— 24stundir /RAX
„Þarna tók ég 185 myndir af sama réttinum og hann er aldrei eins þegar búið er að borða af honum,“ segir ljósmyndarinn Spessi sem heldur óvenjulega sýningu í Orkuveitunni.
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@24stundir.is

„Kjúklingalund fajitas að hætti Google-manna, mexíkósk maíssúpa og súkkulaðiís“ er óvenjulegt heiti á listsýningu, en er einmitt heitið sem ljósmyndarinn Spessi valdi fyrir nýjustu ljósmyndasýningu sína þar sem hann rýnir í matarleifar. Sýningin verður opnuð á morgun, laugardag, í Orkuveituhúsinu.

Í tengslum við sýninguna kemur út bók sem geymir myndir af verkunum á sýningunni. Þar skrifa Sjón og Jón Proppé hugleiðingar um myndirnar.

Á ljósmyndasýningunni eru 185 myndir sem tengjast matseðli Orkuveitunnar þann dag sem kjúklingalundir fajitas, maíssúpan og súkkulaðiísinn voru á boðstólum. Uppskrift að kjúklingalundunum er svo að finna í bókinni.

Portrett af starfsfólki

„Ég borðaði hádegismat í Orkuveitunni fyrir hálfu ári. Þarna er fimm stjörnu matstofa, maturinn hreint afbragð og þegar maður er búinn að borða setur maður bakkann á færiband og hann fer fram í eldhús. Þegar ég hafði borðað þarna ljúffenga máltíð fékk ég hugmyndina að sýningunni,“ segir Spessi. „Ég fékk mánaðarmatseðil hjá kokkinum og valdi þennan fajitas-rétt þar sem mér fannst titillinn svo flottur. Þann dag sem þessi réttur var á matseðli mætti ég með græjurnar mínar og aðstoðarmenn. Þegar bakkarnir komu inn í eldhús myndaði ég þá, alls 185 bakka.“

Mikil saga

„Í dæmigerðum matreiðslubókum er réttinum raðað á disk og hann myndaður og þá nægir ein mynd. Þarna tók ég 185 myndir af sama réttinum og hann er aldrei eins þegar búið er að borða af honum,“ segir Spessi. „Með því að skoða þessar myndir getur áhorfandinn gert sér í hugarlund hvernig rétturinn leit upphaflega út. Svo má líka segja að þessi myndaröð sé portrett af starfsfólki Orkuveitunnar því að það er einstaklingsbundið hvað fólk fær sér á diskinn og hvernig það skilur við hann.“

Spessi, sem er með þekktari ljósmyndurum landsins, segist aldrei komast í hugmyndaþrot. „Þegar ég fæ hugmynd treysti ég því að hún sé rétt. Hvað þessar myndir varðar þá er mikil saga í þeim og ég vil segja sögu.“

Í hnotskurn
Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson) er fæddur árið 1956 á Ísafirði og lærði ljósmyndun í Hollandi. Hann hefur sýnt verk sín víða erlendis, í Finnlandi, Svíþjóð, Englandi, Hollandi og Bandaríkjunum.