— 24stundir/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólm Kristjánsson Dýrfjörð fæddist þann 21. febrúar árið 1914 í Nauteyrarhreppi. Hann ólst upp skammt frá Ísafirði en fluttist á unglingsaldri til Siglufjarðar. Hólm hefur ferðast víða, meðal annars til Tíbets og Kína.
Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@24stundir.is

„Ég fór að ferðast af alvöru út fyrir landsteinana í kringum sjötugt en hafði áður ferðast um landið á góðum húsbíl sem ég átti og fór á honum víða um Ísland. Þá hef ég líka farið upp á hálendið og upp að Kárahnjúkum,“ segir Hólm sem nýlega fagnaði 94 ára afmæli sínu.

Efnahagsmálin í hring

Hólm eru efnahagsmálin ofarlega í huga þegar blaðamaður heimsækir hann á Grund, en þar hefur hann búið síðastliðinn áratug og unir hag sínum vel. „Ég hef kynnst efnahagslífinu í gegnum tíðina og það sem er að gerast núna er það sem hefur alltaf gerst. Ég get sagt þér sögu af því að árið 1939 átti ég orðið þrjár stelpur og keypti þá hús á 5.000 kr. rúmar. Húsið var á góðum stað í bænum og eftir um fimm ár voru mér boðnar 40.000 kr. fyrir húsið og lóðina sem ég afþakkaði þar sem mig vantaði ekki smáaura. Svo var það eftir stríðið árið 1947 eða '48 að móðir mín kom aftur til landsins eftir að hafa búið lengi í Danmörku. Ég vildi taka vel á móti henni og í framhaldi af því seldi ég húsið á 30.000 og keypti annað hús við torgið. Þar bjuggum við í þrjú ár en krakkarnir kunnu aldrei við sig í þessu húsi svo að þegar litla húsið mitt var aftur til sölu keypti ég það á 35.000. Mörgum árum síðar í kringum 1970 seldi ég síðan litla húsið aftur og þá fékk ég bara 4500 fyrir það. Þá var síldin að gefa okkur frí og þar með hrundu allar eignirnar líka,“ segir Hólm.

Iðnaðarmenn til Svíþjóðar

Hólm hélt fyrst út fyrir landsteinana árið 1969 þegar honum bauðst vinna í Malmö í Svíþjóð ásamt fleiri mönnum frá Siglufirði. Hafði Hólm verið í stjórn verkalýðsfélagsins í nokkur ár sem valdi iðnaðarmenn til að fara og starfa í verksmiðjum ytra og þetta árið varð Hólm einn þeirra sem valdir voru til fararinnar. Bjó hann þrjú ár með fjölskyldu sinni í Svíþjóð og segist hafa líkað vel við Svíana.

Ólympíuleikar í Moskvu

Þegar börnin voru flogin úr hreiðrinu segist Hólm hafa farið að hreyfa sig miklu meira og lagðist þá í ferðalög til framandi landa. „Árið 1980 fór ég til Búlgaríu og ferðaðist þaðan til Istanbúl þar sem ég dvaldi í nokkra daga svo og til Moskvu þar sem ég náði í halann á Ólympíuleikunum,“ segir Hólm. Árið 1992 fór hann síðan í rúmlega mánaðarlanga hópferð undir leiðsögn Unnar Stefánsdóttur til Kína og Tíbets en að koma þangað segir Hólm hafa verið eins og að fara 1000 ár aftur í tímann. Í Tíbet fór hópurinn í ferð upp í fjöllin þar sem hirðingjar voru heimsóttir og í Kína var Kínamúrinn skoðaður. Hólm er hvergi nærri hættur að ferðast en hann hyggur á ferð til Heidelberg í vor og til Kaupmannahafnar í sumar.
Í hnotskurn
Bjó og starfaði í Svíþjóð um þriggja ára skeið og líkaði vel við Svía. Heimsótti hirðingja í fjallaþorpum Tíbets á ferðum sínum í Tíbet og Kína. Hefur ferðast víða um Ísland á húsbíl og einnig farið upp á hálendið og upp að Kárahnjúkum.