MIKLAR sveiflur einkenndu íslenska hlutabréfamarkaðinn í gær, en fyrri helming dagsins stefndi í ríflega þriggja prósenta hækkun Úrvalsvísitölunnar.
MIKLAR sveiflur einkenndu íslenska hlutabréfamarkaðinn í gær, en fyrri helming dagsins stefndi í ríflega þriggja prósenta hækkun Úrvalsvísitölunnar. Um miðjan dag tók markaðurinn hins vegar að lækka skarpt og segir í Hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings að skýringarinnar sé líklega að leita í hagnaðartöku fjárfesta. Þeir hafi séð sér leik á borði eftir um 13% hækkun í vikunni og selt hlutabréf af miklum móð. Hækkun dagsins gekk því að stórum hluta til baka og svo fór að hækkun vísitölunnar nam ekki nema 0,07% og stóð vísitalan við lok viðskipta í 5.025,85 stigum.

Sömu sveiflusögu var að segja af krónunni en hún veiktist hins vegar um 1,8% í gær og stóð gengisvísitalan í 153, 3 stigum við lokun markaða í gær. Velta á millibankamarkaði var með mesta móti og nam hún rúmum 90 milljörðum króna.

Hlutabréfavísitölur í Evrópu hækkuðu almennt í gær, en vísitölur í Bandaríkjunum og Japan lækkuðu hins vegar. Dow Jones lækkaði um 0,97%, Nikkei um 0,80% en breska FTSE hækkaði um 1,01%. | 15