á. Hjörtur var sannkallaður gleðigjafi, traustur og sterkur, og hafði hann jafnan lag á að finna upp á einhverju skemmtilegu og jákvæðu.

Nú er skarð fyrir skildi. Kórinn hefur misst sinn tryggasta stuðningsmann. Við kórfélagar þökkum innilega fyrir samfylgdina og allt sem Hjörtur hefur gefið okkur í þessi bráðum 17 ár sem við höfum verið samferða. Það er sárt að kveðja kæran vin og félaga, en minningin um hann mun lifa með okkur alla tíð.

Elsku Kristín og fjölskylda. Við vottum ykkur innilega samúð okkar og biðjum Guð að styrkja ykkur á þessari sorgarstund.

Landsvirkjunarkórinn.

Hjörtur nágranni okkar og félagi í Línunni kvaddi fyrir aldur fram og við syrgjum hann djúpt en minnumst hans með gleði því hann var sannkallaður gleðigjafi. Frá honum streymdi á fallegan og kankvísan hátt alveg einstakur velvilji og hlýja. Brosið sagði meira en mörg orð, stríðnisglampinn var græskulaus. Hjörtur var svo lánsamur að kunna að meta lífið og þær gjafir sem það færir og þessum góðu eiginleikum deildi hann með Diddu sinni. Það var einstaklega ljúft að sitja með þeim og öðrum góðum grönnum við spjall á síðkvöldi, grilla í sólskininu, moka snjó, gróðursetja, vera saman í afmælum og öðrum mannfagnaði og hittast hjá Möggu og Gesti á Þorláksmessu.

Við sendum Diddu, Þuríði, Ríkharði, barnabörnunum, Kollu, Tuma og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Guðmundsdóttir og Hermann Hermannsson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku Hjörtur minn, þú ert mér svo kær, mér finnst sárt og erfitt að kveðja þig. Takk fyrir allar ferðirnar í hesthúsið og góðu stundirnar sem við áttum. Ég ætla að fylgjast með Diddu og afa fyrir þig. Ég vona að þér líði betur og að þú sért á hestbaki og fáir nóg að borða.

Guð geymi þig, Hjörtur minn.

Kveðja,

Kolbeinn Tumi.