Á eftir bolta Ólafur Ingi Skúlason, leikmaður með Helsingborg, er hér til hægri í baráttu við Slóvakann Marek Hamsik í landsleiknum í fyrrakvöld.
Á eftir bolta Ólafur Ingi Skúlason, leikmaður með Helsingborg, er hér til hægri í baráttu við Slóvakann Marek Hamsik í landsleiknum í fyrrakvöld. — Ljósmynd/Milan Illik
ÞRETTÁN Íslendingar leika í stærstu úrvalsdeild í sögu sænsku knattspyrnunnar sem byrjar af fullum krafti á sunnudaginn. Liðunum var fjölgað úr fjórtán í sextán fyrir þetta tímabil og sjö þeirra eru með íslenska leikmenn innanborðs, auk þess sem Sigurður Jónsson þjálfar áfram lið Djurgården.
Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

Hjálmar Jónsson er sá Íslendingur sem lengst hefur leikið í sænsku úrvalsdeildinni af þessum þrettán en hann er að hefja sitt sjöunda tímabil með IFK Gautaborg. Lið hans og Ragnars Sigurðssonar á nú meistaratitil að verja en það stóð uppi sem sigurvegari í haust eftir einhverja jöfnustu meistarabaráttu sem um getur í Svíþjóð.

Sérfræðingar telja Gautaborgarliðið ásamt Kalmar líklegast til afreka í deildinni í ár og búist er við að þrjú önnur Íslendingalið, Djurgården, Elfsborg og Helsingborg, geti blandað sér í baráttuna í efri hlutanum. Nýliðum Norrköping og Sundsvall er hins vegar yfirleitt spáð fallbaráttu, ásamt GAIS, en í þessum þremur liðum eru samtals átta Íslendingar. „Við förum fullir sjálfstrausts inn í tímabilið. Við eigum titil að verja, sem er krefjandi verkefni, en við hlökkum til. Þetta byrjaði ágætlega hjá okkur með því að vinna Kalmar í leiknum um meistarabikarinn,“ sagði Hjálmar við Morgunblaðið en hann skoraði einmitt eitt mark og lagði annað upp í 3:1–sigri IFK Gautaborgar í opnunarleik tímabilsins um síðustu helgi.

Býst við jafnri og spennandi keppni eins og í fyrra

Hjálmar sagði að það kæmi ekki á óvart að IFK Gautaborg og Kalmar væri spáð toppsætunum. „Flestir eru á því að þessi lið verði aftur í tveimur efstu sætunum en mín tilfinning er þó sú að þetta verði mjög jafnt og spennandi eins og í fyrra þegar sex lið áttu möguleika á meistaratitlinum langt fram á haust. Nú eru líka fleiri lið í deildinni en áður og svo verður spilað mjög þétt í byrjun tímabils þar sem frí er í deildinni á meðan úrslitakeppni EM stendur yfir. Það verður því mikilvægt að byrja vel og vera við toppinn frá byrjun,“ sagði Hjálmar.

Hann telur að Stokkhólmsliðin þrjú geti öll blandað sér í baráttuna um titilinn. „Helst á ég von á AIK öflugu, líka Djurgården, og Hammarby er einnig með sterkt lið. Ég held að Elfsborg verði í toppbaráttunni og Helsingborg er með fínt lið sem olli vonbrigðum í fyrra en náði langt í UEFA-bikarnum og gæti tekið þátt í slagnum við toppinn.“

GAIS gæti hæglega komið á óvart

Flestir eiga von á því að hin þrjú Íslendingaliðin, GAIS og nýliðar Norrköping og Sundsvall, muni eiga erfitt uppdráttar og Hjálmar samsinnti því.

„GAIS gæti reyndar hæglega komið á óvart. Liðið hefur haldið sér í deildinni undanfarin tvö ár og leikmenn þess vita nú um hvað það snýst. Ég býst ekki við því að þeir lendi í vandræðum, þeir gætu jafnvel farið upp í miðja deild.

Sundsvall er með erfiðan heimavöll þar sem liðið tekur alltaf mikið af stigum. Ferðalagið þangað er langt og liðið leikur á gervigrasi.

Norrköping er með mikla hefð á bak við sig, þó liðið sé nýtt í deildinni í ár, og erfitt heim að sækja. Við förum ekki þangað eða annað til að sækja einföld stig, það er hörkubarátta í hverjum einasta leik í þessari deild,“ sagði Hjálmar.

Fótboltinn er mikið í sviðsljósinu í Svíþjóð

Frá því hann kom til liðs við IFK Gautaborg fyrir tímabilið 2002 hefur margt breyst í sænsku knattspyrnunni.

„Já, umgjörðin hefur sífellt orðið viðameiri, áhorfendum fjölgað og áhugi fjölmiða eykst ár frá ári. Flest liðin eru komin með nýja velli, landsliðið er sigursælt og er með á öllum stórmótum á seinni árum og fótboltinn er mikið í sviðsljósinu. Héðan fara leikmenn í góð lið annars staðar í Evrópu og standa sig vel. Ég get ekki borið deildina saman við aðrar, þar sem ég hef ekki reynslu af þeim sjálfur, en hér er gott að vera,“ sagði Hjálmar og kveðst ekki vera á förum frá Gautaborg á næstunni. „Ég velti því fyrir mér síðasta haust en svo urðum við meistarar og það fara spennandi tímar í hönd. Mér líður mjög vel hjá félaginu og hef ekki fundið fyrir löngun til að breyta til, enda er ég samningsbundinn í tvö ár til viðbótar,“ sagði Hjálmar Jónsson.

*Af Íslendingaliðunum sjö í sænsku úrvalsdeildinni mætast sex í innbyrðis leikjum í fyrstu umferðinni. Norrköping tekur á móti Djurgården, GAIS fær Elfsborg í heimsókn og Sundsvall mætir Helsingborg. Sjöunda Íslendingaliðið er meistaralið IFK Gautaborg sem leikur við Malmö FF á útivelli.

*IFK Gautaborg er sigursælasta liðið í deildinni og hefur unnið meistaratitilinn 18 sinnum. Malmö FF hefur 15 sinnum orðið meistari, Örgryte 14 sinnum, Norrköping 12 sinnum, Djurgården 11 sinnum og AIK 10 sinnum.

*Teitur Þórðarson varð sænskur meistari með Öster 1978 og 1980. Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen urðu meistarar með Djurgården 2005 og þeir Hjálmar Jónsson og Ragnar Sigurðsson með IFK Gautaborg 2007.

Margir íslenskir hafa leikið í Svíþjóð

FJÖLMARGIR íslenskir knattspyrnumenn hafa leikið með sænskum liðum síðustu áratugina. Öll þau lið sem nú leika í úrvalsdeildinni nema tvö hafa haft íslenska leikmenn í sínum röðum. Ljungskile og Gefle eru þau einu sem aldrei hafa verið með íslenskan leikmann.

* AIK: Hörður Hilmarsson 1980-81.

* Djurgården: Kári Árnason 2005-2006.

* Elfsborg: Kristján Jónsson 1996-97, Haraldur Ingólfsson 1998-00.

* IFK Gautaborg: Þorsteinn Ólafsson 1980-81.

* Halmstad: Eggert Guðmundsson 1982-1986, Gunnar Heiðar Þorvaldsson 2004-2006.

*Hammarby: Pétur H. Marteinsson 1996-1998 og 2003-2006, Pétur Björn Jónsson 1998, Gunnar Þór Gunnarsson 2006-2007, Heiðar Geir Júlíusson 2007.

* Helsingborg: Albert Guðmundsson 1983, Jakob Már Jónharðsson 1998, Hilmar Björnsson 1998.

* Kalmar: Hafþór Sveinjónsson 1989.

* Malmö: Ólafur Örn Bjarnason 1998-99, Sverrir Sverrisson 1998-99, Guðmundur Viðar Mete 2000-2002.

* Norrköping: Birkir Kristinsson 1998, Þórður Þórðarson 1999-2000, Guðmundur Viðar Mete 2003-2005.

* Trelleborg: Eggert Guðmundsson 1987-88, Sigurbjörn Hreiðarsson 2000.

*Örebro: Hlynur Stefánsson 1992-95, Arnór Guðjohnsen 1994-98, Hlynur Birgisson 1995-98, Sigurður Jónsson 1996-97, Gunnlaugur Jónsson 1998, Einar Brekkan 1999-2002.

*Síðan eru GAIS og Sundsvall með íslenska leikmenn í liðum sínum í dag.

Til viðbótar hafa margir Íslendingar leikið með sænskum liðum sem eru nú utan úrvalsdeildarinnar, m.a. hafa sjö Íslendingar leikið með Örgryte, fimm með Öster, fjórir með Häcken og Jönköping.

Fjögur lið á gervigrasi

FJÖGUR af liðunum sextán í sænsku úrvalsdeildinni leika á gervigrasi. Það hefur færst í vöxt undanfarin ár að sænsk félög leggi gervigras á leikvanga sína. Íslendingaliðin Sundsvall og Elfsborg eru með slíkt undirlag, sem og Örebro og Gefle.

„Þetta eru mismunandi vellir en það er ekki mikið mál að spila á gervigrasinu því við æfum og leikum mikið á slíkum völlum á undirbúningstímabilinu. Við búum okkur undir þessa leiki með því að æfa í 1-2 daga á gervigrasi fyrir þá. Auðvitað væri skemmtilegra ef allt væri leikið á grasi en það er skiljanlegt að lið sem eru norðarlega eins og Sundsvall og Gefle hafi farið þessa leið,“ sagði Hjálmar Jónsson.

„Það er umdeildara með Elfsborg og Örebro en hitt kemur svo á móti að félög sem gera þetta eru með frábæra aðstöðu á sínum leikvöngum. Þetta þýðir að þau geta verið þar með allar sínar æfingar og starfsemi. Ég veit ekki hvort þetta er betra eða verra fyrir fótboltann í heild, íþróttin verður alltaf öðruvísi á gervigrasi en á venjulegu grasi, en það er ekkert að því að spila á flestum þessara valla,“ sagði Hjálmar.

Þessir spila í Svíþjóð

* Ari Freyr Skúlason, Sundsvall, 20 ára, vinstri kantmaður eða bakvörður. Keyptur í vetur frá Häcken þar sem hann lék í 1. deild 2007 og úrvalsdeild haustið 2006.

* Eyjólfur Héðinsson, GAIS, 23 ára miðjumaður. Lék sitt fyrsta ár með liðinu í fyrra í úrvalsdeildinni.

* Garðar B. Gunnlaugsson, Norrköping, 24 ára framherji. Kom til liðsins frá Val sumarið 2006 og varð markakóngur sænsku 1. deildarinnar 2007.

* Gunnar Þór Gunnarsson, Norrköping, 22 ára vinstri bakvörður. Keyptur í vetur frá Hammarby þar sem hann lék í úrvalsdeildinni tvö undanfarin ár.

* Hannes Þ. Sigurðsson, Sundsvall, 24 ára framherji. Keyptur á dögunum frá Viking í Noregi þar sem hann lék í úrvalsdeildinni 2007.

*Helgi Valur Daníelsson, Elfsborg, 26 ára miðjumaður. Keyptur í vetur frá Öster þar sem hann lék í 1. deild í fyrra og úrvalsdeild 2006.

* Hjálmar Jónsson, IFK Gautaborg, 27 ára vinstri bakvörður. Hefur leikið með liðinu í sex ár, ávallt sem fastamaður.

* Jóhann B. Guðmundsson, GAIS, 30 ára miðjumaður. Leikur sitt þriðja ár með liðinu og fimmta ár í sænsku úrvalsdeildinni.

* Ólafur Ingi Skúlason, Helsingborg, 24 ára miðjumaður. Lék sitt fyrsta tímabil með liðinu í úrvalsdeildinni 2007.

* Ragnar Sigurðsson, IFK Gautaborg, 21 árs miðvörður. Lék sitt fyrsta tímabil með liðinu í fyrra og þótti einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar.

* Stefán Þ. Þórðarson, Norrköping, 33 ára framherji. Lék með liðinu í 1. deild undanfarin þrjú ár, samdi við ÍA í vetur en er í láni hjá Norrköping fram í maí.

* Sverrir Garðarsson, Sundsvall, 23 ára miðvörður. Keyptur í vetur frá FH.

* Sölvi Geir Ottesen, Djurgården, 24 ára miðvörður. Hefur leikið með liðinu frá haustinu 2004.