Upphoðshaldarar Þeim Árna Þór Árnasyni og Saso Andonov fannst vanta hér á landi uppboðshús samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Upphoðshaldarar Þeim Árna Þór Árnasyni og Saso Andonov fannst vanta hér á landi uppboðshús samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Uppboðshúsið Arnason & Andonov ehf. verður með fyrsta uppboð sitt í Iðnó á sunnudag og kennir þar margra grasa.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Uppboðshúsið Arnason & Andonov ehf. verður með fyrsta uppboð sitt í Iðnó á sunnudag og kennir þar margra grasa. Frímerki, mynt, seðlar, bækur, póstkort, málverk og ýmsir listmunir verða boðin upp en alls eru 416 hlutir á uppboðinu.

Árni Þór Árnason, fyrrverandi forstjóri Austurbakka, og Makedóníumaðurinn Saso Andonov, sem er með meistarapróf í hagfræði frá Háskóla Íslands og íslenskur ríkisborgari, standa að uppboðshúsinu, sem er til húsa á Austurströnd 1 á Seltjarnarnesi. Árni Þór segir að þeir séu báðir frímerkjasafnarar og þeim hafi fundist að hér vantaði uppboðshús samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, þar sem seljandi gangi út frá ákveðnu grunnverði, því þannig sé hagur hans tryggður. Auk þess hafi fólk ekki haft almennileg tækifæri til að selja hluti eins og frímerki, mynt, seðla, ýmsa listmuni og fleira á uppboðum hérlendis og því hafi þeir ákveðið að koma til móts við markaðinn með því að opna svona uppboðshús.

Stór markaður

„Við erum að reyna að stækka íslenska markaðinn með því að vera líka á netinu,“ segir Árni Þór og vísar til þess að uppboðsskráin vegna fyrsta uppboðsins hafi ekki aðeins verið send í um 400 eintökum út um allan heim og meðal annars til mynt- og frímerkjasafnara á Íslandi heldur sé hún einnig aðgengileg á vef A&A og þar sé hægt að vera með boð (www.aa-auctions.is). Hann segir að þeir líti einkum á Ísland, Norðurlöndin og Norður-Ameríku sem markaðssvæði sitt og bendir á að íslensk frímerkjasöfn frá því fyrir 1944 séu mjög vinsæl í Bandaríkjunum. Þá hafi ekki svo mikið af frímerkjum verið gefið út og auk þess þyki þetta falleg frímerki. Hins vegar sé sorglegt hvernig verið sé að ganga af frímerkinu dauðu í nútímanum, en frímerkin frá því fyrir 1944 lifi góðu lífi og hækki jafnt og þétt eins og góð hlutabréf.

Fram að uppboðinu eru hlutirnir til sýnis hjá fyrirtækinu á Seltjarnarnesi daglega frá klukkan 13 til 16.30 eða eftir samkomulagi en uppboðið í Iðnó hefst síðan klukkan 10.30 á sunnudag með uppboði á frímerkjum. Klukkan 14 hefst uppboð á kortum og byrjað verður að bjóða upp listmuni klukkan 15.30.

Á uppboðinu verða meðal annars bronsskjöldur af Jóni Sigurðssyni forseta, bronsstytta af Adolf Hitler, kanslara Þýskalands, strútsegg frá Suður-Afríku og silfurborðbúnaður frá 1949.

Boðið upp í evrum

Hæsta grunnverðið er 14.000 evrur fyrir olíumálverk eftir Erró, en grunnverð fyrir olíumálverk frá 1932 eftir Kjarval er 9.000 evrur. Grunnverð fyrir styttu af sjómanni með lúðu eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal er 1.200 evrur og algengt verð fyrir frímerki er 10 evrur.

Árni Þór segir að verðið sé í evrum vegna þess að útlendingar eigi erfitt með að breyta yfir í íslenskrar krónur auk þess sem upphæðir í krónum séu svo háar og háar upphæðir fæli frá. Ennfremur bjóði flest uppboðshús í til dæmis Svíþjóð og Danmörku upp í evrum og ákveðið hafi verið að fylgja þeim.