Árni Gautur Arason
Árni Gautur Arason
Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is ÁRNI Gautur Arason, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er hættur hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Vålerenga. Samningur hans við félagið er að renna út og eftir fundahöld í vikunni varð sátt um að hann leitaði á önnur mið.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

ÁRNI Gautur Arason, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er hættur hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Vålerenga. Samningur hans við félagið er að renna út og eftir fundahöld í vikunni varð sátt um að hann leitaði á önnur mið.

„Þetta er búið að vera lengi í deiglunni, það hefur lengi blundað í mér að prófa eitthvað nýtt og þeir hjá Vålerenga ætla að finna yngri markvörð til framtíðar. Það hafa komið nokkrar fyrirspurnir en ég hef ekki rætt af alvöru við nein félög enn sem komið er og held því algjörlega opnu að leika áfram hér í Noregi eða fara eitthvert annað,“ sagði Árni Gautur við Morgunblaðið í gærkvöld.

Hann kom til félagsins frá Manchester City sumarið 2004 og hefur leikið hvern einasta deildaleik frá þeim tíma. Árni varð meistari með Vålerenga 2005 þegar liðið rauf einveldi Rosenborg og var þá kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu. Áður varð Árni sex sinnum norskur meistari með Rosenborg og hann á níu og hálft tímabil að baki í norsku úrvalsdeildinni.

„Þetta er búinn að vera mjög góður tími hjá Vålerenga og mér leið afar vel hjá félaginu. Meistaratitillinn var að sjálfsögðu toppurinn á því, ásamt því að hafa ekki misst úr eina mínútu í deildinni á þremur og hálfu ári,“ sagði Árni Gautur sem er á leið til Kaupmannahafnar en þar kemur íslenski landsliðshópurinn saman á morgun.