Eftirlit Það er vert að huga að tjaldvögnum og fellihýsum fyrir sumarfríið.
Eftirlit Það er vert að huga að tjaldvögnum og fellihýsum fyrir sumarfríið. — Morgunblaðið/Kristinn
Nú þegar ferðatíminn fer í hönd fjölgar þeim fólksbifreiðum jafnt sem jeppum sem hafa í eftirdragi vagna eins og tjaldvagna, hjólhýsi, hestakerrur eða minni kerrur eins og fyrir mótorkrosshjól.
Nú þegar ferðatíminn fer í hönd fjölgar þeim fólksbifreiðum jafnt sem jeppum sem hafa í eftirdragi vagna eins og tjaldvagna, hjólhýsi, hestakerrur eða minni kerrur eins og fyrir mótorkrosshjól. Það er því ágætt að rifja upp nokkrar hagnýtar upplýsingar sem finna má á heimasíðu Umferðarstofu, www.us. um ýmislegt sem lýtur að eftirvögnum.

Ljósabúnaður

Allir eftirvagnar skulu búnir ljósum sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bifreiða. Þetta eru stöðuljós að aftan og framan ef breidd eftirvagnsins er meiri en 1,6 m, hemlaljós, stefnuljós, þokuljós, númersljós. Auk þess þarf eftirvagninn að vera með glitaugu, þríhyrnd rauð að aftan, ferhyrnd, hvít að frama og ferhyrnd, gul á hlið. Þeir vagnar sem eru breiðari en 2,3 m þurfa að hafa breiddarljós, tvö hvít að framan og tvö rauð að aftan og þeir sem eru lengri en 6 m þurfa ennfremur hliðarljós.

Lengd og breidd eftirvagna

Hámarkslengd bíls og eftirvagns er 18,5 metrar en almennar reglur gilda um lengd eftirvagna sem mega ekki vera lengri en 12 metrar. Eftirvagn má ekki vera breiðari en 2,55 metrar og ekki ná meira en 30 cm út fyrir hvora hlið dráttarbílsins.

Hann má ekki hindra baksýn úr dráttarbílnum. Ef hann gerir það þarf að framlengja hliðarspegla bílsins báðum megin þannig að ökumaður sjái beggja vegna aftur með tækinu.

Heildarþyngd og hemlabúnaður

Eftirvagn má aldrei vera þyngri en skráð er í skráningarskírteini dráttarbílsins, annars vegar fyrir vagn án hemla og hins vegar fyrir vagn með hemlum. Í eldri bílum eru þessar þyngdir ekki skráðar í skráningarskírteini og gildir þá reglan að eftirvagn án hemla má ekki vera þyngri en helmingur af eiginþyngd dráttarbílsins. Séu eftirvagnar með leyfða heildarþyngd yfir 750 kg skulu þeir búnir hemlum og á þyngri vögnum skulu hemlar vera samtengdir hemlum dráttarbílsins.

Það er ekki skylt að hafa hemlabúnað á eftirvagni með leyfða heildarþyngd 750 kg eða minna. Umferðarstofa bendir á að það eru einungis stærstu og öflugustu fólksbílarnir og jeppar sem mega draga hemlalausa vanga sem eru sem næst 750 kg.

Hámarkshraði

Almennt má fólksbifreið eða sendibifreið með eftirvagn ekki aka hraðar en 80 km/klst og bílar með óskráð tengitæki ekki hraðar en 60 km/klst. Margir nýlegir fólksbílar eru búnir svokölluðum ABS-hemlum. Eftirvagnar eru sjaldnast með þennan búnað. Umferðarstofa bendir á að þessi samsetning geti verið hættuleg þegar nauðhemlað er á miklum hraða á blautum vegi. Hjól bílsins stöðvast ekki þannig að hægt er að stýra bílnum við slíkar kringumstæður. Hins vegar gegnir öðru máli um vagninn sem missir veggripið og getur lagst fram með bílnum.