Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson fjallar um efnahagsmálin og þjóðarbúið: "Stýrivextir eru tvíeggjað vopn í opnu hagkerfi. Mikilvægast að hámarka hagvöxt. Evran mjög óvænleg til að ná því marki. Fullveldisafsal yrði dýrkeypt."
LÁNAVÖNDLARNIR bandarísku hafa valdið gríðarlegu tapí á fjármálamörkuðum heimsins og í raun sett fjármálalífið á annan endann. Hjá okkur á Íslandi hefur þetta valdið gríðarlegu falli verðbréfa og tapi hlutafjár. Lánsfjárkreppa heimsins er að breytast í mikla efnahagslægð víðast hvar, sem sumir eru teknir að jafna til heimskreppunnar, sem hófst 1929. Í þessu umróti hefur íslenzka krónan eðlilega gefið eftir, en eins og sýnt var fram á í miðopnugrein í Morgunblaðinu mánudaginn 17. marz 2008, er þar aðeins um að ræða leiðréttingu á miklu og langvarandi ofmati á gjaldmiðli okkar.

Stýrivextirnir og góðærið

Tilvitnuð Morgunblaðsgrein þeirra Jóns Helga Egilssonar fjármálaverkfræðings og Kára Sigurðssonar, doktors í fjármálum, bar ofangreint heiti. Þar er sýnt fram á, hvernig háir stýrivextir Seðlabankans hafa valdið miklu ofmati á krónunni, sem leitt hefur til meira góðæris á Íslandi en nokkur innistæða var fyrir. Við höfum þess vegna nú um fjögurra ára skeið búið við fölsk lífskjör, velmegun, sem hlaut að taka enda. Fall krónunnar er leiðrétting á skekkju, sem hlaut að koma.

Jafnvel þegar við bjuggum við ofurkrónu, einn sterkasta gjaldmiðil heims, var hún vænd um að vera verðbólguvaldur, sem var hæpið.

Sem kunnugt er, býr Seðlabanki Íslands við verðbólgumarkmið, 2,5% á ári eða minna. Þess vegna m.a. hefur hann hækkað stýrivextina eins og raun ber vitni um. Í galopnu hagkerfi, sem er afleiðing aðildar Íslands að EES (evrópska efnahagssvæðinu), ýtir þetta undir spákaupmennsku með gjaldeyrinn, sem hækkar gengi hans án tillits til ástands efnahagskerfisins, eins og leitt var í ljós í tilvitnaðri grein, og veldur skuldasöfnun þjóðarbúsins. Þegar almenningur sér sér hag í því að taka gengisáhættu með lánum í erlendri mynt, eru vextirnir orðnir of háir.

Seðlabankanum yrði falið mun öflugra hagstjórnarvald, ef Alþingi mundi setja honum sem meginmarkmið ákveðinn lágmarkshagvöxt á Íslandi til langs tíma litið í stað hins þrönga verðbólgumarkmiðs. Góður hagvöxtur næst ekki til langframa, nema verðbólgu sé haldið í skefjum. Til að draga úr gengissveiflum og auka stöðugleika á innlenda peningamarkaðinum ætti að auka gjaldeyrisvarasjóðinn upp í u.þ.b. heildar-gjaldeyrisþörf eins árs. Þetta þarf að gera með skipulegri skuldabréfaútgáfu í uppsveiflu hagkerfisins.

Evrópusambandið

Fastgengisstefna hefur verið reynd hér, en alltaf sprungið. Það er vegna þess, að krónan er eins konar öryggisloki efnahagskerfisins. Hún er enginn orsakavaldur, heldur er genginu stjórnað af öðrum breytum hagkerfisins. Þegar vel gengur, þá hækkar gengið og samkeppnistaða útflutningsatvinnuveganna versnar. Þegar áföll ríða yfir efnahagslífið, t.d. sjávarútvegurinn verður fyrir tilfinnanlegu tekjutapi, þá lækkar gengið. Þegar allt er með felldu, þá sveiflast íslenzka krónan í takti við efnahag landsins. Hún reglar hita og þrýsting með sjálfvirkum hætti, þegar hún flýtur.

Þessu yrði ekki til að dreifa, ef við tækjum upp sterkan gjaldmiðil, t.d. evru. Áhrifin yrðu svipuð og af fastgengisstefnunni gömlu, nema nú yrðum við leidd í stanzlausa píslargöngu undir jarðarmeni Evrópubankans í Frankfurt, sem því miður ætti þess engan kost að kæla efnahagskerfið á þensluskeiðum eða að smyrja gangverk athafnalífsins, þegar á móti blési. Afleiðingin yrði stjórnlaus verðbólga á þensluskeiðum, gjaldþrot og atvinnuleysi á samdráttarskeiðum.

Hér er ekki verið að mála skrattann á vegginn. Lítið til Írlands. Utanríkisverzlun Íra er mikið í pundum og dollurum. Vítin eru til að varast þau. Í þessum efnum er hægt að mæla með lestri Morgunblaðsgreinar Kristjáns H. Gunnarssonar alþingismanns þann 20. marz 2008.

Sjálfsagt er að spyrja þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB með lakari samningsmarkmið en óskorað fullveldi Alþingis yfir öllum auðlindum Íslands til lands og sjávar. Ekki dugir, að núverandi framkvæmdastjórn samþykki það. Sú næsta gæti breytt reglunum. Tryggingin þyrfti að verða ævarandi.

Mótvægisaðgerðir

Það er hægt að deyfa þá efnahagslægð, sem nú blasir við okkur Íslendingum. Hver og einn verður að sníða sér stakk eftir vexti og vert er að minnast, að margur verður af aurum api. Sparnaður er merki um ráðdeild, en skuldsetningar með fullri veðsetningu eigna eru merki um óhóf.

Það, sem þjóðarbúið vantar núna, er erlent áhættufjármagn í langtíma fjárfestingum, sem efla þjóðarhag og hagvöxtinn í landinu. Eins og sakir standa er um fátt annað að ræða en að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar enn frekar með þeim sjálfbæra hætti, sem við höfum gert hingað til. Það er einfalt, því að eftirspurnin er sívaxandi og þar með verðið, sem í boði er. Þegar afstaða er tekin til þessarar nýtingarstefnu, er hollt að hafa í huga, að allt orkar tvímælis, þá gert er, og sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær. Það er stefna út af fyrir sig, að ekki skuli virkja til stórfelldrar gjaldeyrissköpunar og atvinnuuppbyggingar, en er hægt að verja slíka fátæktarstefnu fyrir komandi kynslóðum ?

Höfundur er rafmagnsverkfræðingur.