JÓN Þorbjörn Jóhannsson, handknattleiksmaður úr Fram, hefur samið við danska félagið SönderjyskE fyrir næsta keppnistímabil.
JÓN Þorbjörn Jóhannsson, handknattleiksmaður úr Fram, hefur samið við danska félagið SönderjyskE fyrir næsta keppnistímabil. Hann heldur því til Danmerkur á ný eftir aðeins eitt ár hér heima en Jón Þorbjörn lék áður í sjö ár með dönsku liðunum Sönderborg og Skjern.

Jón Þorbjörn er 25 ára línumaður og mjög öflugur varnarmaður en hann lék með Skjern í þrjú ár í dönsku úrvalsdeildinni áður en hann kom til liðs við Fram fyrir þetta tímabil.

SönderjyskE er nýtt lið á hraðri uppleið en það er á góðri leið með að tryggja sér sæti í 1. deildinni, þeirri næstefstu, fyrir næsta tímabil.

„Jón hefur mikla reynslu frá Skjern þar sem hann vann bronsverðlaun og lék í undanúrslitum í Evrópukeppni, og hann verður lykilmaður í okkar liði. Hann mun stjórna varnarleik liðsins og þó hann hafi fyrst og fremst spilað í vörn getur hann lagt mikið af mörkum í sóknarleiknum og ég er viss um að hann verður einn besti línumaður 1. deildarinnar næsta vetur,“ sagði Morten Henriksen aðalþjálfari SönderjyskE á vef félagsins.

Jón hefur leikið 13 af 21 leik Fram í úrvalsdeildinni en verið frá keppni undanfarnar vikur vegna meiðsla.