Hjólagrind Það getur komið sér vel að hafa hjólagrind á bílnum og sameina bíl og hjól.
Hjólagrind Það getur komið sér vel að hafa hjólagrind á bílnum og sameina bíl og hjól.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aukahlutir geta breytt miklu varðandi útlit og notkunarmöguleika bíla. Því komst Vala Ósk Bergsveinsdóttir að þegar hún hafði samband við B&L og kynnti sér úrval aukahluta fyrir nýja millistærðarbílinn Hyundai i30.
Ingi Þór Vöggsson hjá B&L segir úrvalið af aukahlutum fyrir Hyundai i30 nær óendanlegt. „Við fórum þá leið að setja saman sérstakan aukahlutabækling á íslensku þar sem fólk getur glöggvað sig á hvaða möguleikar eru í boði fyrir þennan bíl,“ útskýrir Ingi. Miðað við þann fjölda aukahluta sem í boði er er mikilvægt fyrir fólk að sjá hvernig hlutirnir koma út á bílnum áður en það fær hann afhentan.

Það er misjafnt hversu mikið umstang er í kringum það að setja aukahlutina í bílinn. Það getur tekið allt frá nokkrum mínútum og upp í nokkra klukkutíma. Meirihluti aukahlutanna er settur í bílinn áður en kaupandinn fær hann afhentan en Ingi segir að auðvitað sé eitthvað um það að fólk vilji bæta búnaði við bílinn eftir á.

Álfelgur og vindkljúfur

Þegar blaðamaður reyndi að láta sér detta í hug hvers konar aukahluti væri hægt að fá komu einungis upp í hugann álfelgur og svokallaður „spoiler“ eða vindkljúfur upp á góða íslensku. Bílaáhugamenn vita þó auðvitað betur hvað er í boði og segir Ingi að fjölbreytni og úrval aukahluta fari alveg eftir hverri bílategund. Álfelgurnar eru að sögn Inga vinsælasti aukahluturinn og úrval þeirra er mikið enda breyti felgurnar yfirleitt miklu um útlit bílsins.

Ingi segir að verð á aukahlutum hafi hækkað undanfarið og verðgildi þeirra fyrnist hraðar en verðgildi bílsins. En á móti kemur að það getur gert bíl söluvænlegri ef hann lítur vel út og það er oft eftirspurn eftir bílum sem eru útfærðir á óvenjulegan hátt og með mikið af aukahlutum. „Aukahlutirnir gera bílinn skemmtilegri og gefa honum aðeins meiri karakter,“ segir Ingi Þór.