Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is ÞAÐ fer ekki fram hjá nokkrum upplýstum manni þegar Reykjavíkurmaraþonið er haldið, sérstaklega ekki eftir að Glitnir hóf að auglýsa það af miklum móð.
Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

ÞAÐ fer ekki fram hjá nokkrum upplýstum manni þegar Reykjavíkurmaraþonið er haldið, sérstaklega ekki eftir að Glitnir hóf að auglýsa það af miklum móð. Færri, raunar miklu færri, taka eftir því þegar Félag maraþonhlaupara (FM) blæs til vor- og haustmaraþons en það hefur félagið gert allar götur frá árinu 1998.

Vormaraþonið 2008 verður einmitt haldið á morgun, laugardag. Ræst verður í maraþoni klukkan 9.00 en í hálft maraþon klukkan 10.30. Leiðin er sýnd á kortinu að ofan. Þeir sem hlaupa hálft maraþon hlaupa fram og til baka en maraþonhlauparar fara leiðina tvisvar.

Ein af ástæðum þess að færri taka eftir maraþonum FM er sú að mun færri hlauparar taka þátt. Í gær þegar skráningu var næstum lokið höfðu 17 skráð sig til þátttöku í maraþoni og hátt í 70 í hálfmaraþoni en til samanburðar luku rúmlega 500 manns Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra og ríflega 1.500 hlupu hálft maraþon. En eins og hlauparar vita þá er magn ekki það sama og gæði.

Félag maraþonhlaupara var stofnað á hlaupaæfingu hjá hlaupahópnum Öli árið 1997. Tilefnið var að sumir voru á leið til New York til að hlaupa maraþonið þar í borg en mönnum þótti nokkuð dýrt að taka þátt í hlaupi erlendis, að sögn Gísla Ásgeirssonar sem hefur verið ritari félagsins í rúman áratug. Þess vegna var ákveðið að stofna félag til að halda fleiri maraþonhlaup á heimaslóð. Fátt er um áhorfendur en Gísla finnst það ekki mikið mál. „Við erum vön því á Íslandi að hafa enga áhorfendur enda hlaupum við ekki fyrir þá,“ sagði hann.