Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir skrifar í tilefni þess að starf forstöðumanns hjá Umhverfisstofnun á Akureyri hefur verið lagt niður: "Við sem höfum valið að lifa gæðalífi á landsbyggðinni gerum okkur æ betur ljóst hvaða varnarbarátta þarf að eiga sér stað á hverjum degi."

Í FRÉTTUM nýverið var greint frá niðurlagningu starfs forstöðumanns hjá Umhverfisstofnun á Akureyri og sú ákvörðun réttlætt út frá stefnumótunar og hagrænum sjónarmiðum og beinlínis látið að því liggja að með þessari mikilvægu stefnumótandi ákvörðun yrði fjárhagur og framtíð UST tryggð um alla framtíð.

Þessi ákvörðun hlýtur að vekja upp spurningar, um tilgang þess og þá hugsun að flytja störf út á land. Það er sjálfsagt hægt að komast að því með hagfræðilegum rökum og stjórnsýsluúttekt að allt sem staðsett er á landsbyggðinni sé óhagkvæmt og standi vexti stofnana fyrir þrifum. En er það stjórnsýsluúttekt sem er best fyrir land og þjóð – sem er gild?

Við sem höfum valið að lifa gæðalífi á landsbyggðinni, gerum okkur æ betur ljóst hvaða varnarbarátta þarf að eiga sér stað á hverjum degi. Á Akureyri höfum við notið mikillar fólksfjölgunar á sl. 10 árum en hver og einn einasti sem fer og hvert einasta starf sem tapast skiptir okkur máli.

Í fjárlögum Alþingis 2008 er að finna mýmörg dæmi um ,,ósjálfráðan“ vöxt ríkisstofnana í Reykjavík – vöxt sem engar pólitískar spurningar eru spurðar um – vöxt sem enginn fylgist með – vöxt sem enginn telur eins og hvert einasta starf sem flutt er frá höfuðborgarsvæðinu er talið. Það er talið til tekna í skýrslum um byggðamál. Það er talið sem merki um göfugmennsku og víðsýni þeirra sem ráða. Hitt er bara þegjandi samkomulag – sem ræður.

Ég tel það skyldu ríkisvaldsins að sjá til þess að þegar ákvörðun um að flytja stofnun eða hluta stofnunar á landsbyggðina – til dæmis til bæjarfélags eins og Akureyrar, sem er nægilega stórt og öflugt til að mynda dýnamískt, örvandi og skapandi samfélag – að hugur fylgi máli. Að stofnanir séu það burðugar og hafi nægilega tekjustofna til að standa undir rekstri starfsstöðva sinna á landsbyggðinni og að þeim sé gert kleift að verða sjálfstæðar og dafna á eigin forsendum en ekki litið á þær sem ,,vandamálið“ og ,,eyðsludeildina“ fyrir norðan.

Það að vera fulltrúi landsbyggðarinnar í verkefnum á vegum ríkis og bæjar er tímafrekt og krefjandi – það þekki ég af eigin raun. En sveitarstjórnarmenn og -konur leggja þau störf á sig þar sem við teljum óhjákvæmilegt að landsbyggðin eigi sér málsvara í þeim verkefnum. Sjálfsagt væri hægt að reikna út í hugvitsamlegri úttekt það óhagræði sem hlýst af því að kalla landsbyggðarfulltrúa til ráðalags en það má ekki verða sjónarhorn sem verður ráðandi – þá er illa farið fyrir íslenskri þjóð.

Forstjóri UST segir í fréttatilkynningu: ,,Með þessu er verið að skapa nýjan grundvöll fyrir umræðu um framtíð stofnunarinnar og horfa fram á veginn með opnum huga og jafnframt að svara kröfum stjórnsýsluúttektar sem gerð var á stofnuninni á síðasta ári.“ Hér ræður þröngsýni og hagræðingarkrafan ein og umræðan um framtíð stofnunarinnar verður einsleit.

Ég spyr; hvaða nútímalegu vinnubrögð eru hér í gangi?

Höfundur er bæjarstjóri á Akureyri.