STJÓRN Skautafélags Akureyrar hefur ákveðið að kæra Skautafélag Reykjavíkur fyrir að nota ólöglegan leikmann í fyrsta leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitlinn í íshokkí karla. SR hafði þar betur, 9:6.
STJÓRN Skautafélags Akureyrar hefur ákveðið að kæra Skautafélag Reykjavíkur fyrir að nota ólöglegan leikmann í fyrsta leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitlinn í íshokkí karla. SR hafði þar betur, 9:6.

Landsliðsmaðurinn Emil Alengard lék þá með SR en Akureyringar telja hann ólöglegan þar sem hann sé samningsbundinn liði í Svíþjóð. Forsvarsmenn SR telja hann hins vegar ekki félagsbundinn í Svíþjóð og því sé hann löglegur með félaginu.

Dómstóll ÍSÍ er það dómstig sem íshokkímenn leita til og má vænta þess að það taki viku til hálfan mánuð að fá niðurstöðu í málið þar. SR-menn ætla að láta Emil halda áfram að leika og SA mun því væntanlega kæra það einnig. Reynist Emil ólöglegur dæmast sigurleikir SR félaginu tapaðir.