[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keppni í rímnaflæði * Rímnaflæði 2007 fer fram í félagsmiðstöðinni Miðbergi í Efra-Breiðholti í kvöld.
Keppni í rímnaflæði

* Rímnaflæði 2007 fer fram í félagsmiðstöðinni Miðbergi í Efra-Breiðholti í kvöld. Um er að ræða keppni í rappi og rímum fyrir ungt fólk á grunnskólaaldri þar sem frammistaða keppenda er metin eftir fjórum þáttum: rímum, flæði, stíl og innihaldi texta.

Dabbi T. verður kynnir á keppninni í ár, en hann mun einnig taka nokkur lög fyrir gesti. Auk hans munu Poetrix og sigurvegari Rímnaflæðis 2006, Danni A ., stíga á svið og spila fyrir gesti.

Skráning fer fram á hiphop.is og er skilyrði að keppendur séu á grunnskólaaldri (fæddir 1991 eða síðar).

Húsið verður opnað klukkan 19:30 og kostar aðeins 300 krónur inn.

Nýbylgja

Þrumukattanna

* Í dag kemur út platan New Wave með íslensku hljómsveitinni Thundercats . Skífan inniheldur tíu lög og er gefin út hjá Nordic Notes í Þýskalandi, Austurríki og Sviss en Hanndatt, útgáfa Þrumukattanna, gefur út á Íslandi.

Hljómsveitin var stofnuð af Bjarna Guðmanni Jónssyni og Magnúsi Leifi Sveinssyni sumarið 2006 en þeir voru áður í rokkhljómsveitinni Úlpu.

New Wave er fáanleg í öllum helstu plötubúðum hérlendis og í Nakta apanum. Einnig er hægt að panta plötuna í póstkröfu í gegnum netfangið thundercatstheband@gmail.com eða á heimasíðu sveitarinnar, myspace.com/hanndatt.

Tekin upp í Berlín

* Von er á frumraun Hellvar í búðir hinn 22. nóvember. Frumraunin ber nafnið Bat Out of Hellvar og var samin og tekin upp í Berlín, auk þess sem framleiðsla fór þar fram.

Hellvar er þriggja ára gömul hljómsveit sem var stofnuð í Berlín af þeim Heiðu Eiríksdóttur og Elvari Geir Sævarssyni og eru þau í fararbroddi bandsins, en auk þeirra spilar Alexandra á gítar og Sverrir á bassa.

Stutt er síðan sveitin fór í tónleikaferð til Bandaríkjanna og Berlínar og spilaði hún einnig á Airwaves við góðar undirtektir.

Bat Out of Hellvar kemur út hjá Komi Records, nýju útgáfufyrirtæki með aðsetur á Akureyri.