Saman Um fjögur hundruð unglingar tóku þátt í undankeppni söngkeppni Samfés sem fram fór í Vogum.
Saman Um fjögur hundruð unglingar tóku þátt í undankeppni söngkeppni Samfés sem fram fór í Vogum.
Vogar | Fimmtán félagsmiðstöðvar tóku lagið í undankeppni Samfés söngkeppni, Suðurlands- og Suðurnesjariðli, sem haldin var í Vogum. Bólið í Mosfellssveit varð í fyrsta sæti.

Vogar | Fimmtán félagsmiðstöðvar tóku lagið í undankeppni Samfés söngkeppni, Suðurlands- og Suðurnesjariðli, sem haldin var í Vogum. Bólið í Mosfellssveit varð í fyrsta sæti. Með þeim komust í aðalkeppnina Féló í Vestmannaeyjum, Þruman í Grindavík, Fjörheimar í Reykjanesbæ og Zelsíuz á Selfossi.

Um 400 unglingar tóku þátt í undankeppninni í Vogum um síðustu helgi. Helgin gekk vel, samkvæmt upplýsingum Tinnu Hallgrímsdóttur, tómstundaráðgjafa hjá Borunni í Vogum.

Unglingarnir gistu í grunnskólanum í Vogum. Á föstudagskvöldinu var sundlaugarpartí ásamt því að félagsmiðstöðin var opin fyrir þau sem vildu skella sér í billiard, Guitar-hero o.fl. Á laugardeginum var ýmis afþreying í boði fyrir unglingana, t.d. listasmiðja, förðunarsmiðja, pílusmiðja og margt fleira. En á meðan flestir voru í smiðjum voru keppendur kvöldsins í hljóðprufum fyrir kvöldið mikla. Eftir keppnina var þrusuball með þeim Dj Óla Geir og Andra Ramirez og náðu þeir upp það góðri stemningu að þakið ætlaði af húsinu á tímabili. Unglingarnir voru til fyrirmyndar alla helgina og skemmtu þau sér konunglega, samkvæmt upplýsingum Tinnu.

Þær fimm félagsmiðstöðvar sem komust áfram munu taka þátt í aðalkeppni Samfés sem haldin verður í mars á næsta ári.