Kirkjubær Hið forna biskupssetur Kirkjubær í Straumey í Færeyjum. Hér bjó Sverrir frá því hann var fimm vetra til tuttugu og fimm ára aldurs, var settur til bókar og vígður prestur. Í baksýn gnæfir eyjan Koltur. Ljósmyndin er tekin af J.A. Arge.
Kirkjubær Hið forna biskupssetur Kirkjubær í Straumey í Færeyjum. Hér bjó Sverrir frá því hann var fimm vetra til tuttugu og fimm ára aldurs, var settur til bókar og vígður prestur. Í baksýn gnæfir eyjan Koltur. Ljósmyndin er tekin af J.A. Arge.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin konungasaga birtir eins glögga mynd af söguhetju sinni og Sverris saga, og naumast á nokkur annar Noregskonungur sér eins ævintýralegan feril og hann.

Engin konungasaga birtir eins glögga mynd af söguhetju sinni og Sverris saga, og naumast á nokkur annar Noregskonungur sér eins ævintýralegan feril og hann. Nú þegar rétt fimmtíu ár eru liðin frá því að Sverris saga var síðast gefin út á Íslandi kemur sagan út í ritröðinni Íslenzk fornrit. Af þessu tilefni er rýnt í sögu Sverris konungs.

Eftir Þorleif Hauksson

thorl@akademia.is

Sverris saga er mjög sérstæð innan íslenskrar sagnaritunar. Hún er elsta veraldlega konungasagan sem varðveist hefur. Þetta er samtímasaga, færð í letur eftir frásögn sjónarvotta skömmu eftir að atburðirnir áttu sér stað, og samkvæmt formála er upphaf sögunnar ritað eftir fyrirsögn Sverris sjálfs af Karli Jónssyni ábóta á Þingeyrum. Sagan hefur notið mikillar virðingar þegar á miðöldum sem heimildarrit og listaverk. Engin konungasaga birtir eins glögga mynd af söguhetju sinni og Sverris saga, og naumast á nokkur annar Noregskonungur sér eins ævintýralegan feril og hann. Samkvæmt sögunni er Sverrir fæddur í Noregi en alinn upp í Færeyjum frá 5 ára aldri og vígður þar til prests. Þegar hann er 24 ára kemur móðir hans úr Rómarferð með þau skriftaboð frá páfa að hún skuli tjá þessum syni sínum hver sé faðir hans. Þar með fær Sverrir að vita að hann sé ekki sonur Unáss kambagerðarmanns heldur Sigurðar munns Noregskonungs, en Sigurður var veginn af mönnum Inga bróður síns aðeins 22 ára gamall 1155, fjórum árum eftir fæðingu Sverris.

Konungur í Noregi er þegar hér er komið Magnús Erlingsson sem ríkir í skjóli Erlings jarls, föður síns. Samkvæmt sögunni er Magnús „vinsæll ok ástsæll, en jarl var ríkr ok vitr, harðráðr ok sigrsæll“ (Sverris saga, 6-7). Sverrir bregst þannig við þessum fréttum að hann siglir til Noregs, fátækur færeyskur prestur, einn og allslaus, til að freista þess að berjast til valda. Hann gerist foringi fámenns og illa búins uppreisnarflokks Birkibeina og tekst með kænsku og harðfylgi að vinna hvern sigurinn á fætur öðrum. Erlingur jarl féll fyrir mönnum hans 1179, og loks vann hann úrslitasigur á Magnúsi Erlingssyni og felldi hann í sjóorrustunni við Fimreiti 1184. Í ræðu sem Sverrir er látinn flytja yfir moldum Magnúsar lýsir hann ofmetnaði og hroka þeirra feðga sem enginn hafi getað rönd við reist, „allt þar til Guð sendi útan af útskerjum einn lítinn mann ok lágan at steypa þeira ofdrambi, en sá maðr var ek“ (bls. 153). Þar með var þó ekki fullur sigur unninn. Hver uppreisnarflokkurinn á fætur öðrum reis upp gegn Sverri, síðast voldugur flokkur svonefndra Bagla sem naut beins stuðnings gamla höfðingjavaldsins og kirkjunnar, sem Sverrir átti í sífelldum útistöðum við; meðal annars flæmdi hann tvo erkibiskupa úr landi. Þær deilur urðu til þess að Sverrir var bannfærður af páfa 1194 og sat í banni til æviloka 1202. Sagan gerir hins vegar lítið úr því banni og deilum hans við kirkjuna.

Nú þegar rétt fimmtíu ár eru liðin frá því að Sverris saga var síðast gefin út á Íslandi kemur sagan út í ritröðinni Íslenzk fornrit, að þessu sinni með ítarlegum formála og orðaskýringum neðanmáls, auk þess sem birtar eru í Viðauka ýmsar samtímaheimildir sem bregða ljósi úr öðrum áttum á þennan merkilega konung. 1

Áróðursrit eða hlutlaus sagnfræði?

Ritun Sverris sögu mun hafa hafist 1185, en þá eru heimildir um að Karl Jónsson hafi siglt til Noregs og tekið land í Niðarósi þar sem Sverrir konungur sat þann vetur. Um hlutdeild Sverris í ritun sögunnar hafa verið mjög skiptar skoðanir meðal fræðimanna, en þess má geta að vissulega bera fyrstu 25 kaflar sögunnar ákveðin „sjálfsævisöguleg“ einkenni. Sverris saga er annars mjög einsleit í orðafari og stíl og flest sem bendir til þess að Karl muni hafa haldið áfram ritun hennar í áföngum til enda, en hann andaðist 1212 eða 1213. 2

Sumir fræðimenn hafa talið að Sverrir eða afkomendur hans muni hafa haft hönd í bagga með ritun Sverris sögu. Hún sé hugsuð sem áróðursrit fyrir málstað hans gegn kirkjunni og höfðingjavaldinu. Aðrir hafa bent á að nokkrir atburðir þegar á líður söguna séu þess eðlis að ólíklegt sé að Sverrir hefði viljað flíka þeim ef hann hefði sjálfur ráðið ritun hennar. Þá er bent á hlutlægni sögunnar og meinta sanngirni og göfuglyndi höfundar í lýsingum á andstæðingum Sverris. Að þessu verður vikið nánar hér á eftir.

Meðal þeirra rita sem prentuð eru í Viðauka nýju útgáfunnar eru kaflar úr enskum og dönskum sagnfræðiritum sem skrifuð voru á latínu undir lok tólftu aldar. Hér er dregin upp önnur mynd af Sverri en í sögu hans. Sá sagnaritari sem lengst gengur lýsir honum sem guðníðingi og harðstjóra ( tyrannus ) og sannkölluðu verkfæri djöfulsins. Sömu hugsun má sjá í páfabréfum sem varða mál Sverris og einnig í ýmsum málflutningi innan sjálfrar sögunnar, til dæmis í ræðu Sverris sjálfs í Björgvin í 99. kafla, eftir sigurinn við Fimreiti:

Þetta mæla sumir: ‘Sigrsæll er Sverrir. Vitr er Sverrir'. Þá er svarat: ‘Hvat er þat kynligt? Mikit hefir hann til unnit, gefizk fjándanum'. Sumir segja at ek sé djöfullinn sjálfr ok kominn af helvíti, ok sé hann lauss orðinn, en ek muna af orðinn (bls. 153).

Sú hugmynd sem hér örlar á er runnin frá riti Ágústínusar kirkjuföður, Um ríki Guðs ( De civitate Dei ), eða öllu heldur útleggingum þess á 11. og 12. öld. Samkvæmt henni er konungurinn hluti af Guðsríki á jörðu, að því tilskildu að hann haldi í heiðri kristilegar dyggðir, mildi og réttlæti, sem felur í sér hlýðni við boð Drottins. Sá sem fylgir þeim boðum er réttlátur konungur ( rex iustus ). Hinn, sem afneitar þeim, er harðstjóri og tilheyrir andstæðu ríki djöfulsins. Dramb ræður gerðum hans þar sem hann dirfist að hrifsa til sín vald sem hann á ekkert tilkall til. Í þessu sambandi má minna á að Magnús Erlingsson hafði verið smurður og vígður til konungs af erkibiskupi, að viðstöddum sendimanni páfa. Hann var þannig fyrsti konungurinn „af Guðs náð“ sem ríkti yfir Noregi. Málflutningur Sverris í sögunni gengur út á það að Magnús sé ekki réttur konungur Noregs þar sem hann sé ekki konungssonur heldur aðeins sonur lends manns. En auk þess sem sagan rekur málflutning beggja konunganna og kirkjunnar felur hún í sér flóknari innri boðskap sem brátt verður vikið að.

Lýsingar Sverris og andstæðinga hans

Fyrstu 25 kaflar sögunnar fylgja sjónarmiði Sverris. Þarna segir frá draumum hans, hugsunum og hugarangri meðan hann er að þreifa fyrir sér og hefja baráttu sína. Í þessum köflum sögunnar bregður einnig fyrir gildishlöðnum innskotum sem birta samúð sögumanns með þessum unga konungssyni. Þá hefur verið bent á að í sögumannsfrásögn, fram til 24. kafla, eru sérstakar klausur um liðsinni Guðs með Sverri, en ekki síðar í sögunni. Hins vegar eru hliðstæðar vísanir í ræðum Sverris sjálfs í síðari köflum. Frá og með 28. kafla fer einatt tvennum sögum fram, gefin er sýn inn í herbúðir Birkibeina og andstæðinga þeirra á víxl. Um leið fær sagan á sig hlutlægari blæ, enda virðist Guð hér hafa fullreynt Sverri og staðfest hann sem sterkan og sigursælan foringja. Huglægnin í frásagnarstíl upphafskaflanna á sér hliðstæður í ræðum Sverris, og vissulega má greina samúð sögumanns með honum í síðari hluta sögunnar enda þótt hún sé ekki orðuð beinlínis. Þegar getið er hreysti eða hugprýði manna eru þeir eiginleikar nánast eingöngu eignaðir mönnum Sverris. Eitt af einkennum í ræðum Sverris er meinlegt háð um andstæðinga hans, en slíkt ber einnig við í sögumannsfrásögn. Höfundur er sannkallaður höfðingjasinni, og framganga bændaherja gegn Sverri er einatt sýnd í skoplegu ljósi. Atburðirnir eru látnir tala sínu máli eins og í eftirfarandi dæmum:

En þegar er Birkibeinar ofruðu vápnum sínum þá laust hræðslu í hug búandkörlum (16. k., bls. 28).

sneri konungr þá at flokki bænda. Bændr sneru þá skjöldum við, en sumir köstuðu ok leituðu svá lífshjálpar undir fótaaflit ok runnu sem mest máttu þeir, sumir með veginum en sumir hingat ok þangat ok forðuðu sér svá (164. k., bls. 258).

Einn af hinum voldugu andstæðingum Sverris er sýndur í svipuðu ljósi. Þetta er Nikulás Árnason biskup, sem er stórorður og sigurviss fyrir bardaga, en sýnir hugleysi og leggur á flótta um leið og lið hans byrjar að fara halloka. Í öðrum tilvikum lætur höfundur lesendur dæma þennan guðsmann af gerðum sínum, m.a. þegar hann lætur menn sína brenna bæinn í Björgvin í 150. kafla, þar á meðal margar kirkjur. Afsökun hans er sú að þar séu bannsettir menn inni, svo að þær séu ekki helgari en hver önnur porthús (þ.e. hóruhús). Lýsingar Erlings og Magnúsar eru hófsamlegri, sem merkir ekki endilega að þeir séu sýndir í fegurra ljósi. Það sést ef lýsing þeirra er borin saman við mynd Sverris í sögunni.

Sverrir og Davíð

Sverrir er hvergi látinn sanna rétt sinn til konungdóms með járnburði eða þvílíku, en þess í stað koma yfirskilvitlegar opinberanir í draumum í upphafi sögunnar. Gunnhildi móður hans dreymir fyrir fæðingu hans að hún hefur fætt „undarligan burð ok ógurligan sýnum“ (1. k., bls. 4—5), nánar til tekið mikinn, snjóhvítan stein sem neistar af alla vega eins og af glóandi járni. Bent hefur verið á hliðstæðu við draum móður Alexanders mikla sem þótti sem eldingu lysti niður í skaut sitt og mikill eldur breiddist út. Í fyrsta draumi Sverris sjálfs er hann staddur við hirð Ólafs helga, þvær sér í sama vatni og hann og ber síðan merki hans fram til orrustu gegn Magnúsi Erlingssyni og Erlingi jarli. Eins og bent hefur verið á ber að skilja þetta sem táknræna skírn. Sverrir er hér vígður til heilags hlutverks sem eftirmaður dýrlingsins og sannur konungur Noregs.3

Þegar Sverrir er kominn til Noregs og orðinn foringi Birkibeina dreymir hann að Samúel spámaður birtist honum í kirkju, smyr hann og veitir honum blessun Guðs. Með þessum draumi nálægt upphafi sögunnar er líking dregin milli Sverris og Davíðs konungs Biblíunnar. Sá þráður er tekinn upp aftur í ræðu Sverris eftir bardagann við Fimreiti í 99. kafla þar sem Sverrir gerir upp sakirnar eftir fall Magnúsar konungs. Hér vitnar hann í 56. sálm Davíðs: „Miskunnaðu mér, Guð, því at maðrinn trað mik undir fótum ok barðisk allan dag í gegn mér ok kvalði mik“ (bls. 152). Og hann heldur áfram: „Guði hefir ekki jafnleitt verit allar stundir sem ójafnaðarmenn; hefir hann þat ok harðast refsat.“ Síðan tekur hann dæmi af höfuðsyndurum: Lúsífer, Adam og Faraó, og næst á undan umfjöllun um Magnús vísar hann til þess „þá er Saul konungr grimmðisk móti Guði þá flakkaði hann síðan með óhreina anda“. Sverrir er þannig sýndur í gervi Davíðs enda þótt nafn hans sé hvergi nefnt í sögunni. Um þetta segir norski sagnfræðingurinn Sverre Bagge:

Andstætt Ólafi helga birtist Davíð ekki í draumum Sverris. Þess í stað er Sverrir sýndur í þess háttar aðstæðum að hver upplýstur lesandi hljóti að kannast við samlíkingu hans og Davíðs. Auk beinna vísana til sérstaks sambands Sverris við Davíð í sögunni ber allur æviferill Sverris keim af þessum hliðstæðum. Eins og Davíð er hann lítill maður og lágur utan af hjara, eins og Davíð reikar hann um liðfár í óbyggðum og eins og Davíð, sem sigraði risann Golíat, vinnur hann sigur á fjandmönnum sem eru margfalt fjölmennari. 4

Bagge eignar þessa samsvörun Sverri sjálfum, en telur ekki að hún sé neitt lykilatriði í hugmyndafræði eða frásögn Sverris sögu. Hann segir að enda þótt sagan endurspegli pólitískan áróður Sverris og þá hugmyndafræði sem Sverrisættin tileinkaði sér eftir hans dag, þá birti sagan ekki þær hugmyndir um fyrirmyndarkonung sem viðteknar voru í evrópskum lærdóms- og sagnaritum. Í stað þess bregði sagan upp mynd Sverris sem foringja óaldarflokks sem leiði menn sína til sigurs í krafti herkænsku sinnar en ekki fyrir náð og handleiðslu Guðs.

Á fornsagnaþinginu í Durham í fyrrasumar var þessi kenning Bagge gagnrýnd af tveimur fræðimönnum, Lars Lönnroth og Fredrik Charpentier Ljungqvist. Lönnroth tók til meðferðar drauma Sverris og komst að þeirri niðurstöðu að þeir þjónuðu fyrst og fremst því hlutverki í sögunni að staðfesta Sverri sem réttan kristilegan konung ( rex iustus ) og eina löglega konunginn yfir Noregi. Ljungqvist skoðaði Sverris sögu í ljósi sömu hugmyndar um konunginn sem stjórnar ríki sínu í samræmi við boð Drottins. Niðurstaða hans er sú að enda þótt Sverrir sé ekki sýndur sem dæmigerður rex iustus sé iðulega vísað til þeirrar ímyndar í sögunni til að réttlæta hann sem löglegan konung. 5

Konunglegar dyggðir

Í ræðu Svína-Péturs yfir Björgvinjarbúum eftir fall Magnúsar konungs segir hann m.a.:

Takið nú við Sverri konungi er Guð hefir sent yðr. Þá hafi þér réttan höfðingja ok vitran, mildan ok málsnjallan, réttlátan ok friðsaman, ágætan ok öruggan til landvarnar ok allrar landstjórnar (bls. 149).

Ræðumaður telur hér upp þrjár af fjórum svonefndum höfuðdyggðum: visku ( sapientia ), réttlæti ( iustitia ) og styrk ( fortitudo ). Fjórða höfuðdyggðin, hófsemi ( temperantia ) fylgir Sverri einnig og birtist meðal annars í bindindisræðu hans (104. k., bls. 159—60) og í persónulýsingu eftir andlát hans (181. k., bls. 280). 6

Þessar dyggðir eru ekki víða tjáðar beinum orðum í sögunni, en þær birtast í athöfnum og orðum Sverris og síðast en ekki síst í andstæðum sem dregnar eru milli hans og andstæðinga hans.

Í fyrrnefndum draumi Sverris í 10. kafla lýkur Samúel spámaður ræðu sinni með þessum orðum: „Ver þú hraustr ok sterkr, því at Guð mun fulltingja þér“ (bls. 17). Enduróm þessara orða er að finna í ræðu Sverris í 94. kafla, eftir bardagann við Fimreiti:

Guð sjálfan skulum vér lofa fyrir sigr várn, er hann hefir nú miklu berara en fyrr veitt oss sinn styrk ok kraft í þessi orrostu (bls. 145).

Þessi styrkur ( fortitudo ) er, ásamt þeim sigri sem af honum hlýst, gjöf Guðs og sönnun á náð hans Sverri til handa. Söguna á enda er Sverrir sýndur sem persónugerving þessarar dyggðar, í óumdeildri forystu fyrir mönnum sínum, þolgæði í harðindum, ró og myndugleika í erfiðum aðstæðum. Viska ( sapientia ) er einnig dyggð sem Sverrir er gæddur. Hann getur séð fyrir óorðna atburði og gert ráðstafanir í samræmi við það ( providentia , forsjá), og ennfremur veit hann greinarmun góðs og ills, eins og skýrust dæmi eru um í ræðu hans á Rauðafjalli í 20. kafla og bindindisræðunni í 104. kafla. Réttlæti Sverris ( iustitia ) birtist ekki síst í því hve fús hann er til að fyrirgefa óvinum sínum og gefa þeim grið. Vissulega eru dæmi í sögunni um grimmilegar refsingar hans gagnvart bændum, þar sem hann gengur svo langt að brenna heilu byggðirnar til kaldra kola, en þær aðgerðir eru ævinlega réttlættar með því að bændurnir hafi ekki viljað ganga til sætta við hann.

Helsti lösturinn sem óvinir Sverris gera sig seka um er dirfð eða ofmetnaður ( superbia ). Í 15. kafla takast bæjarmenn í Niðarósi þá dirfð á hendur að þeir taka merki Ólafs helga og bera það gegn Sverri í bardaga. Þrátt fyrir mikinn liðsmun fer Sverrir með sigur af hólmi og „gengu þá margir með mjúklæti til hans, þeir er áðr höfðu við miklum ofmetnaði blásit í mót honum“ (bls. 25). Í ræðu Sverris við útför Erlings jarls ráðleggur hann mönnum að biðja Guð að syndir Erlings séu fyrirgefnar, „ok einkum þat er hann tók svá mikla dirfð til, einn lendr maðr, at hann lét gefa konungs nafn syni sínum, en á þat ofan reisti hann flokk ok merki á móti konunga sonum“ (bls. 63). Meira að segja menn Erlings viðurkenna að þeim hafi mörgum þótt „hans ofsi svá mikill at þungt þótti at bera“ (64).

Margir fræðimenn hafa bent á hve mynd Magnúsar Erlingssonar í sögunni sé viðfelldin. 7 Áður hefur verið minnst á það sem sagan segir um vinsæld hans og ástsæld, en hún var slík að „svá sem skaðasamt varð at fylgja honum þá skorti hann þó aldri liðit til fylgðarinnar meðan hann lifði“ (bls. 151). En er þar með sagt að hann hafi verið gæddur þeim eiginleikum sem konung áttu að prýða í augum miðalda lesenda og áheyrenda? 8

Jafnvel þótt Magnús sé sýndur sem vaskur hermaður er styrkur hans engan veginn sambærilegur við styrk Sverris. Hann er óákveðinn og fljóthuga, engan veginn eins vitur og andstæðingur hans, og þegar hann tekur ákvarðanir gegn ráðum höfðingja sinna verður það til þess að hann bíður ósigur og fellur að lokum (53. og 89. kafli). Ekki er réttlæti hans heldur sambærilegt við Sverri. Þar sem Sverrir er alltaf fús til að gefa grið þeim sem ná fundi hans er Magnús jafngrimmur og miskunnarlaus gegn Birkibeinum og faðir hans. Í árásinni í Niðarósi í 62. kafla virðir hann ekki einu sinni kirkjugrið:

Margir hljópu í kirkjur inn, ok váru þeir flestir drepnir, fyrir því at þá helt engi kirkja mönnum. Þá varð þat gört er aldri varð fyrr, at menn váru drepnir ok dregnir ór Kristskirkju (bls. 101).

Fyrir bardagann við Norðnes hvetur Magnús menn sína með drambsamlegum orðum:

vér höfum til móts við þá göfugmenni ok góða drengi, en þeir hafa ekki nema þjófa ok ránsmenn ok raufara þræla ættar ok stafkarla, sem Guð steypi þeim. En eigi er at réttu hefnt göfugra frænda várra þó at vér drepim þá alla, en brigzlalaust er oss at gera þat. Vil ek birta fyrir yðr minn vilja, at engi verði sá djarfr minna manna at einum gefi grið (bls. 85).

Lesandi hlýtur að bera þessi orð saman við auðmýktina í ræðu Sverris við sama tækifæri þar sem hann segir að traust þeirra sé „allt undir Guði ok hans helgum mönnum en eigi undir liðsfjölða“ og biður að þessi fundur þeirra Magnúsar konungs fari „sem Guð veit at málaefni okkur eru til“ (bls. 84). Bardaganum lýkur með því að menn Magnúsar leggja á flótta þrátt fyrir mikinn liðsmun.

Ræða Magnúsar ber vitni um lestina reiði ( ira ) og ofmetnað ( superbia ), og hið síðarnefnda er meginefnið í ræðum Sverris eftir fall hans. Í fyrri ræðunni biður hann Guð að fyrirgefa Magnúsi „þat allt er hann varð offari í“ (bls. 150), og í hinni síðari telur hann Magnús meðal ofmetnaðarmanna sem Guði hafi verið leiðastir allra og „harðast refsat“ (bls. 152). Andstætt hófsemi Sverris, sem t.a.m. aldrei drakk „áfenginn drykk svá at hann spillti fyrir þat viti sínu“ (bls. 280), er Magnús sagður „drykkjumaðr mikill; hann var ok kvennamaðr mikill“ (bls. 151). Þessi löstur, þ.e. sællífið ( luxuria ) gerir gæfumuninn þegar Magnús bíður auðmýkjandi ósigur fyrir Sverri í Björgvin í 76.–77. kafla, þar sem menn hans „vakna svefnærir“ og hafa lagst niður „ölóðir“ (bls. 118).

Mynd Sverris er sjálfri sér samkvæm söguna á enda. Hann er á einum stað kallaður „djöfulsprestr“ af andstæðingum sínum, og svipað auknefni hlýtur hann frá einum af ensku sagnariturunum. Mynd sögunnar af honum er þó öll önnur. Enda þótt ekki sé stranglega fylgt konungshugmyndum lærdómsrita má færa sterk rök fyrir því að ímynd Sverris í sögunni sé í fullu samræmi við hugmyndir samtímalesenda um hinn réttláta, útvalda konung af Guðs náð.

1 Sverris saga. Þorleifur Hauksson gaf út. Íslenzk fornrit XXX. Reykjavík 2007.

2 Þorleifur Hauksson, „Grýla Karls ábóta“. Gripla XVII, 2006, 153–166.

3 Lars Lönnroth, “Sverrir's Dreams“. Scripta Islandica 2006, 103; Sverre Bagge, From Gang Leader to the Lord's Anointed. Odense 1996, 55.

4 Bagge, From Gang Leader, 63–4.

5 Lars Lönnroth, ofangreint rit, 97–110; Fredrik Charpentier Ljungqvist, „Kristen kungaideologi i Sverris saga“. Scripta Islandica 2006, 79–95.

6 Ármann Jakobsson, Í leit að konungi. Reykjavík 1997, 268–71; Alkuin, De virtutibus et vitiis i norsk-islandsk overlevering. Kaupmannahöfn 1960, 131–6; Gudrun Lange, Europäische Bildungsideale in den Fornaldarsögur. Reykjavík 2000.

7 Sjá t.d. Lee M. Hollander, „Notes on the Sverris saga“. The Germanic Review III, 3, 1928, 262—76.

8 Ármann Jakobsson, „Sinn eiginn smiður“. Skírnir vor 2005, 121—5.

Höfundur er íslenskufræðingur og vinnur í ReykjavíkurAkademíunni.