Kynning Ferðaþjónusta bænda býður upp á fjölda áhugaverðra göngu- og hjólreiðaferða erlendis en Hugrún Hannesdóttir hjá Ferðaþjónustunni segir að slíkar ferðir séu mjög vinsælar.
Kynning

Ferðaþjónusta bænda býður upp á fjölda áhugaverðra göngu- og hjólreiðaferða erlendis en Hugrún Hannesdóttir hjá Ferðaþjónustunni segir að slíkar ferðir séu mjög vinsælar. „Þetta virðist orðið hálfgerður lífsstíll og það má segja að þetta séu bestu fríin sem maður fer í. Í ferðinni er maður að sameina áhugamál, kyrrð og afslöppun. Maður upplifir náttúruna á allt annan hátt fótgangandi eða á hjóli og afslöppunin er einhvern veginn mun meiri. Í stressþjóðfélaginu sem við lifum í er mjög gott að komast í allt annað umhverfi,“ segir Hugrún sem sjálf gekk Mont Blanc-hringinn í fyrra. „Þetta var einstök ferð. Það er flogið til Genfar og á einni viku er gengið hringinn í kringum Mont Blanc. Þessi ferð hentar öllum sem eru í sæmilegu gönguformi, þarna eru virkilega góðir stígar og gríðarlega fallegt umhverfi.“

Auk þess býður Ferðaþjónustan upp á hjólreiðaferð til Þýskalands. „Í einni af hjólreiðaferðunum er rómantíska leiðin hjóluð en það er vinsælasta hjólaleiðin í Þýskalandi. Það er mikið um kastala á leiðinni og það er farið í mjög margar flottar borgir, þar á meðal Rothenburg ob der Tauber sem er sögð vera sú borg í Þýskalandi sem hefur heillegasta borgarmúrinn frá miðöldum, til Wies þar sem er flottasta barokk-kirkja Þýskalands og til Füssen þar sem ævintýrahöllin Neuschwanstein er. Þetta er tíu daga ferð sem hentar fyrir hvern sem er.“

svanhvit@24stundir.is