Hanna Sigurbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 4. júní 1915. Hún lést 9. nóvember síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Sigurbjörns Þorkelssonar kaupmanns í Vísi og síðar forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, f. 25.8. 1885, d. 4.10. 1981 og Gróu Bjarnadóttur, f. 16.10. 1885, d. 11.11. 1918. Sigurbjörn og Gróa voru bæði ættuð úr Kjósinni. Systkini Hönnu eru Kristín (Ninna), f. 1909, Sólveig, f. 1911, Þorkell Gunnar, f. 1912, Birna, f. 1913, Hjalti, f. 1916 og Helga, sem ein lifir alsystkini sín, f. 1917. Síðari kona Sigurbjörns var Unnur Haraldsdóttir, f. 29.10. 1904, d. 14.7. 1991. Börn þeirra eru Friðrik, f. 1923, Ástríður, f. 1925, Áslaug, f. 1930 og Björn, f. 1931. Hann einn lifir úr þeim hópi. Hinn 24.10. 1940 giftist Hanna Sveini V. Ólafssyni hljóðfæraleikara, f. 6.11. 1913, d. 4.9. 1987. Foreldrar Sveins voru Ólafur Veturliði Bjarnason skipstjóri frá Bíldudal, f. 22.4. 1874, drukknaði 9.8. 1936 og Kristjana Guðmundína Hálfdánardóttir ljósmóðir á Bíldudal, f. 5.4. 1876, d. 29.8. 1953. Ólafur var Arnfirðingur, ættaður af Rauðasandi og Kristjana var frá Hvallátrum vestri. Hanna og Sveinn eignuðust þrjá syni, þeir eru: 1) Ólafur véltæknifræðingur, f. 1.8. 1942, m. Ingibjörg Jónsdóttir bréfberi, f. 12.5. 1943. Börn: a) Hanna listmálari, f. 1965, m. Ellert Kristófer Schram byggingafræðingur, þau eiga saman 3 syni. Fyrir á Hanna son. b) Guðríður kennari, f. 1970, m. Ársæll Arnarsson lífeðlisfræðingur, þau eiga son. Ársæll á fyrir 2 dætur. c) Freydís Sif þroskaþjálfi, f. 1973, m. Árni Már Rúnarsson nemi í byggingafræði, þau eiga 2 dætur. d) Þórdís Jóna mastersnemi, f. 1979. 2) Arnór skrifstofumaður, f. 1.11. 1943, m. Hrafnhildur Vera Rodgers, f. 16.4. 1944. Börn: a) Kristín Björk prentsmiður, f. 1964, á tvö börn. b) Sveinn Ólafur verkfræðingur, f. 1967, m. Sandra Cepero, f. 1970, eiga 2 börn. c) Hanna María dýralæknir, f. 1969, m. Jón Örn fasteignasali, f. 1968, eiga 3 börn. d) Ingunn Ásta, aðst.m. v. dýralækningar, f. 1974, á eitt barn. e) Arnar hönnuður, f. 1979, í sambúð með Guðnýju Klöru Guðmundsdóttur nema, f. 1990. f) Pétur, grafískur hönnuður, f. 1979, í sambúð með Ylfu Ólafsdóttur tölvuverkfræðingi, f. 1980. 3) Sigurbjörn læknir, f. 20.2. 1950, m. Elín Ásta Hallgrímsson, kennari og meistaranemi, f. 29.2. 1952. Börn: a) Tómas Örn viðskiptafræðinemi, f. 1974, m. Margrét Grétarsdóttir, meistaranemi í viðskiptafr., f. 1974, eiga 2 börn. b) Ásta Sóllilja héraðsdómslögmaður, f. 1978, m. Davíð Björn Þórisson, læknir, f. 1976, eiga 1 barn. c) Friðrik Thor læknanemi, f. 1983. d) Katrín Þóra nemi, f. 1993.

Hanna lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1933. Hún var við verslunarstörf í Kaupmannahöfn í 3 ár fyrir seinna stríð og vann síðan í Sápubúðinni á Laugavegi. Hún aðstoðaði Sesselju Sigmundsdóttur á Sólheimum í Grímsnesi fyrsta sumar rekstrarins þar 1930 og einnig síðar. Hanna vann eftir barneignir í Skósölunni, Laugavegi 1 og síðar hjá Pétri Andréssyni skókaupmanni þar til hún hóf störf hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur 1962. Þar vann hún sem aðstoðarbókavörður bæði í aðalsafni og í Sóheimasafni til starfsloka. Vann hún í lausamennsku á safninu í nokkkur ár eftir að hún komst á eftirlaun.

Hanna var alla tíð kirkjurækin og tók þátt í trúarlegu félagsstarfi. Hún bar málefni þroskaheftra mjög fyrir brjósti og var einn af stofnendum Styrktarfélags vangefinna. Hún var félagi í KFUK alla tíð og sótti fundi og starf þess í Vindáshlíð á yngri árum.

Útför Hönnu fer fram frá Seljakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég gekk að rúminu, setti kertið á náttborðið og kveikti á því. Hún Hanna mín lá í rúminu með lokuð augun og dró andann hægt og þungt. Ég settist á stólinn og reyndi að koma einhverju lagi á óreiðuna i hausnum á mér. Þessi kona sem lá þarna var tengdamóðir mín. Amma barnanna minna sem þau elskuðu út af lífinu. Hún var mamma mannsins sem ég elska út af lífinu. Nú var stundin að renna upp sem við höfðum öll kviðið en hún beið fagnandi.

En hvers virði var þessi kona mér? Fyrir næstum fjörutíu árum, þegar ég kom í fyrsta sinn á heimilið hennar var ég full tortryggni. Hún sýndi mér elsku og umhyggju sem ég kunni ekki að taka við. Henni var svo eðlilegt að láta væntumþykju sína og vináttu í ljós á þann hátt sem ég þekkti ekki. Hún strauk mér um vangann þegar mér leið illa og talaði um vininn sinn besta sem alltaf gæti hjálpað. Ég þráaðist lengi við en hún gafst aldrei upp. Smám saman vann hún sig inn fyrir skelina og bræddi hjartað. Hún kenndi mér að það er í lagi að treysta. Hún kenndi mér að ástin vinnur alltaf sigur. Hún kenndi mér að það er í lagi að gráta.

Þegar ég sat þarna og starði á andlitið slegið dauðafölva greip mig eigingirni og ég hræddist þá hugsun að nú skildi að með okkur. Hún var um það bil að ganga inn í himininn og nú yrði ég að leita í allt sem hún kenndi mér til að öðlast styrk til að sitja eftir. Það var friður yfir henni. Þessi friður sem einkennir þá sem eiga vissuna um elsku Guðs og eilíft líf. Hjá henni var ekkert nema hamingjan framundan. Ég teygði mig í útvarpið og hækkaði aðeins. Það passaði svo vel að horfa á eftir Hönnu hverfa í faðm Svenna síns við undirspil Beethovens sem þau dáðu bæði. Með hjartað fullt af þakklæti kyssti ég hana á bjart ennið að skilnaði.

Elín Ásta.

Elsku amma Hanna, nú hefurðu kvatt. Þú getur verið stolt af framlagi þínu til kærleikans. Hann skein af þér alla tíð. Eftir eru minningar um yndislega ömmu sem sem litaði bernsku mína af ást, gleði og lífsgildum sem ég hef enn að leiðarljósi í lífi og starfi. Þú og afi voruð oftast það sem ég tengdi við frjálsræði, áhyggjuleysi og endalausar ævintýraferðir í sveitina og út í náttúruna. Þú kenndir mér að vera góð manneskja, að allir væru jafnir, háir sem lágir, sama hver trú, kynferði, litaraft eða sjónarmið væru. Hjá þér fann ég alltaf ró.

Í dag er ég fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa átt þig að. Alveg fram á síðasta dag. Ég er svo glöð yfir að hafa hlustað í öll þessi ár. Það er allt geymt og tínist fram eitt af öðru í viðhorfum mínum og lífssýn. En ég er líka sorgmædd, sorgmædd yfir því að fá ekki notið nærveru þinnar meir. Sorgmædd yfir að þessi tími er að baki. Ég veit fyrir víst að þú ert ekki sorgmædd í dag. Þú hafðir verið reiðubúin svo lengi, tilbúin til að fylgja afa strax á þeim degi sem hann kvaddi. En þú varst líka svo þakklát fyrir lífið og það sem það hafði fært þér. Þú varst alltaf þakklát. Jákvæðni þín var mér mikilvæg, ekki síst á síðustu árum þegar sorgin settist að vegna mömmu.

Við eigum svo endalaust góðar minningar að hlýja okkur við: Sigtúnið og vínberin góðu, sveitaferðirnar, þú og afi í óteljandi heimsóknum á Hjaltabakka, afi að spila á víóluna, afi að spila á saxófóninn, þú hjá Ninnu í Danmörku þegar ég var í námi, Sólheimatíminn, þú að knúsa langömmubörnin sem elskuðu þig og ég gæti haldið endalaust áfram. Það besta geymi ég innra með mér. Þú talaðir oft um að þú vildir ekki skjall og hól þegar kveðjustundin kæmi. Þess vegna læt ég staðar numið hér.

Elsku amma, takk fyrir allt, þín verður ætíð minnst í mínum ranni.

Það húmar að... hljóðlega ég hverf á braut

Andi minn svo tímalaus

Fjarar út...

og hverfur... í tímans haf

Fljúga um í huga mér

augnablik er fleyta sér

á tímans hafi... fley

sem áfram líða...

Hvar svo sem heimurinn endar

og himnarnir... taka við

Mér voru sem barni kenndar

bænir að góðum sið

Um engla... og himnahlið... sem opnast

(Magnús Þór Sigmundsson)

Ástar- og þakklætiskveðjur frá Jóni og krökkunum.

Þín

Hanna María.

Amma er dáin. Ég var akkúrat í messu þegar ég fékk fréttirnar. Ég sat þar og hlustaði á sálmana sem ég hafði hlustað á með ömmu kvöldið áður og rifjaði upp bænir sem hún hafði kennt mér. Sem ég sat þarna og hugsaði til hennar fékk ég sms um að þessu væri lokið og ég renndi beint til hennar upp í Seljahlíð til að strjúka henni og kyssa í seinasta sinn. Amma var með heitt hálsakotið þegar ég kom til hennar, friðsæl og yndisleg. Það var gott að sjá að baráttunni hennar væri lokið. En það var samt sem ég hélt. Maður er aldrei tilbúinn. Ég sat hjá henni þarna í rúman klukkutíma við kertaljós og sálmasöng Ellenar Kristjánsdóttur. Mér fannst eins og að á meðan við værum þarna væri amma ennþá með okkur. Um leið og við færum væri hún farin að eilífu og lífið fyrir utan litla herbergið hennar ömmu myndi gleypa hugsanir okkar og minningar um hana.

Það var svo erfitt að sleppa, hætta að strjúka henni og klappa og snerta snjóhvíta hárið hennar, kveðja myndirnar sem hafa hangið upp á vegg hjá ömmu alla tíð, klukkuna sem svo oft hafði svæft mann, stóra skápinn með öllum minningunum, borðstofuborðið sem geymdi svo mörg merkileg samtöl, stólinn sem pabbi stóð á haus í og hlustaði á útvarpið þegar hann var lítill og allt hitt sem fylgdi ömmu. Jafnvel lyktina sem ég á kannski aldrei eftir að finna aftur. Það var erfitt að fara heim til litla ljóssins míns og yngsta langömmubarnsins sem aldrei fær að kynnast ömmu Hönnu. Maður er aldrei búinn að fá nóg. En – amma var búin að fá nóg og afi er búinn að bíða eftir henni í 20 ár. Ég kyssti ömmu og sagði „við sjáumst – og þú sérð mig“ og þar með var því lokið. Með tárvot augu gekk ég frá henni með tilfinninguna um að nú myndi allt sem amma var gufa upp og hverfa í einu vetfangi. En það er ekki rétt. Það getur enginn tekið minningarnar okkar um ömmu sem stóð á haus rúmlega sjötug, fór í fótbolta, hraut eins og hvalur, átti alltaf gotterí, las bækur, pússaði skó, átti sumarbústað með lopapeysu og grænum gúmmítúttum, hlustaði á útvarpið og fylgdist með pólitík. Ömmu sem lá uppi í rúmi með mér heilan morgun þegar ég var fimm ára og kenndi mér að syngja þjóðsönginn. Ömmu sem leyfði mér að setja rúllur í nýlagt hárið, gaf alltaf allt sem hún átti sem var fínt og var svo afskaplega góð við þá sem minna máttu sín. Það getur enginn tekið ömmu úr hjartanu okkar. Ég á ennþá ömmu. Hún er hjá Guði.

Leið mig inn þangað drottinn dýr

dýrð þína láttu mig sjá.

Eilíf sæla, huggun hýr,

hjartað mitt gleður þá“.

(Höf. ókunnur)

Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir.

Hún amma Hanna er farin – og ég sakna hennar mikið. Það var þungbært að vera ekki hjá henni þegar hún sofnaði en það hjálpar mér og huggar að ég átti margar ógleymanlegar stundir með henni, minningar sem ég mun alltaf eiga.

Margar eru minningarnar og erfitt að velja úr. Næturnar sem ég og Ásta áttum hjá ömmu, sama hvort það var upp í Sólheimunum eða uppí Brekku, voru skemmtilegar. Það var ekki margt sem ekki mátti, og fengum við að ráða okkur að mestu sjálfar, en einhvern veginn var það alltaf þannig að við vildum bara vera í nálægð við ömmu, sama hvort það var uppí sófa hjá henni að horfa á sjónvarp eða upp í rúmi að kjafta við hana um heima og geima. Hún var svo hlý.

Ég var svo heppin að ganga í menntaskóla rétt hjá ömmu og það þýddi að ég gat alltaf komið til hennar, hennar dyr stóðu mér alltaf opnar. Á þessum tíma áttum við góðar stundir saman, bara við tvær. En það var samt alltaf gott þegar hurðin opnaðist og inni kom Helga systir ömmu, hún var svo stór partur af lífi ömmu. Þær gátu þráttað um allt og ekkert, og svo var það gleymt um leið og hurðin lokaðist á eftir Helgu. Þetta var eitthvað sem ég tók með heim, enda ein af fjórum systrum, maður varð að kunna að gleyma því þrasi sem engu skipti.

Þegar pabbi varð sextugur fórum við fjölskyldan til Ítalíu og okkur til mikillar ánægju langaði ömmu að koma með. Þar naut hún lífsins í botn, þó hún hafi stundum verið svolítið þreytt á rápinu á okkur, á alla þessa merku staði í Toscanahéraði sem hún var búin að sjá með honum afa Svenna – enda hafði hún ferðast víða með honum og Sinfóníunni. Henni leið vel í skugganum við sundlaugarbakkann með „blóðuga Maríu“ í hendi sér, sem aðeins ég mátti blanda, enda sparaði ég ekki glæra vökvann. Eftir að heim var komið þótti okkur gaman að rifja þetta upp og þótti henni þetta ekki síst fyndið.

Eftir að ég flutti til Danmerkur sá ég minna af ömmu en ég talaði þó oft við hana í síma, og þó að það væri ekkert að frétta, gat hún talaði tímunum saman. Bæði um barnæsku sína sem ég vissi mikið um enda hafði ég gert verkefni um barnæsku ömmu í Háskóla Íslands, og um nútíðina og hvað fjölskyldumeðlimirnir væru að bralla. Hún var svo stolt af okkur öllum og vildi allt fyrir okkur öll gera, það skipti ekki máli hvað maður var að gera, hún var bara svo stolt.

Ég mun aldrei gleyma brúðkaupinu hennar Gurrýjar systur í júní í sumar því þar var amma hress og kát. Ég er svo heppin að hafa átt þá stund með henni því stuttu seinna fór ég aftur til Danmerkur og ég sá hana ekki aftur. Nú er amma farin til afa, og hún er og mun alltaf verða stór partur af lífi mínu. Hún kenndi og gaf mér svo mikið.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Elsku amma, það er gott að vita af þér hjá afa og það er gott að vita að þið tvö passið upp á okkur hin.

Guð geymi þig,

þín ömmustelpa

Þórdís Jóna.

Má ég eiga einn putta, bara einn? Bara litla fingur eða þumalputta? Brosandi gekk maður fimm ára í burtu og hálfhissa á þessari furðulegu bón ömmu. Kannski lýsandi fyrir hana, bað ekki um mikið en hefði gefið allt ef hún hefði aðeins verið beðin. Einstaklega örlát kona.

Við minnumst ferðanna með afa Svenna og ömmu Hönnu í appelsínugulu bjöllunni upp að Kiðafelli, ættarsetri Sigurbjörnsættarinnar. Fjöldi í bíl hefur eflaust eitthvað farið yfir fimm en menn voru nú ekki mikið að spá í slíka hluti í þá daga. Á „Kiðó“ bjó Hjalti bróðir ömmu ásamt Önnu konu sinni og var það dýrmæt upplifun borgarbarnsins að fá að valsa inn og út úr fjósi og hlöðu eins og það lysti. Heimsóknir í risið í Sigtúninu líða seint úr minni þar sem afi og amma deildu stigagangi með Bóbó og Dennu. Þar var hægt að eyða drjúgum tíma í feluleik í fjölda „leynilegra“ skúmaskota sem voru risastór í huga barnsins. Ekki má gleyma að við fengum að gramsa að vild í djásnunum hennar ömmu því ekki var hún fyrir boð og bönn og kippti sér ekki upp við það þótt litlir fingur slitu í sundur hálsmen eða tvö. Og ef maður sýndi einhverju of mikinn áhuga, hvort sem um skart eða föt væri að ræða, þá heyrðist alltaf – viltu ekki eiga þetta? Gjafmildi hennar átti sér engin takmörk. Við nutum þeirra forréttinda að fá stundum að fara með ömmu á barnatónleika sinfóníunnar þar sem afi spilaði á víólu. Sólheimar tóku við þegar afi hvarf á braut og þá naut amma návista við Helgu frænku sem bjó í næstu íbúð. Þær voru nú ekki alltaf á eitt sáttar, kýttu stundum en máttu ekki hvor af annarri sjá. Þegar amma treysti sér ekki lengur til að búa ein þá flutti hún í Seljahlíð en ekki degi fyrr.

Það var yndislegt að njóta samvista við ömmu. Ómetanlegt að hún skyldi drífa sig með til Toscana þegar pabbi varð sextugur fyrir fimm árum og fannst Ítölunum það vel við hæfi að ættmóðirin væri með í för enda mæðradýrkun mikil þar í landi. Hana munaði ekki um að skella sér til Langeland í Danmörku, í brúðkaup Hönnu og Ella fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að tugurinn níundi nálgaðist óðfluga, sló gaffli í glas og hélt ræðu „på dansk“. Amma kom í brúðkaup Gurrýjar og Sæla í júní rétt áður en heilsunni tók að hraka og var það okkur öllum mikils virði.

Við kveðjum ömmu Hönnu með sárum söknuði en vitum af henni í góðum höndum afa og þeirra sem hún unni svo heitt. Megi góður Guð geyma hana.

Hanna, Guðríður og

Freydís Sif Ólafsdætur.

Á tveimur árum hafa fjögur systkini mín fallið frá. Elsku systir mín, Hanna, dó 9. nóvember sl. 92 ára. Af ellefu systkina hópnum lifum við Helga ein eftir. Það er sérstök lífsreynsla að vera yngstur í svo stórum hópi yndislegra systkina og finna að maður hefur verið umvafinn ást og kærleika þeirra alla lífsins leið. Það fylgir því mikill söknuður, þegar þau smám saman týna tölunni. Þó er í huganum fyrst og fremst gleði yfir því að hafa fengið að njóta þeirra flestra um langan veg.

Hanna var í miðjum hópnum, orðin 16 ára þegar ég fæddist. Hún sagði mér oft í glettni að við Áslaug systir okkar sem var ári eldri en ég, hefðum stundum truflað hana á kvöldin, þegar táningurinn vildi komast út á djammið. (Það hét að vísu eitthvað annað þá). Í minningu minni er Hanna fallega, síkáta og brosandi systirin sem passaði upp á okkur og umvafði kærleik sínum í bernsku okkar. Brosið hennar og kátína hefur fylgt Hönnu allt lífið, þótt það væri ekki alltaf dans á rósum, frekar en hjá flestum okkar. Hanna breyttist aldrei, kát og glöð, skrafhreifin og hláturmild til æviloka.

Eiginmaður Hönnu, Sveinn Ólafsson, var mikill listamaður, einn fremsti tónlistamaður okkar um langt skeið. Hann var yndislegur karakter og ást þeirra Hönnu lýsti af þeim alla tíð. Það var ekki létt að vera atvinnulistamaður á Íslandi í þá tíð og reyna að lifa af því með konu og börn. En þau voru samhent hjónin og ekki lá Hanna á liði sínu við að halda fjölskyldunni gangandi, vann af samviskusemi hverskonar störf, seinast sem bókavörður við Borgarbókasafnið við mikinn orðstír. Nú eru afkomendurnir stór og glæsilegur hópur. Þau voru henni öll mjög kær og öll dáðu þau ömmu sína og langömmu. Dauðann ber að með ýmsum hætti. Ég og eflaust fleiri geta öfundað Hönnu systur af hennar hlutskipti. Á dánarbeðnum lá hún á tíræðisaldri, ásamt ástvinum sínum sem hún elskaði, leit þau í síðasta sinn og hvarf svo á fund hinna sem farnir voru á undan. Það er gott að eiga minningarnar um þessa góðu systur. Við Anna biðjum Guð að blessa minningu hennar og eftirlifandi fjölskyldu.

Björn Sigurbjörnsson.

Kært var á milli föður míns og Hönnu systur hans sem sannast best á því að þau bjuggu í sama húsi í um 70 ár. Fyrst í foreldrahúsum, síðan við Hrefnugötu 4 og loks í Sigtúni 29 þar sem sambýlið varaði í um 40 ár. Sú staðreynd segir allt sem segja þarf.

Ólíkt föður mínum var hún Hanna bæði mælsk og lá hátt rómur. Það þurfti því engin gjallarhorn til að kalla drengina inn á kvöldin eða þegar koma þurfti áríðandi skilaboðum til Svenna út um stofugluggann á risinu í Sigtúninu ef hann hafði gleymt einhverju sem reyndar var ósjaldan.

Hún var hreinskiptin og hispurslaus, talaði ekki í gátum og því erfitt að misskilja hana. Hún sankaði ekki að sér glingri, var einkar gjafmild og mátti ekkert aumt sjá. Minnið var óbrigðult allt til hinstu stundar. Aldrei var lognmolla í kringum hana og ekki skorti umræðuefnin. Ef menn voru ekki fyrir spjallið gefnir, nú þá talaði hún bara, fór létt með og flestir nutu. Hún var barngóð og hláturmild þegar sá gállinn var á henni og víðsýn en staðföst á þeim góðu gildum sem hún hafði verið nestuð með úr föðurhúsum.

Við Hanna bjuggum í sama húsi við Sigtún 29 í yfir 20 ár. Hún leit stundum eftir mér á kvöldin og var ég þá ávallt öruggur á köldum vetrarkvöldum. Hún lokaði gluggum sem skelltust aftur þegar kári gerði vart við sig. Hún bað með mér bænirnar og söng fyrir mig Ástarfaðir og Jesú bróðir besti. Hún var einlæglega trúuð kona hún Hanna.

Uppi hjá Hönnu og Svenna var allt leyfilegt og því ævintýri að skjótast til þeirra á kvöldin til að horfa á sjónvarpið, spjalla eða ærslast með félögum mínum. Þau voru ekkert að stressa sig eða kippa sér upp við tilraunir eða njósnaleiki, höfðu bara gaman af og fengu hláturskast með okkur eins og sannir jafningjar.

Hanna og Svenni voru óumflýjanlegur hluti af tilveru minni og mér þótti sérlega vænt um þau þótt okkar nánu samskipti hafi kunnað að vera bæði nokkuð skrautleg og jafnvel gustasöm á köflum eins og svo náið sambýli getur eðlilega orðið. Þá voru þau fyrst og fremst skemmtileg, auðgandi og mannbætandi krydd og vídd í tilveruna.

Ég er þakklátur fyrir að hafa vitjað hennar daginn fyrir andlátið. Á meðan ég stóð við opnaði hún augun, ég bað yfir henni, bað góðan Guð að opna nú fyrir henni himnahliðin og taka vel á móti henni og flutti henni blessunarorðin. Ég fann að andardrátturinn breyttist, hún var ekki meðvitundarlausari en það. Hún var með í bæninni og það var friður yfir henni. Dýrmæt kveðjustund sem ég þakka svo innilega.

Hjá henni var Addó sonur hennar sem hún talaði svo oft um og bar svo mikla umhyggju fyrir og bað fyrir á hverjum degi að eigin sögn eins og öllum öðrum afkomendum sínum. Hún Hanna hafði stórt hjarta og þar var rými fyrir allt fólkið hennar. Hún var að eigin sögn orðin södd lífdaga og var farin að biðja þess að hún fengi einhvern krankleika sem hún gæti farið úr. Og nú hefur henni orðið að ósk sinni.

Ég mun sakna þín Hanna mín, það verður erfitt að hugsa sér tilveruna án þín. Þinn bróðursonur,

Sigurbjörn Þorkelsson.

Að eiga sér samastað í tilverunni er hverjum manni mikilvægt til þess að lifa. Fátt er betra en fjölskylda, sem er til staðar í blíðu og stríðu allan lífsins æviveg. Þannig var fjölskylda Sigurbjörns Þorkelssonar kaupmanns í Vísi, barna hans og afkomenda. Hanna Sigurbjörnsdóttir, föðursystir mín, var einn máttarstólpi þessarar ættar, síungur gleðigjafi, sem lagði sig í líma við að gera öðrum lífið bærilegra og skemmtilegra. Hún menntaði og útskýrði. Starf hennar á Borgarbókasafninu var ómetanlegt í uppeldi og þroska margra þar sem hún leiðbeindi, hjálpaði og hvatti til dáða í ævintýraheimum bókanna.

Hún hafði sjálf kynnst sorginni þegar móðir hennar, Gróa Bjarnardóttir, dó frá stórum skara ungra barna í Spænsku veikinni 1918. Faðirinn þurfti á öllu að halda til þess að fjölskyldan tvístraðist ekki. Litlu móðurleysingjarnir studdu hver annan í sorginni og þar hefur eflaust mótast sú ást og væntumþykja sem einkenndi þennan systkinahóp alltaf síðan. Það fór ekki framhjá neinum ef einhver átti afmæli, barn eða barnabarn, þá var stórfjölskyldan mætt til að gleðjast saman, ungir og gamlir.

Hanna var lífsglöð og skemmtileg og eiginmaðurinn Sveinn Ólafsson var listamaður í fremstu röð, brautryðjandi í saxófónleik á Íslandi og síðar fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Heimili þeirra var gestrisið menningarheimili. Þar ólu þau upp þrjá mannvænlega syni. Svenni var eini sósíalistinn í fjölskyldunni sem þó var átakalaust þó margir tryðu á Sjálfstæðisflokkinn til jafns við guð almáttugan. Þau voru húmanistar, sem mátu manngildi manna og boðuðu réttlæti til handa öllum. Þau söfnuðu ekki auði í anda þeirrar græðgisvæðingar sem nú ógnar íslensku mannlífi, þegar siðlausir menn ræna auðlindunum og eyðileggja undirstöður menningarinnar, það sem þjóðin á sameiginlega. Einhverjar bestu stundir fjölskyldunnar voru sumrin í sumarbústaðnum Brekku á Kiðafelli í Kjós. Þá voru hamingjutímar í Danmörku þegar þau bjuggu um tíma í Kaupmannahöfn hjá Ninnu stóru systur Hönnu og Holgeir manni hennar. Þar var lífsafstaðan sú sama og lífshamingjan höndluð í því að njóta stundarinnar í góðra vina hópi, í myndlist, við tónlist eða á hvítum ströndunum við sumarhúsið Esju, þar sem kristaltært hafið ber á land raf og eðalsteina sem glitra í sólinni.

Hanna starfaði á yngri árum við að annast fötluð börn hjá Sesselju Sigmundsdóttur á Sólheimum í Grímsnesi. Þar nutu sín mannkostir hennar og kærleiki sem hún gaf af og umvafði börn sem sum voru ekki ofhaldin af ást. Síðar á ævinni þegar Hanna hafði lokið sínum starfsdegi og var sest í helgan stein tók hún upp þráðinn að nýju og fór vikulega og tók þátt í leiklistarkennslu með vistmönnum á Skálatúni.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Við kveðjum góðan ástvin og þökkum fyrir samfylgdina.

Þorvaldur Friðriksson

og Elísabet Brekkan.

mbl.is/minningar

Mig langar að minnast hennar Hönnu minnar á Bókó. Ég kynntist henni þegar ég, 7 ára gömul hnáta, kom á bókasafnið í Sólheimum, í mína fyrstu heimsókn þangað. Þar voru þá að vinna þær Ingibjörg, Jóhanna P., Elísabet og Hanna og urðu þær allar vinkonur mínar. Hanna var alltaf svo hress, með hnellinn hlátur og gott skap. Vegna mikils lestraráhuga míns varð Sólheimasafnið svo að segja mitt annað heimili og alltaf gaf Hanna sér tíma til að spjalla. Ekki sakaði að við áttum sama afmælisdag og kom ég alltaf með kökur á safnið í tilefni dagsins. Síðar meir varð ég samstarfskona Hönnu þegar ég lagði fagið fyrir mig. Við unnum saman í nokkur sumur og fékk ég ýmsar ráðleggingar og heilræði hjá henni, sem ég hef farið eftir. Það eru mikil forréttindi að hafa kynnst og þekkt hana Hönnu á Bókó.

Ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning heiðurskonunnar Hönnu.

Borghildur Stephensen.

Elsku Hanna, besta frænka mín. Nú hefur þú fengið ósk þína uppfyllta, þú sagðir mér fyrir löngu að þú værir tilbúin, en kallið kom ekki fyrr en nú. Þú, með öll þín ár á bakinu og alla þína sögu, varst alltaf hetja. Minningarnar hrannast upp í mínum huga. Þegar við krakkarnir vorum hjá ykkur Helgu í Brekku, hvað það var gaman, þar lærði ég að prjóna og hekla. Alltaf funduð þið upp á einhverju skemmtilegu að gera og hvað þið voruð þolinmóðar við okkur. Og ekki er hægt að gleyma jólaboðunum í Sigtúninu. Og síðast í Seljahlíðinni. Það var alltaf svo gott að tala við þig, þú varst alltaf svo góður hlustandi og skilningsrík, við náðum svo vel saman. Þú hafðir alltaf létta lund og kvartaðir aldrei. Mér leið alltaf vel eftir að hafa verið hjá þér, þú varst svo skýr fram undir það síðasta, og gafst mér svo mikið af þér.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Elsku frænka mín, ég kveð þig með trega, en við sjáumst síðar.

Ég votta sonum þínum og þeirra fjölskyldum mína dýpstu samúð.

Þín frænka

Gróa Kristín.