Kvikmyndin La Vie en Rose fjallar um ævi söngkonunnar sívinsælu Edith Piaf.
Kvikmyndin La Vie en Rose fjallar um ævi söngkonunnar sívinsælu Edith Piaf.
ÞAÐ var enginn skortur á andstæðum og dramatík í lífi Édith Giovanna Gassion. Hún ólst upp í vændishúsi og á götum Parísar þar sem hún vann fyrir sér sem götulistamaður.

ÞAÐ var enginn skortur á andstæðum og dramatík í lífi Édith Giovanna Gassion. Hún ólst upp í vændishúsi og á götum Parísar þar sem hún vann fyrir sér sem götulistamaður. Áður en yfir lauk hafði hún heillað svo marga með söng sínum að 40 þúsund manns fylgdu henni til grafar þegar hún lést árið 1963. Nú um helgina verður kvikmyndin La Vie en Rose frumsýnd í Regnboganum, en hún er byggð á skrautlegri og viðburðaríkri ævi söngkonunnar sem varð fræg undir nafninu Édith Piaf.

Leikstjóri La Vie en Rose er hinn franski Olivier Dahan. Sú kvikmynd hans sem íslenskir bíógestir kannast sjálfsagt helst við er Crimson Rivers 2 . Hann hóf ferilinn sem myndlistamaður, en fór svo út í það að gera tónlistarmyndbönd, t.d. fyrir hljómsveitina Cranberries. Þaðan lá svo leið hans í handritaskrif og leikstjórn á kvikmyndum.

Marion Cotillard, sem fer með aðalhlutverkið í myndinni hefur átt köflóttan leikferil. Hennar fyrsta hlutverk var í þáttaröðinni Hálendingnum , sem var framhald samnefndrar kvikmyndar um hinn ódauðlega Connor Macleod. Síðan hefur leiðin legið upp á við og Cotillard hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum t.d. í Taxi myndunum þremur og Tim Burton myndinni Big Fish .

Kvikmyndagagnrýnendur hafa verið frekar jákvæðir í umfjöllun sinni um La Vie en Rose , en skiptast þó nokkuð í tvö horn. Sumum finnst frásagnarstíll myndarinnar ruglingslegur þar sem flakkað er fram og aftur í tíma. Aðrir lofa frammistöðu aðalleikkonunnar í hástert og spá henni ríkulegri uppskeru á verðlaunaafhendingum kvikmyndahátíðanna.

Metacritic 66/100