Sigurjóna Sigurjónsdóttir fæddist á Hóli á Stöðvarfirði 28. ágúst 1930. Hún lést á heimili sínu 15. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurjón Geirsson, f. 26. mars 1904, d. 22. mars 1930 og Ingunn Sigríður Sigfinnsdóttir, f. 23. apríl 1908, d. 13. júní 2007. Fósturforeldrar hennar voru Sighvatur Halldórsson, f. 9. júlí 1901, d. 2.des. 1984 og Stefanía Kristborg Jónsdóttir, f. 24. jan. 1899, d. 4. jan. 1962. Systkini sammæðra eru Nína Jenný, f. 1932, Björn, f. 1937 og Guðný Elísabet, f. 1946, Kristjánsbörn. Bróðir samfeðra, Sigurjón Geirsson Sigurjónsson, f. 1930, d. 2002. Uppeldisbræður, Oddur Guðjónsson, f. 1936 og Steindór Sighvatsson, f. 1939, d. 2000.

Sigurjóna giftist hinn 31. des. 1952, Hafsteini Sigurðssyni frá Miðkoti í Þykkvabæ, f. 6. sept. 1931, d. 27. nóv. 1987. Þau bjuggu allan sinn búskap í Þykkvabæ, fyrst hjá foreldrum Hafsteins í Miðkoti og seinna að Smáratúni. Börn þeirra eru: 1) Heimir, f. 21. júní 1951, kona hans er Særún Sæmundsdóttir. Þeirra börn eru Hafsteinn Már, f. 1. sept. 1987, Hrafndís Brá, f. 19. apríl 1991 og Heimir Smári, f. 16. maí 1995. Fyrri kona Heimis var Hulda Katrín Ólafsdóttir, dætur þeirra eru Hrafnhildur, f. 24. nóv. 1973, maki Jakob Óskar Ólafsson, sonur þeirra er Aron Ísak Jakobsson, og Harpa Rós, f. 31. okt. 1978, maki Þórður Guðmundsson, dóttir þeirra er Kolfinna Björt Þórðardóttir. 2) Friðsemd, f. 4. ágúst 1952, maki Jón Thorarensen. Þeirra börn eru a) Hafsteinn, f. 19. sept. 1972, sambýliskona, Kristín Birna Halldórsdóttir, b) Grímur, f. 20. sept. 1978, og c) Friðsemd, f. 2. júní 1980, sambýlismaður Jón Örlygsson. 3) Sighvatur Borgar, f. 8. júlí 1953, maki Una Aðalbjörg Sölvadóttir. Þeirra börn eru a) Sindri Snær, f. 15. sept. 1974, b) Sölvi Borgar, f. 4. feb. 1981, dóttir hans er Valdís Katla, c) Sigurborg Sif, f. 21. júní 1986, sambýlismaður Jósef Hallur Haraldsson, og d) Sigurjón Fjalar, f. 13. ágúst 1993. 4) Kristborg, f. 13. maí 1955, maki Nói Sigurðsson. Þeirra dætur eru a) Alda Jóna, f. 27. okt. 1976, sonur hennar er Kolbeinn Nói Kolbeinsson og sambýlismaður Ásgeir Svan Herbertsson, b) Rakel Rut, f. 8. okt. 1982, unnusti hennar er Halldór Haukur Andrésson, og c) Marijon Ósk, f. 18. maí 1984. 5) Sigrún Linda, f. 30. mars 1959, sambýlismaður Steinar Sigurgeirsson. Fyrri maður hennar var Eyjólfur Reynisson, þeirra börn eru a) Hafdís, f. 28. sept. 1977, sambýlismaður Ragnar Tryggvason, b) Sandra, f. 30. apríl 1986, c) Svala, f. 19. apríl 1989, og d) Reynir, f. 25. ágúst 1992. 6) Bryndís Ásta, f. 20. mars 1965. Fyrrverandi sambýlismaður hennar er Sigmundur Rúnar Karlsson. Þeirra börn eru Sara Hrönn, f. 15. apríl 1990, Andrea Björk, f. 11. mars, 1992, og Brynjar, f. 27. apríl 1999. Samfylgdarmaður og kær vinur Sigurjónu síðustu árin var Pálmi Viðar Samúelsson, f. 20. maí 1934. Útför Sigurjónu verður gerð frá Þykkvabæjarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Guð þig leiði sérhvert sinn,

sólarvegi alla.

Verndar-engill varstu minn,

vissir mína galla.

Hvar sem ég um foldu fer,

finn ég návist þína.

Aldrei skal úr minni mér,

mamma, ég þér týna.

Þetta fallega ljóð eftir frænda okkar, Jón Sigfinnsson, lýsir vel tilfinningum okkar, þegar við systkinin kveðjum hinstu kveðju móður okkar. Það er eiginleiki mannsins að taka alla hluti sem sjálfgefna og eins er um návist nákominna ættingja, einhvern veginn reiknar maður með því að þeir verði alltaf til staðar. Því er ekki svo farið og auðvitað er það gangur lífsins að kynslóðir hverfi og aðrar vaxi úr grasi. Þó kom það okkur öllum jafn mikið á óvart að þú skyldir fara svona skyndilega, þú af öllum sem alltaf skipulagðir hlutina út í æsar og vildir hafa alla hluti á hreinu, stóra og smáa. Auðvitað vissum við af því að hjartað væri veilt og heilsan ekki alveg eins og best varð á kosið en okkur óraði ekki fyrir því að heilsa þín væri svona slæm. En þetta var þinn háttur, þú vildir ekki að aðrir hefðu áhyggjur af þér. Ungri var þér komið í fóstur hjá óskyldum sæmdarhjónum sem hugsuðu um þig sem værir þú þeirra eigið barn. Á sama tíma varst þú í góðu sambandi við lífmóður þína og hálfsystkini. Á sextánda ári varstu send í vist suður á land og komst ekki nema sem gestur á heimaslóðir eftir það. Þú varst innan við tvítugt þegar þú kynntist pabba og áttir orðið 5 okkar áður en þú varðst 29 ára. Seinna bættist svo sjötta og síðasta afkvæmið í hópinn. Það er auðvelt að ímynda sér að þetta hlýtur að hafa tekið á, sérstaklega á veturna þegar pabbi var á vertíðum í Vestmannaeyjum, enda hópurinn fjörugur í meira lagi og oft þurfti að stoppa í göt og gera við. Þegar mikið lá við, eins og fyrir jólahátíðir, var oft lítið um svefn og oft dottaðir þú við jólaborðið, þá búin að vaka daga og nætur við undirbúning svo að hópurinn þinn liti vel út og skorti ekki neitt. Þú varst meistarakokkur og naust þess að búa til góðan mat og gefa öðrum, skyldum sem óskyldum. Það var reyndar þín aðalatvinna um langa hríð, þegar þú varst matráðskona m.a. í Sigölduvirkjun, Gunnarsholti og víðar. Þú varst listræn með afbrigðum og eigum við, afkomendur þínir, safn fallegra vatnslitamynda og afmæliskorta sem þú málaðir, ásamt ljóðum sem þú ortir og gafst okkur við hin ýmsu tækifæri. Það var þér þung raun þegar pabbi dó úr krabbameini 1987 en við reyndum að gera þér lífið bærilegra og vonum að það hafi tekist. Þér varð að ósk þinni, þú vildir ekki frekar en aðrir lifa börnin þín og þú ætlaðir þér ekki á elliheimili. Núna síðustu árin hafðir þú eignast góðan vin, Pálma Viðar Samúelsson, og voruð þið góðir félagar og veittuð hvort öðru félagsskap og öryggi. Við þökkum Viðari fyrir hans þátt í lífi þínu síðustu árin. Við þökkum þér mamma fyrir samfylgdina og allt það sem þú gerðir fyrir okkur og aðra afkomendur þína og vonum að þín bíði með útbreiddan faðminn allir okkar kæru og góðu ástvinir sem farnir eru á undan okkur.

Heimir, Friðsemd, Sighvatur, Kristborg, Linda og Bryndís.

mbl.is/minningar

Þegar ástvinur kveður flettir maður í myndaalbúmi minninganna og fangar liðna atburði sem ýmist snerust um gleði eða sorgir. Það er sárt að horfa á eftir þér, Didda mín, og seint verður fyllt í þitt skarð í „Smáratúnsfjölskyldunni“ í mínu hjarta.

Mér fannst þú alltaf svo sterk persóna, lást ekki á skoðunum þínum varðandi lífið og tilveruna og gast verið svolítið stóryrt en alltaf var stutt í hláturinn og gleðina sama hvað bjátaði á.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.)

Það átti fyrir okkur að liggja að búa saman í 13 ár, ég krakkagemlingurinn var allt í einu orðin húsmóðirin á heimili þínu til margra ára, hvorki óskastaða þín né mín.

Það væri ekki rétt gagnvart minningu þinni að láta sem þau ár hafi alltaf verið auðveld, en þau voru lærdómsrík og gengu nokkuð slysalaust, væntanlega vegna þess að við vorum báðar okkur meðvitandi um að það var ekkert annað í boði í bili og því á okkar valdi að láta þessa sambúð okkar blessast.

Það fjölgaði jafnt og þétt á Smáratúnsheimilinu, þú sem búin varst að koma til manns 6 börnum þurftir aftur að fara að taka þátt í barnastússi. Sast á endanum uppi með þrjú til viðbótar sem gátu sótt til þín jafn mikið og til foreldranna og þau nutu svo sannarlega góðs af ömmu Diddu. Það var alltaf hægt að stóla á að fá gott í gogginn og matarsmekkur þeirra, sérstaklega Hafsteins Más, smitaðist á skemmtilegan hátt af matarsmekk ömmu Diddu sem kenndi honum að meta hrossaskræður, krassandi hvítlauksbrauð og framandi kjötkássur frá Júgóslavíu.

Þegar ég fluttist í Smáratún hafðir þú hafið það skipulag og vinnu sem síðar varð að ævintýralegum skrúðgarði sem öll stórfjölskyldan átti þátt í að skapa, ýmist með afleggjurum eða vinnu við að snyrta, gróðursetja og færa til plöntur, svo miklar og stórar stundum að fullvaxta karlmönnum þótti nóg um þær framkvæmdir. Ég veit að þú sást eftir garðinum þegar við ákváðum að flytja frá Smáratúni en þú talaðir ekkert mikið um það, þú áttir sögu hans á ljósmyndum sem þú hafðir verið svo dugleg við að taka vetur, sumar, vor og haust.

Við erum líka svo lánsöm að eiga vatnslitamynd sem þú málaðir af garðinum þar sem hann er í haustlitunum, litir himins og jarðar svo fallegir eins og svo oft á haustin í Þykkvabænum.

Árið 2001 fluttist þú í Kópavoginn, fékkst þá tækifæri til að blómstra, fórst á námskeið og ræktaðir listræna hæfileika þína, alltaf máttir þú samt vera að því að sinna barnahópnum þínum. Þú kynntist Viðari og þótt þú nytir frelsisins að búa ein þótti þér það ómetanlegt að eiga hann að.

Eftir að þú og ég vorum báðar fluttar að Hellu gerðum við það að reglu að hittast hvert þriðjudagskvöld ýmist heima hjá þér, mér eða mömmu minni. Þetta voru notalegar stundir sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að njóta með þér.

Þín verður sárt saknað, elsku Didda mín.

Særún Sæmundsdóttir.

Elsku Didda.

Með þessum fátæklegu orðum langar mig að þakka þér samfylgdina síðastliðin 35 ár. Sérstaklega ber að þakka hjálpina sem þú veittir okkur Sighvati undanfarnar vikur. Ég veit að þið Sighvatur áttuð góðar stundir saman sem honum voru kærar.

Þér féllu sjaldan verk úr hendi og situr eflaust núna og hannar eitthvað huggulegt handa litlu englunum þarna uppi eða málar fallegar vatnslitamyndir af fjallahringnum sem ef til vill er enn fegurri séður frá þínum nýju heimkynnum en héðan frá okkur.

Eitt er víst, að þín verður sárt saknað á samverustundum stórfjölskyldunnar þar sem þú varst hrókur alls fagnaðar. Okkur til huggunar vitum við að þú hittir nú fyrir hann Hadda þinn, móður þína, aðra ættingja og vini og heldur þeim áreiðanlega veglegar veislur.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Höf: Þórunn Sigurðardóttir.)

Nú kveð ég þig, kæra Didda, í hinsta sinn með virðingu og þökk.

Þín tengdadóttir,

Una.

Hún amma Didda var ekkert á leiðinni að deyja. Það var svo margt sem hún átti eftir að gera. Hún var með ókláraðar húfur á prjónunum, skipulagða dagbók langt fram í tímann og fullan ísskáp af mat. Það var svo ótrúlegt að hún amma okkar, sem var svo hress og í okkar augum eilíf, skyldi kveðja svona skyndilega.

Hún amma var mikill skörungur og kletturinn okkar og var alltaf til í að hjálpa þeim sem þurftu á hjálp að halda. Hún hafði mörg áhugamál sem hún stundaði eftir bestu getu. Hún ýmist prjónaði, málaði eða samdi ljóð og var dugleg að gefa gjafir sem hún hafði sjálf búið til.

Amma bjó lengi hjá okkur í Smáratúni og átti mikinn þátt í okkar uppeldi. Það var alltaf svo gott að laumast inn til ömmu á morgnana, þegar komið var að því að fara á fætur, og skríða upp í rúm til hennar. Auk þess var iðulega stunduð morgunleikfimi í herberginu hennar. Amma var sú eina í Smáratúni sem bjó við þann munað að hafa sjónvarp í svefnherberginu og það kom ósjaldan fyrir að við systkinin sofnuðum öll saman með ömmu fyrir framan sjónvarpið. Amma og herbergið hennar var eins konar griðastaður bæði fyrir okkur krakkana og mömmu og pabba.

Amma var dugleg að gera hina ýmsu hluti með okkur og það leið ekki sá dagur að hún fyndi ekki upp á einhverju sniðugu fyrir okkur að bardúsa við saman. Eitt af því vinsælasta sem amma gerði með okkur var að fara með okkur að veiða í Dammskurði, þar sem við veiddum ýmist ekki neitt eða eitthvað góðgæti fyrir kettina. Amma hafði auk þess mjög gaman af því að tína ber og það var nánast ógerlegt að stoppa hana þegar hún hafði hafist handa við að tína, hvort sem það var í garðinum heima eða í berjamó.

Elsku amma Didda okkar, það er erfitt að þurfa að horfast í augu við það að við fáum ekki að njóta fleiri yndislegra stunda með þér. En við erum þakklát fyrir þig og allar þær stundir sem við höfum átt með þér og minning þín mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Þín ömmubörn,

Hafsteinn Már, Hrafndís Brá og Heimir Smári.

Elsku amma mín.

Ég get ekki með nokkru móti lýst með orðum hvað ég sakna þín.

Ég veit þú ert komin til afa Hadda og hann mun passa upp á þig fyrir okkur öll.

Ég hef aldrei verið sú besta í að tjá tilfinningar mínar og þetta skipti er engin undantekning. Tárin renna bara niður við minnsta tilefni og ég ræð ekkert við þau. Get ekki og vil helst ekki deila sársaukanum með neinum, en ég reyni að muna allar skemmtilegu minningarnar sem ég á um þig.

Þú og afi eignuðust 6 yndisleg börn og ég get ekki þakkað ykkur nógsamlega fyrir þau öll. Á svona stundum finnur maður best hvað maður er lánsamur með fólkið í kringum sig.

Þú skildir eftir þig svo mikið af fallegum ljóðum, myndum, smásögum og fleira sem við erum mjög þakklát fyrir að geta skoðað og huggað okkur við. Þú varst svo listræn og klár þrátt fyrir að þú hafir nú aldrei verið nógu ánægð með þig sjálf að mínu mati.

Ég heyri ennþá röddina hennar mömmu óma þar sem hún segir mér fréttirnar og ég vona ennþá að ég vakni upp og þetta hafi verið draumur.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar,

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér vinur.

Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja í friðar skaut.

Þín,

Maríjon.

Elsku hjartans amma Didda.

Það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur, minningarnar koma upp í hugann ein af annarri; Nestið sem þú bjóst til fyrir kartöflugarðana, allar krukkurnar og plastpokarnir sem þú safnaðir, snyrtipinninn í þér, glettnin og síðast en ekki síst listrænir hæfileikar þínir. Þú gast málað svo fallega, prjónað, heklað og samið sögur og ljóð. Það sem við minnumst þó ofar öllu var hversu hjartahlý þú varst og góð amma, gleymdir aldrei afmælum þó þú ættir 22 barnabörn og langömmubörnunum sýndir þú sömu ást og alúð. Litlu ljóðin og fallegu orðin í kortunum frá þér er eitthvað sem við geymum til minningar um þig.

Við vildum að við hefðum fengið meiri tíma með þér, að þú hefðir til dæmis fengið að sjá öll langömmubörnin fæðast og vaxa úr grasi. „Smáratúnshittingarnir“ verða ekki samir án þín en við vitum að þú og afi Haddi verðið með okkur í anda.

Takk fyrir allt, elsku amma mín, við sjáumst síðar.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Alda Jóna og Rakel Rut

Nóadætur.

Það er með miklum söknuði sem við kveðjum hana ömmu okkar Diddu. Hún hugsaði svo ósköp vel um stóra hópinn sinn af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Það var alltaf jafn notalegt að koma í ömmukot og fá kex og heimabakaðar kökur, fá að velja sér trefil eða húfu sem hún hafði prjónað, skoða fallegu myndirnar sem hún málaði og hlusta á það sem hún hafði að segja. Hún amma vissi svo mikið og kunni svo margar skemmtilegar sögur. Henni ömmu var reyndar svo margt til lista lagt; hún prjónaði, saumaði, málaði og orti, og var að auki listakokkur.

Það var líka hægt að segja henni allt, þó að margir áratugir skildu okkur að í aldri. Hún hneykslaðist aldrei á bjánaskapnum í okkur barnabörnunum; brosti kannski út í annað, en skildi mann samt betur en flestir hefðu gert.

Elsku amma, þín er sárt saknað.

Yfir liðna lífsins daga

lítum við á kveðjustund.

Minningarnar mörgu streyma

mildar fram í hljóðri lund:

Þú hið besta vildir veita,

vaxta allt, er fagurt var,

vinna, fórna, vaka og biðja

vinunum til blessunar.

Börnin þín og barnabörnin

blessa og þakka liðinn dag,

þakka alla ástúð þína,

allar fórnir þeim í hag.

Liðnar stundir ljúft við geymum,

leiðir hér þá skilja nú.

Frelsarans í faðminn blíða

felum þig í bjartri trú.

(Ingibjörg Sigurðard.)

Hafdís, Sandra, Svala og Reynir.

Lítill drengur lófa strýkur

létt um vota móðurkinn,

– augun spyrja eins og myrkvuð

ótta og grun í fyrsta sinn:

Hvar er amma, hvar er amma,

hún sem gaf mér brosið sitt

yndislega og alltaf skildi

ófullkomna hjalið mitt?

Lítill sveinn á leyndardómum

lífs og dauða kann ei skil:

hann vill bara eins og áður

ömmu sinnar komast til,

hann vill fá að hjúfra sig að

hennar brjósti sætt og rótt.

Amma er dáin – amma finnur

augasteininn sinn í nótt.

Lítill drengur leggst á koddann

– lokar sinni þreyttu brá

uns í draumi er hann staddur

ömmu sinni góðu hjá.

Amma brosir – amma kyssir

undurblítt á kollinn hans.

breiðist ást af öðrum heimi

yfir beð hins litla manns.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Með þessum orðum viljum við votta öllum ástvinum ömmu Diddu okkar innilegustu samúð.

Við kveðjum hana með söknuði og þökkum fyrir allt og allt.

Anna Lilja og Torfi Geir.