Höll blekkinganna „Andrúmsloftið í sýningarsalnum minnir á goðsögulegan helgisið þar sem hvítklædd vera situr og heklar stöðugt eigin klæði,“
Höll blekkinganna „Andrúmsloftið í sýningarsalnum minnir á goðsögulegan helgisið þar sem hvítklædd vera situr og heklar stöðugt eigin klæði,“ — Ljósmynd/Katrín Elvarsdóttir
Sýningin stendur til 30. mars. Opið laugardaga og sunnudaga frá kl. 12–17.30. Aðgangur ókeypis
EYRÚN Sigurðardóttir á sér sjálfstæðan sýningarferil sem myndlistarmaður um leið og hún er kannski enn þekktari sem einn af þremur meðlimum Gjörningaklúbbsins. Í Suðsuðvestur sýnir hún nú gjörning sem lifandi skúlptúr ásamt bókverki undir titlinum Höll blekkinganna. Andrúmsloftið í sýningarsalnum minnir á goðsögulegan helgisið þar sem hvítklædd vera situr og heklar stöðugt eigin klæði, höfuðfat með ótal öngum, innan um hauga af hvítum lopadokkum. Upphafin þögn og hvítar blæjur fyrir gluggum og anddyri ýta enn undir einhvern forsögulegan hátíðleika sem vísar jafnt til grískra goðsagna sem íslenskra þjóðsagnaminna.

Í tveimur ólíkum textum í bókverkinu eftir Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking og Sigrúnu Davíðsdóttur sálfræðing má finna mismunandi túlkanir á verkinu sem aftur ríma ágætlega við teikningarnar sem þar er að finna. Þar er vísuninni í helli Platóns gerð skil og hvernig skynfærin þótt ótrygg séu spinni fram þann skilning á veruleikanum sem við höfum.

Ekki er laust við að sögurnar um ambáttir Fróða konungs, Menju og Fenju komi upp í hugann að mala malt og salt eða gull úr engu. Allir muna líka eftir Gilitrutt sem var snillingur í að vinna ull, ullina sem er ígildi gulls en gullið er ekki síður tákn fyrir andlega þekkingu en veraldleg verðmæti.

Sýningin er metnaðarfull og gefur færi á sérstakri upplifun þar sem ritúalið sjálft opinberar sig sem bæði fornt og nýtt í eilífum rytma og endurtekningu.

Þóra Þórisdóttir