Breytingar Aukin eftirspurn eftir tvinnbílum og sparneytnari bílum hefur myndast í Bandaríkjunum vegna hás bensínverðs.
Breytingar Aukin eftirspurn eftir tvinnbílum og sparneytnari bílum hefur myndast í Bandaríkjunum vegna hás bensínverðs.
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Bandaríska samgönguráðuneytið segir að gera megi ráð fyrir því að í ár verði öll met slegin hvað varði sparneytni nýrra bíla. Þar segi til sín tækninýjungar og auknar kröfur um neyslugranna bíla.
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is

Bandaríska samgönguráðuneytið segir að gera megi ráð fyrir því að í ár verði öll met slegin hvað varði sparneytni nýrra bíla. Þar segi til sín tækninýjungar og auknar kröfur um neyslugranna bíla.

Meðaldrægi bíla sem smíðaðir eru á árinu 2007 nemur 26,4 mílum á gallon, sem svarar til 8,9 km á 100 km. Er það einnar mílu (1,6 km ) meira drægi en í fyrra og 320 metrum meiri vegalengd en gamla metið frá 1987. Var það 26,2 mílur á gallon, sem svarar til 9,0 lítra á 100 km.

Breytingin er þökkuð meiri eftirspurn eftir tvinnbílum og sparneytnari bílum vegna hás bensínverðs í Bandaríkjunum. Þar hefur gallonið kostað um þrjá dollara mestan part ársins, eða rúmar 47 krónur lítrinn.

Búast við metsölu tvinnbíla og smærri bíla

Búist er við metsölu bæði tvinnbíla og smærri bíla í ár í Bandaríkjunum, en að öðru leyti hefur bílamarkaðurinn þar í landi ekki verið kraftmikill. Samdráttur hefur verið í sölu lítilla pallbíla og jeppa vegna hás bensínverðs og kreppu á húsnæðismarkaði.

Af einstökum bílaframleiðendum er drægi nýrra Hondabíla mest. Innfluttir bílar japanska fyrirtækisins brenna 5,9 lítrum á 100 km en bílar smíðaðir í Bandaríkjunum 7,5 lítrum. Mismunurinn liggur í því að um ólíkar gerðir bíla er að ræða eftir því í hvorri álfunni þeir eru smíðaðir. Bílaverksmiðjur í Detroit ná betri árangri með módelum ársins. Bílar General Motors brúka þannig 8 lítra að meðaltali á 100 km en bílar Ford 7,8 lítra. Þá jókst drægi bíla DaimlerChrysler umtalsvert og nota þeir á hundraðið að meðaltali 8,3 lítra.

7,6 lítrar á hundraðið

Á heildina litið er útlit fyrir að fólksbílar ársins eyði að meðaltali 7,6 lítrum á hundraðið í stað 7,9 lítra í fyrra og pallbílar, jeppar og sendibílar noti 9,70 lítra á hundraðið í stað 10,6 lítra.

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í sumar lög sem gera kröfur til bílafyrirtækja um að auka skilvirkni eldsneytisnotkunar. Samkvæmt þeim verða allir bílar smíðaðir í Bandaríkjunum að komast að meðaltali 100 km á 6,7 lítrum árið 2020. Til samanburðar þurfa bandarískir fólksbílar í dag 8,6 lítra til að komast sömu vegalengd og jeppar og litlir pallbílar 10,6 lítra.

Bílafyrirtækin hafa farið fram á meira svigrúm til að draga úr framleiðslukostnaði svo bjóða megi neytendum upp á meira bílaval en ella.