Stílfagur C5–bíllinn er nýjasta vopn Citroen í milliflokki fólksbíla og samkvæmt kjörorðinu er hann „greinilega þýskur - getinn í Frakklandi“.
Stílfagur C5–bíllinn er nýjasta vopn Citroen í milliflokki fólksbíla og samkvæmt kjörorðinu er hann „greinilega þýskur - getinn í Frakklandi“. — Morgunblaðið/Ágúst Ásgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný kynslóð Citroen C5-bílsins sem væntanleg er á markað í Evrópu með vorinu felur frekar í sér stökkbreytingu en þróun frá kynslóðinni sem hann leysir af hólmi. Hönnunin er vönduð og útlitið stílfagurt og grípandi við fyrstu sýn.
Ný kynslóð Citroen C5-bílsins sem væntanleg er á markað í Evrópu með vorinu felur frekar í sér stökkbreytingu en þróun frá kynslóðinni sem hann leysir af hólmi. Hönnunin er vönduð og útlitið stílfagurt og grípandi við fyrstu sýn. Höfðu hönnuðir Citroen það fyrst og fremst í huga að búa til öfundsverðan bíl sem gleður eigendur sína. Bíllinn var kynntur í Portúgal á dögunum en hann verður frumsýndur hér á landi hjá Brimborg í september nk. Citroen hyggst með nýja C5-bílnum reyna að blása nýju lífi í markað fyrir millistóra fólksbíla og keppinautarnir eru ekki af verri gerðinni, m.a. Audi, BMW og Mercedes. Hefur franski bílsmiðurinn storkað þeim undanfarnar vikur með því að auglýsa C5-bílinn grimmt á heimavelli þeirra í Þýskalandi undir kjörorðunum „greinilega þýskur – getinn í Frakklandi“. Boðskapurinn er að þarna sé á ferðinni gæðabíll. Auglýsingar þessar hafa orðið bílablaðamönnum tilefni til að velta vöngum yfir hönnuninni. Bíllinn líti mun frekar út fyrir að vera þýskur en franskur. Þótt greinilega sé hann franskur að framanverðu þurfi að fara býsna nálægt honum að aftan til að sannfærast um að þar sé ekki á ferðinni Audi A4 eða BMW-3. Sumpart megi segja hið sama um prófíl C5-bílsins.

Fulltrúar Citroen viku sér hjá því að tjá sig um skoðanir af þessu tagi er fulltrúi bílablaðs Morgunblaðsins reynslukeyrði C5-bílinn í Portúgal á dögunum. Svöruðu því aðeins til að hugmyndaauðgi væri nóg í hönnunarsetri sínu í París. Númer eitt hefði verið að skapa fallega útlítandi bíl með góða aksturseiginleika; hann væri alfranskur.

Innanrýmið

Citroen hefur haft um 21% hlutdeild í markaði fyrir millistóra fólksbíla en segir takmarkið að ná a.m.k. þriðjungsskerf af honum með C5-bílinn að vopni. Áætlanir gera ráð fyrir því að 40% kaupenda bílsins verði einstaklingar og fjölskyldur en 60% sölunnar verði fyrir fyrirtækjaflota og atvinnubílstjóra. Markmið Citroen er að selja 90.000 eintök í ár eftir að bíllinn kemur á markað í apríl en 150.000 á næsta ári. Innanrýmið ber gæðavöndun Citroen gott merki. Ekkert ódýrt harðplast í hvalbaknum eða innréttingu að öðru leyti heldur sérlega þróuð gerviefni sem málmstrimlar gefa sterkan svip. Stjórntækjum er haganalega fyrirkomið til þæginda fyrir ökumann. Þó er fullmikið fyrir minn smekk af smáhnöppum á miðstokknum fyrir miðstöð og hljómtæki sem ekki er mjög þægilegt við að eiga á ferð. C5-bíllinn er nokkuð stór um sig og rúmgóður að innanverðu. Sæti, úr leðri eða taui, eru þægileg og bjóða jafnvel upp á nudd í fínustu útgáfu bílsins. Mjög þægilegur bíll og fara ætti afar vel um fjóra stóra einstaklinga í honum. Á lengdina er C5-stallbakurinn 4,78 metrar á lengd og 1,86 á breidd. Langbakurinn er fimm cm lengri og með rafdrifna afturhurð sem opna má og loka frá bílstjórasæti. Stýrishjólið er eins og í Citroen C4 með fastri miðju sem stýrisrimin snýst um. Miðjan er stjórnstöð því á henni eru hnappar, m.a. fyrir skriðstilli, handfrjálsan síma og hljómtæki. Þægilegt fyrirkomulag í akstri þegar augun þurfa að vera á veginum. Mælaborðið er einkar læsilegt. Nálar ganga ekki út frá miðju mælanna heldur líða eftir jaðrinum. Því er mælamiðjan laus fyrir upplýsingaskjái og það nýtir Citroen sér vel.

Vélin

Auk Audi og BMW-bíla verða helstu keppinautar C5-bílsins bílar á borð við C-gerðir Mercedes, Renault Laguna, Peugeot 407, Ford Mondeo, Honda Accord og VW Passat. Citroen C5 verður hægt að fá með þremur mismunandi bensínvélum, 1,8-3,0 lítra og 127-215 hestafla eða ferns konar dísilvélum með samrásarinnspýtingu, 110-208 hestafla. Minnstu mótorunum fylgir fimm hraða handskiptur gírkassi, í millistærðunum er hægt að velja ýmist hand- eða sjálfskiptingu en stærstu bensín og dísilmótorum fylgir aðeins sex hraða sjálfskipting. Fyrri part dagsins prófaði ég stærsta bensínmótorinn, þriggja lítra og 215 hesta V6-mótor með sjálfvirkum sex hraða gírkassa með handskiptivali. Eftir hádegið prófaði ég næstminnsta dísilmótorinn með handskiptingu; tveggja lítra 138 hestafla túrbódísilvél með 340 njútonmetra upptaki við 2.000 snúninga. Í samanburði við hinn 117 kílóum þyngri bensínbíl reyndist díselbíllinn mjög afkastagóður. Skiptingin þægileg og hann var tiltölulega snarpur í öllum samanburði við toppgæðing línunnar. Uppgefið er að dísilbíllinn komist í 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á 10,9 sekúndum. Í blönduðum akstri eyðir hann sex lítrum á hundraðið og losar aðeins 157 g/km af koldíoxíði. Bensínbíllinn þarf hins vegar 10,5 lítra í blönduðum akstri og nær hundraði á 9,2 sek.

C5-bíllinn reyndist mjög þægilegur í akstri, ekki síst með hinni nýju loftpúðafjöðrun. Hún heldur undirvagninum sjálfkrafa láréttum öllum stundum þótt yfir ójöfnur sé ekið. Hæðarstilling er á fjöðruninni og einnig má gera hana örlítið stífa með því að velja sport-ham. Þetta prófaði ég allt og leið bíllinn einstaklega mjúkt yfir í öllum tilvikum. Minnti sumpart á DS-bílinn forðum, sællar minningar.

Aksturinn reyndist einstaklega notalegur og aldrei þreytandi. Á mikilli ferð var kyrrðin inni í bílnum áberandi, þökk sé sérlega þróuðu hljóðdeyfandi gleri í rúðum. Aldrei þarf að hækka róminn til að ræða við samferðamenn. Því eru langferðir á vegum úti ekki slítandi í svona bíl. Umfram allt var daglangur aksturinn þægilegur. Þeir sem vegna starfa sinna keyra liðlangan daginn þurfa ekki að standa þreyttir upp úr C5-bílnum í lok vinnudags. Hefðbundin gorma- og demparafjöðrunin á dísilbílnum var ekkert síðri og gaf einnig góða rásfestu á krókóttum vegum. Alla jafna lá bíllinn kyrfilega á ferðinni í hvorri útgáfunni sem var. Og það átti við um báða bílana að stýrisvélin reyndist hnitmiðuð og ákveðin. Öllum stýrishreyfingum svarað af nákvæmni og festu, hvorki meira né minna en ætlast var til. Aksturseiginleikar voru hinir bestu. Í undirvagninn og hreyfivirki C5-bílsins nýja hefur Citroen nýtt það besta úr C6-bílnum. Segir fyrirtækið frumlega hönnun hafa gert kleift að aðskilja þau ósamhljóða meginhlutverk undirvagnsins að dempa út titring frá veginum og stýra hjólastöðu. Með því hafi verið unnt að auka á þægindi reiðarinnar. Til að tryggja að allt reynist eins og heitið er mun C5-bíllinn hafa lagt að baki rúma fimm milljónir kílómetra í reynsluakstri áður en hann kemur á markað. Og gæðin eru í fyrirrúmi því eftirlitsmenn í bílsmiðjunni tékka 1.400 atriði í hverjum einasta bíl er hann rennur eftir framleiðslulínunni og 400 atriði til viðbótar reglulega.

Bíll með sál

Nýlega fór bíllinn í gegnum Euro NCAP-öryggispróf og stóðst það með glans. Fékk hæstu einkunn eða fimm stjörnur fyrir öryggi ökumanns og farþega en fjórar af fimm fyrir börn þar sem leiðbeiningar um barnastól þóttu ófullnægjandi.

Styrkleiki C5-bílsins felst að mínu mati í fágaðri hönnun og góðum frágangi, þægilegri íveru, akstursþægindum, að ekki sé minnst á öryggi. Ekki skemmir fyrir hversu bíllinn er fallegur og vel byggður. Ókostir eru vandfundnir, ef nokkrir. E.t.v. mætti þó gagnrýna að fínustu útgáfurnar eru nokkuð þungar en tómaþungi einstakra útgáfa er á bilinu 1.510 til 1.766 kíló. En umfram allt varð ég heillaður af Citroen C5. Bíll með sál, nokkurs konar óður til hreyfingar sem unun var að keyra. Þeir eru öfundsverðir sem aka munu um á slíkum bíl.

Citroen C5

Vél: 1,8–3,0 lítra, 4–6 strokka bensínvél, 1,6– 2,8, 4–6 strokka díselvél

Aflgeta: Bensín 127–215 hestöfl við 6.000 sn./mín., 170–290 Nm tog. Dísel 110–208 hestöfl við 4.000 snún., 240–440 Nm tog.

Drif: Framhjóladrif

Hámarkshraði:

191–224 km/klst.

Gírskipting:

5–6 gíra handskipting,

4–6 gíra sjálfskipting

Lengd: 4.779 mm.

Breidd: 1.860 mm.

Hæð: 1.451–1.458 mm.

Hjólhaf: 2.815 mm.

Eigin þyngd:

1.510 – 1.766 tómur

Farangursrými: 439 lítrar

Hemlar: loftkældir, 304x28 mm eða 330x30 mm diskar að framan, 290x12 mm að aftan

Hjólbarðar: 225/55 eða 60, 245/40 eða 45 Felg ur: 16–19 tommu álfelgur

Eyðsla: 7,9–10,5 ltr bensín í blönduðum akstri,

6,6–8,4 ltr dísel

Koltvísýringslosun:

149–223 díselvél,

188–248 bensínvél

Verð: væntanlegt

Umboð: Brimborg

agas@mbl.is