Vandræði Kristinn Jónasson úr Fjölni á í einhverjum vandræðum hér á móti Igor Beljanski úr Grindavík.
Vandræði Kristinn Jónasson úr Fjölni á í einhverjum vandræðum hér á móti Igor Beljanski úr Grindavík. — Morgunblaðið/Eggert
„ÉG er virkilega ánægður með sigurinn og sérstaklega með svæðisvörnina sem kom ljómandi vel út. Þú labbar ekki yfir neitt lið í deildinni, sérstaklega ekki kanalausir eins og við vorum í kvöld.

„ÉG er virkilega ánægður með sigurinn og sérstaklega með svæðisvörnina sem kom ljómandi vel út. Þú labbar ekki yfir neitt lið í deildinni, sérstaklega ekki kanalausir eins og við vorum í kvöld. Það er ekkert gefið og ekki nóg að heita Njarðvík,“ sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir 75:68 sigur í Hveragerði.

Eftir Guðmund Karl

„Við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn og vorum með góð tök á þessu. Síðan kemur fimm mínútna kafli í lokin þar sem við hleypum þeim inn í leikinn og það var óþarfi. Við komum samt sem áður til baka og vorum sterkir á lokamínútunum. Ég er mjög ánægður með strákana í kvöld og virkilega ánægður með þennan leik í heild sinni,“ sagði Teitur.

Þeir grænu höfðu frumkvæðið lengst af, leiddir áfram af Agli Jónassyni og Brenton Birmingham. Munurinn varð mestur 19 stig í upphafi 4. leikhluta, 38:59. En um leið og Egill fór útaf með fimm villur tóku Hamarsmenn við sér. Þeir skoruðu 19 stig gegn 4 á stuttum tíma og settu m.a. niður þrjá þrista í röð án þess að Njarðvík næði að svara.

Friðrik Stefánsson átti undir högg að sækja í mikilli baráttu við George Byrd. Byrd sýndi sitt rétta andlit þegar leið á leikinn og tók 17 fráköst. Þá sýndi Bojan Bojovic sömuleiðis góð tilþrif þegar leið á leikinn. Hamarsmenn söknuðu hins vegar Marvins Valdimarssonar, sem er meiddur.

Ágúst Björgvinsson stýrði Hamarsliðinu í fyrsta skipti á heimavelli en varð ekki að ósk sinni að byrja á sigurleik. „Baráttuleysi, sérstaklega í fyrri hálfleik, háði okkur í kvöld. Ef það er eitthvað sem ég tel að við getum gert betur en önnur lið þá er það að ná upp baráttu. Við eigum mjög sterkan heimavöll og verðum að nýta okkur hann,“ sagði Ágúst.