Dýrkeypt Það getur verið dýrkeypt að dæla bensíni á díselbíl og tjónið numið tugum eða hundruðum þúsunda.
Dýrkeypt Það getur verið dýrkeypt að dæla bensíni á díselbíl og tjónið numið tugum eða hundruðum þúsunda. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það getur kostað þig dágóðan skilding að dæla röngu eldsneyti á bifreiðina þína. Að þessu komst Sigríður Dóra Gísladóttir í samtali við Stefán Ásgrímsson, ritstjóra hjá FÍB, en árlegt tjón gæti numið 20 milljónum króna.
Þetta hafa allmargir íslenskir bifreiðaeigendur reynt á eigin skinni, en talið er að árlega lendi að minnsta kosti 800 manns í því að dæla röngu eldsneyti á bifreiðar sínar og að árlegt tjón af slíku geti numið um 20 milljónum króna. „Við fáum fréttir af slíkum mistökum í hverri viku og því miður fer þeim stöðugt fjölgandi,“ segir Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá FÍB, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. En hvers vegna gerir fólk slík mistök, hvaða afleiðingar hefur það og hvað er til ráða?

„Yfirleitt er þetta á þann veginn að fólk dælir bensíni á tankinn á dísilbílum. Það kemur sjaldnast fyrir að því sé öfugt farið, að dísilolía fari á bensínbíl. Ástæðan er einfaldlega sú að stútarnir ofan í eldsneytistankana eru mismunandi sverir, dælustúturinn á dísildælunni er sverari en á bensíndælunni og kemst því ekki ofan í áfyllingarstútinn á bensínbílnum. Það er því voðalega erfitt að troða dísilstút ofan í bensíntank en því miður er ansi mikið um þetta á hinn veginn,“ segir Stefán.

Sjálfsafgreiðsla hefur aukist á bensínstöðvum sem þýðir að fleiri dæla sjálfir á bíla sína. Stefán segir þó aðalástæðuna fyrir þessari aukningu á mistökum í dælingu vera fjölgun dísilbifreiða, að þau haldist í hendur við hana.

Ekki setja í gang!

– Hvað á fólk að taka til bragðs þegar það uppgötvar mistökin á staðnum með dælustútinn í höndunum og hvað gerist ef fólk gerir sér ekki grein fyrir mistökunum strax?

„Fyrir alla muni, alls ekki starta bílnum! Það sem þarf að gera er að tæma tankinn á bílnum og setja dísilolíu í staðinn. Þá þarf að kalla til dráttarbíl og flytja bílinn á verkstæði en eftir því sem ég best veit eru allavega sum hver olíufélaganna með slíka þjónustu, að minnsta kosti á virkum dögum. Þá er bíllinn sóttur og tappað af honum.“ Stefán segir alveg bráðnauðsynlegt að fólk átti sig á mistökunum strax og helst áður en það setur bílinn í gang. Ef ekki geti farið svo að bifreiðin hætti að ganga. „Íkveikjumarkið eða blossamarkið á olíu og bensíni er svo ólíkt þannig að fólk byrjar á því að finna fyrir því að bíllinn fer að ganga leiðinlega og gefa frá sér hávaða og skrýtin hljóð, oft alls konar aukahljóð. Svo gerist það oft að bifreiðin drepur á sér og hættir hreinlega að geta gengið.“

Stórtjón fylgir misgáningi við dælingu

„Allt kostar þetta sitt,“ segir Stefán. „Það að fá dráttarbíl, greiða fyrir vinnustundir á verkstæði, fyrir utan allt bensínið sem sett var á bílinn og fer til spillis þar sem það verður að fara í eyðingu. Þessi aðgerð getur hæglega kostað í kringum 50 þúsund krónur. Þannig að þetta er heilmikið tjón og það án þess að nokkuð hafi skemmst í bílnum,“ segir Stefán.

– Hvað er það sem getur skemmst eða eyðilagst í bifreiðinni þegar mistök við dælingu eiga sér stað og hversu mikill kostnaður getur hlotist þar af?

„Það að dæla röngu eldsneyti á bifreið getur eyðilagt í henni mótorinn og ef það gerist ekki getur það hæglega valdið skemmdum sem geta komið fram seinna. Bensín hefur allt aðra eiginleika en dísilolía en fyrir utan íkveikjumarkið hefur það meðal annars miklu minni smureiginleika og getur valdið skemmdum á innsprautunarkerfinu í dísilbílum og á spíssum og olíuverki eða háþrýstidælu. Ef einhverjar slíkar skemmdir verða getur sú viðgerð hæglega kostað frá 300-600 þúsund krónur þannig að þetta er stórtjón.“

Nýr útbúnaður með fjölgun dísilbifreiða

Stefán telur ekki sérstaka þörf á að aðgreina frekar eldsneytisdælurnar til að koma í veg fyrir slík mistök þar sem þessi sverleikamunur á stútunum sé til staðar. Hann bendir á að ein ný bifreið, Ford Mondeo, sé þannig útbúin að ekki sé hægt að koma mjóa bensínstútnum ofan í tankinn á henni og það sé það albesta. „Ég hef ekki orðið var við þennan útbúnað í öðrum bílum, en mér finnst afskaplega líklegt að fleiri bílaframleiðendur taki upp þennan búnað því dísilbílum hefur fjölgað mikið í Evrópu þó að við sjáum ekki þessa sömu aukningu hér.“

– Hvert er hlutfall dísilbifreiða og hver er ástæðan fyrir þessari fjölgun úti í Evrópu og hvers vegna erum við eftirbátar þeirra hér á landi?

„Dísilolían er ekki eins dýr úti í Evrópu eins og hérna á Íslandi. Það er ekki vegna þess að hún sé ódýrari í framleiðslu heldur er hún skattlögð lægra vegna þess að mengunin er minni. Dísilbílar eyða um 25% minna magni, sem hæfir betur markmiðum um að draga úr útblæstri frá bílum, en þeir hafa áttað sig á þessu úti í Evrópu en við erum ekki alveg búin að ná því hér heima. Hlutfall dísilbíla er hér á landi í kringum 20%, þegar allt er talið, en í Evrópu eru dísilbílar orðnir rúmlega helmingur allra seldra nýrra fólksbíla.“