Nýir Það er nauðsynlegt að skoða ábyrgðarskilmála vel, líka á nýjum bílum.
Nýir Það er nauðsynlegt að skoða ábyrgðarskilmála vel, líka á nýjum bílum. — Morgunblaðið/Ómar
Hversu víðtæk er ábyrgð á nýjum bílum, hver er réttur neytanda og hvar takmarkast ábyrgð söluumboðs. Sigríður Dóra Gísladóttir leitaði svara við þessum og fleiri spurningum varðandi ábyrgð nýrra bíla.
Þegar kaupa á nýjan bíl er að ýmsu öðru að huga en einungis að velja sér réttu tegundina. Ábyrgð söluumboða á seldum bifreiðum grundvallast á lögum og/eða samningi um kaupin sem eru sambærileg við lög í löndum innan Evrópusambandsins. Það þýðir að þegar neytandi kaupir bifreið af umboði þá gilda almennt um það neytendakaupalög. Í raun er eins hægt að tala um rétt kaupanda til að kvarta yfir galla gagnvart seljanda eins og að tala um ábyrgð söluumboðs. Umboðssalar bifreiða geta því ekki takmarkað rétt neytenda samkvæmt neytendakaupalögum með ábyrgðarsamningi.

Arnaldur Hjartarson, lögfræðiráðgjafi Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að neytandinn hafi almennt tveggja ára frest til að koma fram kvörtun vegna galla á bifreiðinni, en það er þó undantekning á reglunni. „Í lögunum er ákvæði um lengri frest, en það á við ef söluhlut er ætlaður mun lengri endingartími en gengur og gerist, en í slíkum tilvikum hefur neytandi fimm ár til þess að leggja fram kvörtun. Hér er þó um undantekningarreglu að ræða,“ segir Arnaldur.

Hann segir jafnframt að framleiðendur og söluumboð bifreiða gangist oft undir lengri ábyrgðartíma en skylt er skv. lögum, og er þá kveðið á um slíkt í ábyrgðarskilmálum sem verða hluti samnings seljanda og kaupanda. „Segja má að slík ábyrgð endurspegli það traust sem framleiðandi og söluaðili bera til bifreiðarinnar; því vandaðri sem þeir álíta hana, þeim mun lengri tíma eru þeir tilbúnir að ábyrgjast hana. Þessi ábyrgð byggist á samningi aðila og þar kunna ýmis atriði að vera undanþegin ábyrgð. Slíkt er almennt heimilt, svo fremi sem takmörkunin gangi ekki gegn neytendakaupalögum,“ segir Arnaldur.

Næstum allt fellur undir ábyrgð söluumboðs

Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu, segir ábyrgð misjafna milli tegunda. „Flestir bílar hjá okkur eru í þriggja ára eða 100.000 km ábyrgð, en til dæmis eru KIA-bílar seldir með allt að sjö ára eða 150.000 km ábyrgð,“ segir Jón Trausti og bætir við að ekki gildi sama ábyrgð allan ábyrgðartímann. „Fyrstu tvö árin er ábyrgðin víðtækari og falla nánast allir hlutir undir ábyrgð, en til að framlengja ábyrgð þarf eigandi bifreiðarinnar svo að mæta í þjónustuskoðun eða smurþjónustu samkvæmt þjónustuhandbók bifreiðarinnar. Ef farið er að skilmálum hennar þá framlengist ábyrgðin – fyrir utan svo mikilvægi þess að sinna allri reglubundinni þjónustu vegna viðhalds og hugsanlegrar endursölu bifreiðarinnar,“ segir Jón Trausti.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar og formaður Bílgreinasambandsins, tekur undir það sem hér hefur komið fram er varðar ábyrgð og þjónustuskoðun bifreiðar og segir í raun ekkert undanskilið er kemur að ábyrgð bifreiða. „Með öllum nýjum bílum býður Brimborg þriðja árið til viðbótar við þessi tvö sem yfirleitt er miðað við, en skilyrði fyrir þeirri viðbótarábyrgð er að viðkomandi bifreið sé þjónustuð frá upphafi samkvæmt ábendingum framleiðanda og að akstur fari ekki yfir 100.000 km. Það sem er undanþegið í þessari viðbótarábyrgð er rafgeymir, fjarstýring, útvarp og geislapilari,“ segir Egill.

Slitfletir jafnan undanþegnir ábyrgð

Við notkun bifreiða á sér stað ákveðið slit. Slithlutir falla yfirleitt ekki undir ábyrgð, þ.e. þeir hlutar bifreiðarinnar sem slitna eftir notkun og álagi. Þar er átt við hluti eins og bremsuklossa, dekk og jafnvel kúplingar. Erfitt er að telja þessa hluti gallaða þótt þeir endist ekki í langan tíma, en ef um óvenjulega stuttan endingartíma er að ræða getur ákvæði neytendakaupalaga um galla þó vel átt við. Slíkt þarf þó að meta eftir atvikum.

„Til þess að meta hvort um galla sé að ræða þarf að huga að því hvort bifreiðin hafi við afhendingu verið haldin einhverjum annmarka, en hann kann að hafa verið til staðar þrátt fyrir að afleiðingar hans komi ekki fram fyrr en löngu síðar. Í slíkum tilvikum er rætt um leynda galla, en rétt er að árétta að slíkir gallar hafa ekkert með það að gera hvort seljanda hafi verið kunnugt um gallann, heldur er hér um hlutlægt mat að ræða“ segir Arnaldur.

Reynt að leysa ágreining með sátt

Ef neytandi telur að sér hafi verið seld gölluð vara er rökrétt að hann leiti fyrst til söluaðila til að fá bót sinna mála. Ef aðilar komast ekki að samkomulagi getur neytandinn leitað til dómstóla eða kærunefndar í lausafjár- og þjónustukaupamálum. „Auðvitað verður síðan að gera auknar kröfur til söluhlutarins eftir því sem um nýrri og dýrari bifreið er að ræða,“ segir Arnaldur.

Egill segir að ef um galla sé að ræða þá hafi seljandi rétt til úrbóta, það er að laga gallann. „Ef upp rís ágreiningur þá eru nokkrir kostir í boði, til dæmis væri hægt að leita í sáttamann FÍB og Bílgreinasambandsins eða til Neytendasamtakanna. Einnig er farvegur í gegnum Neytendastofu en þar er starfrækt kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa,“ segir Egill.

Jón Trausti segir að starfsmenn Heklu leiti ávallt leiða til þess að leysa allan ágreining beint við eigendur en sé það ekki hægt er málum vísað til hlutlauss sérfræðings FÍB sem metur málið. „Aðilar eru þá sammála um að lúta úrskurði hans, hver svo sem hann verður, en til þessa kemur nánast aldrei,“ segir Jón Trausti.

sdg@simnet.is