Skáldið Elías Mar.
Skáldið Elías Mar. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
ÚTGÁFUFÉLAGIÐ Omdúrman stendur fyrir málþingi um Elías Mar á morgun.

ÚTGÁFUFÉLAGIÐ Omdúrman stendur fyrir málþingi um Elías Mar á morgun. Í frétt frá Omdúrman segir að á þinginu verði rætt um rithöfundinn Elías Mar, skáldsögur hans og útgefanda; um æskulýðsmenningu í Reykjavík og íslenskt samfélag eins og það birtist í sögum Elíasar. Einnig verði rætt um hina leyndardómsfullu frásögn Þórðar Sigtryggssonar sem Elías skráði á árunum 1960 til 1965. Í fréttinni segir ennfremur:

„Elías Mar (f. 1924) lést í maí fyrir tæpu ári. Bækur hans hafa verið ófáanlegar um langt árabil og sjálfur leit hann svo á að hann væri gleymdur rithöfundur. En áhugi á verkum Elíasar hefur farið vaxandi undanfarin ár, enda eru þau skrifuð í deiglu hins nýja lýðveldis þegar nýtt samfélag verður til með nýtt tungutak, nýja stéttskiptingu, nýja tónlist, alþjóðlega æskulýðsmenningu, marglaga borgarsamfélag og hersetu.“

Þingið hefst með stuttri gönguferð um sögusvið skáldsagnanna Eftir örstuttan leik og Vögguvísa . Leiðsögumaður í göngutúrnum verður Hjálmar Sveinsson útvarpsmaður.

Þingið verður haldið í Tjarnarbíói og stendur frá klukkan 13.30 til 16.

DAGSKRÁ:

» Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur ræðir um skáldsöguna Eftir örstuttan leik , fyrstu skáldsögu Elíasar.

» Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur fjallar um æskulýðsmenningu í Reykjavík á árunum 1945 til 1955

» Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur ræðir um rithöfundinn Elías Mar og útgefanda hans Ragnar í Smára. Jón Karl les meðal annars brot úr sögu Ragnars sem hann er að skrifa

» Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fjallar um prófarkalesarann Elías og um einnig um skáldsöguna Sóleyjarsögu

» Hjálmar Sveinsson útvarpsmaður og útgefandi fjallar um hina leyndardómsfullu sögu Þórðar Sigtryggssonar, síðasta stórverk Elíasar Marar.