Fjölskyldan Frá hægri, Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva ásamt íslensku stuðningsfjölskyldunni sinni hjónunum Kolbrúnu Björnsdóttur og Bjarna Jónssyni og dætrum þeirra þeim Þóru og Hörpu Hrund og svo dóttir Hörpu Freyju Rún.
Fjölskyldan Frá hægri, Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva ásamt íslensku stuðningsfjölskyldunni sinni hjónunum Kolbrúnu Björnsdóttur og Bjarna Jónssyni og dætrum þeirra þeim Þóru og Hörpu Hrund og svo dóttir Hörpu Freyju Rún. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvö ár eru síðan Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kom til Íslands eftir að hafa flúið frá heimalandi sínu Kólumbíu til Ekvadors. Hún vill lítið tala um fortíðina, en gott sé að vera á Íslandi. Jóhanna Ingvarsdóttir smakkaði nautalifur og jólabúðing að hætti Kólumbíumanna.

Mér vegnar bara afskaplega vel á Íslandi. Hér er gott að vera. Veturnir eru að vísu svolítið dimmir og kaldir, en sumrin eru yndisleg,“ segir Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva, 24 ára kólumbísk stúlka sem kom til Íslands sem flóttamaður fyrir tveimur árum. Jeimmy hafði flúið til Ekvadors þar sem hún hafði dvalið í tvö ár áður en sendinefnd frá Rauða krossi Íslands ákvað að hún fengi hæli á Íslandi ásamt 26 öðrum löndum sínum.

Jeimmy hóf íslenskunám hjá Mími þegar hún var lent á Íslandi og svo hóf hún nám í Ármúlaskóla. Nú stundar hún íslenskunám í Háskóla Íslands og stefnir á BA-próf einhvern tímann síðar og svo vinnur hún við símsvörun í Alþjóðahúsinu með námi. Jeimmy býr ein en hefur frá því hún kom notið aðstoðar stuðningsfjölskyldu sem hún hefur bundist „fjölskylduböndum“. „Þetta eru mamma mín og pabbi minn á Íslandi,“ segir Jeimmy brosandi og bendir á hjónin Kolbrúnu Björnsdóttur og Bjarna Jónsson, sem svöruðu auglýsingu Rauða krossins þegar auglýst var eftir stuðningsfjölskyldum fyrir kólumbíska flóttamenn.

Jeimmy, sem er fædd og uppalin í höfuðborginni Bogota, segist hafa gaman af því að bjóða íslensku fjölskyldunni sinni upp á kólumbískan mat endrum og sinnum enda þyki henni gaman að stússast í eldhúsinu yfir pottum og pönnum. „Íbúar Kólumbíu borða mikið af ávöxtum og grænmeti og afskaplega mikið af nautakjöti.“

Þegar Jeimmy kom til Íslands talaði hún bara spænsku sem stuðningsforeldrarnir ekki skildu. Það var þó smábót í máli að heimasætan Þóra Bjarnadóttir hafði verið skiptinemi í Mexíkóborg og gat komið til bjargar þegar tungumálaerfiðleikar létu á sér kræla. „Og svo vorum við Jeimmy bara skammaðar fyrir að tala spænsku saman af því að hún átti að læra íslensku,“ segir Þóra og hlær.

Þegar Daglegt líf leit inn í eldhúsið hjá Kolbrúnu og Bjarna stóð Jeimmy yfir pottunum. Á matseðlinum var nautalifur að kólumbískum hætti og gómsætur hátíðarbúðingur í eftirrétt.

Nautalifrarsteik

½ kg nautalifur

1 stór laukur

1 tómatur

1 saxað hvítlauksrif

salt og pipar eftir smekk

¼ bolli matarolía

Himnur og húð hreinsaðar af lifrinni. Lifrin skorin niður í þunnar sneiðar, sem kryddaðar eru með salti og pipar. Lifrin er síðan steikt upp úr mjög heitri olíu svo hún harðni ekki. Lifrin tekin af pönnunni og lögð til hliðar. Því næst eru laukur og tómatar steiktir upp úr sömu olíu og því næst búin til sósa upp úr þessu. Þegar sósan er tilbúin er lifrinni bætt út í og látið krauma í smátíma.

Lifrina má bera fram með hrísgrjónum, salati, avókadó og steiktum plátano-banönum, sem m.a. fást í Hagkaupum og Sælkerabúðinni. Bananarnir eru skornir í fimm cm bita og brúnaðir í vel heitri maísolíu. Bitarnir eru svo settir á bretti og pressaðir þar til þeir eru flatir. Þá er þeim brugðið á ný á pönnuna og fullsteiktir.

Jólabúðingur

1 lítri mjólk

4 eggjarauður

5 msk maizenamjöl

börkur af einum limeávexti

1 kanilstöng

kanilduft

Hálft glas af mjólk, maizenamjölið og eggjarauðurnar þeytt saman. Afgangurinn af mjólkinni, lime-börkurinn, sykurinn og kanilstöngin sett í pott. Þegar suðan er komin upp er þeyttu blöndunni bætt út í. Suðan er látin koma upp á meðan hrært er í með trésleif. Þegar suðan er komin upp á ný er þetta tekið af hellunni og hellt í skálar. Gott er að strá kanildufti ofan á. Látið kólna í ísskáp. Gott er að gera þennan eftirrétt daginn áður en hann er borinn fram.

join@mbl.is