Umhverfisvitund Th!nk virðist vera í mikilli sókn en nýr hugmyndabíll af þessari tegund var á bílasýningunni í Genf á dögunum.
Umhverfisvitund Th!nk virðist vera í mikilli sókn en nýr hugmyndabíll af þessari tegund var á bílasýningunni í Genf á dögunum.
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson ingvarorn@mbl.is Í bílablaði Morgunblaðsins hefur verið fjallað um Th!nk City, rafmagnsbílinn norska sem frumsýndur var sem hugmyndabíll á Vetrarólympíuleikunum í Lillehammer árið 1994.
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson

ingvarorn@mbl.is

Í bílablaði Morgunblaðsins hefur verið fjallað um Th!nk City, rafmagnsbílinn norska sem frumsýndur var sem hugmyndabíll á Vetrarólympíuleikunum í Lillehammer árið 1994. Nú stendur til að setja þenna umhverfishæfa smábíl á breskan markað í haust.

Hugmyndina að bílnum á Norðmaðurinn Jan Otto Ringdal en það er óhætt að segja að saga bílsins sé þyrnum stráð þar sem verkefnið hefur tvisvar sinnum farið á hausinn, fyrst 1999 og svo aftur árið 2006 en í millitíðinni urðu eigendaskipti hjá fyrirtækinu.

Hringurinn lokast

Otto Ringdal keypti að lokum fyrirtækið á ný ásamt fleiri fjárfestum árið 2006 eftir síðasta gjaldþrotið og þá komst góður gangur í þróun bílsins á ný en líklega hafa fæstir búist við því að bíllinn kæmist á markað á réttum tíma. Það virðist hafa haft góð áhrif fyrir fyrirtækið að komast aftur undir stjórn Ringdal því nú er loksins útlit fyrir að bíllinn sé á leið á markað.

Í mars hlaut síðan Th!nk verkefnið aukið fjármagn, eða um fjórar milljónir dollara, og í ofanálag var ný gerð Th!nk Ox kynnt á dögunum í Genf. Því hefur Th!nk náð mikilli siglingu upp á síðkastið.

Bretar taka bílum af þessu tagi opnum örmum þar sem þeir sleppa í gegnum allar reglugerðir sem hvíla á bílaumferð í London. Í ofanálag er Th!nk City talinn mjög ódýr í rekstri en það tekur um tíu tíma að hlaða rafhlöðu bílsins en rekstrarkostnaðurinn veltur svo vitanlega að miklu leyti á því á hvaða verði raforkan fæst. Þó svo að hleðslan taki sinn tíma þá kemst bíllinn lengra á hleðslunni en aðrir rafmagnsbílar eða um 200 kílómetra.

Rafhlaða bílsins á að duga í 5–7 ár en eitthvað virðist vera á huldu hvort hún fylgi bílnum því allt bendir til þess að eigendur þurfi að leigja rafhlöðuna fyrir 100 pund á mánuði. Þeir eru þá reyndar tryggðir fyrir því að þurfa ekki að bera kostnað af gölluðum rafhlöðum eftir að bíllinn fer úr ábyrgð.

Sem bæjarsnattari ætti Th!ink City að vera nálægt því að vera fullkominn. Kaupverðið er aftur á móti í hærra lagi en hann mun kosta um 14 þúsund pund (um 2,1 milljón króna) þegar hann kemur á markað í Bretlandi í haust.

http://en.think.no/