Suðurlindir Ragnar Róbertsson, sveitarstjóri Voga, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, undirrita viljayfirlýsingu vegna félagsins Suðurlinda.
Suðurlindir Ragnar Róbertsson, sveitarstjóri Voga, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, undirrita viljayfirlýsingu vegna félagsins Suðurlinda. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

FÉLAGIÐ Suðurlindir, sem þrjú sveitarfélög á Reykjanesi hafa lýst yfir vilja til að standa saman að, hefur það að markmiði að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna og íbúa þeirra varðandi nýtingu náttúruauðlinda í landi þeirra við Trölladyngju, Sandfell og í Krýsuvík, m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar- og nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig. Sveitarfélögin þrjú eru Grindavíkurbær, Hafnarfjörður og Sveitarfélagið Vogar og var því m.a. lýst yfir á blaðamannafundi vegna viljayfirlýsingarinnar í gær að þau vildu að orkan, sem ætti uppruna sinn í þeirra landi, yrði nýtt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Í það minnsta að þau hefðu eitthvað að segja um það í hvað hún yrði notuð. Þá sagði Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, að því yrði „haldið opnu“ að stofna nýtt orkufyrirtæki í samkeppni við Hitaveitu Suðurnesja. Kom fram á fundinum að helstu framtíðarorkulindir á Reykjanesskaga væru innan lögsagnar sveitarfélaganna sem að Suðurlindum standa og sameiginlegir hagsmunir því ríkir. Ennfremur kom fram að landamörk væru ekki alls staðar skýr, t.d. við Trölladyngju og því væri enn meiri þörf á nánu samstarfi. Þá kom fram að upphaf stofnunar félagsins mætti m.a. rekja til þess að undanfarið hefðu línulagnir um sveitarfélögin verið til umræðu og þörf væri á að standa saman að ákvörðunum hvað það varðaði. Yrði mótuð stefna í þeim málum fljótlega.

Þverpólitísk samstaða

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar sagði fulla pólitíska samstöðu meðal allra stjórnmálaflokka í sveitarfélögunum þremur um stofnun Suðurlinda. Benti hann jafnframt á að samstarfið næði ekki eingöngu til virkjunar auðlindanna, heldur einnig til náttúruverndar og umhverfismála.

Undir þetta tók Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík. Hann sagði ljóst að mörg fyrirtæki sæju á svæðinu tækifæri varðandi atvinnuuppbyggingu og þörf væri á að standa saman að ákvörðunum um nýtingu og meðferð á landinu. „Ég veit að þetta verður heillaspor fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu í heild sinni, sérstaklega fyrir okkur Grindvíkinga sem höfum orðið fyrir áföllum vegna niðurskurðar í sjávarútvegi,“ sagði Ólafur.

Spurður hvort til stæði að stofna nýtt orkufyrirtæki í samkeppni við Hitaveitu Suðurnesja svaraði Lúðvík að því yrði haldið opnu. „Þetta félag á að hafa gott samstarf við þá aðila sem eru í orkuöflun á svæðinu, en það er ekki lokað fyrir eitt né neitt í þessum efnum. Tíminn mun leiða það í ljós. [...] En það er ekkert endilega eitthvað sem kallar á að við verðum formlegur virkjunaraðili, það eru nógu margir sem hafa áhuga á því.“

Ólafur tók fram að Grindavík vildi að sú orka sem aflað væri innan marka sveitarfélagsins, yrði nýtt til atvinnuuppbyggingar þar. Lúðvík tók í sama streng og sagði sveitarfélögin þrjú vilja hafa með það að gera hvernig yrði virkjað á svæðinu og hvað yrði um þá orku. „En það er ekki verið að eyrnamerkja hana einu fyrirtæki eða ákveðinni starfsemi umfram aðra,“ tók Lúðvík fram.

Orkan nýtt á svæðinu

Róbert Ragnarsson, sveitarstjóri í Vogum, sagði að á Keilisnesi yrði byggð upp atvinnustarfsemi, hvort sem það yrði stóriðja eða eitthvað annað. „Við sjáum þetta samstarf sem skref í því að geta tekið á málum þegar atvinnutækifæri koma hér upp. [...] Ég tel að þetta samstarf skapi brú á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega í skipulagsmálum.“

Ólafur sagði stofnun Suðurlinda ekki hafa nein sérstök áhrif á Hitaveitu Suðurnesja. „Þeir eru með þessi rannsóknarleyfi og ef orkan er nýtt til atvinnuuppbyggingar í Grindavík þá munum við vinna með Hitaveitunni að því máli.“

Ekki hefði verið rætt sérstaklega um Svartsengi við stofnun Suðurlinda. „En komi til framtíðaruppbyggingar á því svæði þá hljótum við að gera þá kröfu að sú orka verði nýtt í Grindavík.“

Lúðvík benti á að alfarið væri ófrágengið hvernig nýta ætti orku frá þeim háhitasvæðum sem væru innan marka sveitarfélaganna þriggja. „Hitaveitan hefur rannsóknarleyfi, m.a. í Krýsuvík, þar er hins vegar ófrágengið samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um hvernig staðið verður að þeim málum. Það er auðvitað einn lykilþátturinn í því að við erum að stofna til þessa félags að við lítum svo á að það verði ekki farið í frekari vinnu eða útfærslu á þessum svæðum nema um það sé samkomulag milli okkar.“

Forræðið heim

Hann benti ennfremur á að málefni Reykjanesfólkvangs væru í „einkennilegri stöðu“. Sveitarfélögin þrjú, sem hefðu langstærsta lögsögu innan fólkvangsins, hefðu lítið um fólkvanginn að segja. „Forræðið er meira og minna í höndum Reykjavíkurborgar samkvæmt þrjátíu ára gömlu ákvæði. Þetta er einn af þeim hlutum sem við viljum breyta og koma þessu forræði í hendur sveitarfélaganna hérna á þessu svæði.“

Í hnotskurn
» Félagið Suðurlindir verður alfarið í eigu opinberra aðila og munu sveitarfélögin þrjú fara með jafnan hlut.
» Stefnt skal að því að félagið taki til starfa eigi síðar en í ársbyrjun 2008.
» Orkuveita Reykjavíkur er ekki í sjálfstæðum verkefnum á svæðinu en hefur frá því í haust verið hluthafi í Hitaveitu Suðurnesja.
» Stefnt er að því að félagið taki til starfa eigi síðar en í ársbyrjun 2008.