Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is Yfirdráttarlán eru dýrari á Íslandi en víðast hvar annars staðar en að jafnaði voru Íslendingar yfir átján ára aldri með slík lán upp á 227 þúsund krónur um seinustu mánaðamót.
Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

Yfirdráttarlán eru dýrari á Íslandi en víðast hvar annars staðar en að jafnaði voru Íslendingar yfir átján ára aldri með slík lán upp á 227 þúsund krónur um seinustu mánaðamót. Þeir greiða því að meðaltali um 56 þúsund í vexti af því á árinu, sé lánið í botni og vextirnir 24,5% allt árið. Þar sem ekki eru allir með yfirdrátt er ljóst að greiðslubyrði margra heimila er mun meiri.

Breytast með stýrivöxtunum

Stýrivextir stýra því hve háa vexti bankarnir mega setja á lán t.d. yfirdrátt. Einn viðmælenda 24 stunda líkti þessu við brauðgerð. Seðlabankinn setur verð á peninga, eins og heildsali sem selur bakaríum hráefni. Það verð, s.s. stýrivextirnir, ákvarðar svo verðið á framleiðsluvörunni, þ.e. vöxtum á yfirdráttarlánum bankanna. Þannig fylgjast þessir vextir að og hafa yfirdráttarvextir verið að jafnaði 9-10% hærri en stýrivextirnir hérlendis undanfarin ár.

Getur munað tveimur þriðju

Yfirdráttarlán eru með ótryggari lánum sem bankinn veitir því fyrir þeim þarf ekki að vera veð og þar með eru vextir háir. Algengustu yfirdráttarvextir hérlendis eru nú 24,5%, þó ýmsir viðskiptavinir njóti betri kjara. Vegna hárra stýrivaxta, meðal annars, greiða Íslendingar meira fyrir lánin en gert er annars staðar. T.d. voru yfirdráttarvextir 7,79% í Austurríki, 11,87% í Þýskalandi og 11,66% í Portúgal sl. janúar, skv. heimasíðu Seðlabanka Evrópu. Þó ber að nefna að ekki er ljóst hvort alls staðar sé það sama innifalið í vöxtunum, t.d. heimildargjald.

Heimilin skulda 53 milljarða

Yfirdráttarlán heimilanna námu 72,5 milljörðum í febrúarlok á þessu ári, skv. tölum frá Seðlabanka Íslands. Inni í þeim tölum eru kreditkortaskuldir frá síðasta úttektartímabili. Ekki fengust upplýsingar um hve háar þær eru en í útreikningum Seðlabankans námu þær 73% upphæðarinnar í janúarlok í fyrra, skv. „Tölfræðihorni“ 1. heftis Peningamála 2007. Sé gert ráð fyrir að hlutfall kreditkortaskulda sé það sama nú, nema yfirdráttarskuldir heimilanna um 53 milljörðum. Það gerir 227 þúsund á hvern Íslending yfir 18 ára aldri, en þeir voru 233.388 í ársbyrjun.

Yfirdráttur í stað stimpilgjalda

„Hin mikla notkun yfirdráttar á Íslandi er m.a. út af stimpilgjöldunum,“segir Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Guðjón segir stimpilgjöldin þekkjast óvíða annars staðar og séu því nánast séríslenskt fyrirbæri. Hann telur að ef þau væru afnumin myndu margir velja frekar að taka langtímalán, sem eru á lægri vöxtum, í stað yfirdráttar.
Í hnotskurn
Vaxtabyrðin reiknast af notkun heimildarinnar en vaxtahlutfallið, 24,5%, miðast við árið. Sé miðað við einstakling með eina milljón á yfirdrætti, sem er í botni allt árið, greiðir viðkomandi 245 þúsund í vexti á árinu. Sú upphæð deilist á mánuðina og greiðir hann því rúm tuttugu þúsund í vexti á mánuði.