Svana Helen Björnsdóttir fæddist í Reykjavík 1960. Hún stundaði nám í rafmagnsverkfræði við HÍ og lauk meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Darmstadt 1987.

Svana Helen Björnsdóttir fæddist í Reykjavík 1960. Hún stundaði nám í rafmagnsverkfræði við HÍ og lauk meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Darmstadt 1987. Svana Helen stofnaði árið 1992 fyrirtækið Stiku, og hefur verið framkvæmdastjóri þar síðan. Hún hefur setið í stjórn Skýrslutæknifélagsins í 8 ár, þar af 4 ár sem formaður. Eiginmaður Svönu Helenar er Sæmundur Þorsteinsson rafmagnsverkfræðingur og eiga þau þrjá syni.

Skýrslutæknifélag Íslands fagnar í dag 40 ára afmæli með hófi á Hótel Nordica. Svana Helen Björnsdóttir er einn af skipuleggjendum dagsins og fráfarandi formaður félagsins:

„Skýrslutæknifélagið var stofnað í aðdraganda þess að fyrstu tölvurnar voru keyptar til landsins og fyrirtækið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar (Skýrr) stofnað. Skýrslutæknifélagið var myndað sem fagfélag um þessa nýju tæknigrein, en orðið tölva var ekki til í íslensku á þessum tíma, og tæknin því kennd við það sem risastóru tölvuhlunkarnir gerðu einkum: að skrifa út skýrslur,“ segir Svana Helen.

Á fjórum áratugum hefur félagið þróast mikið, rétt eins og tölvutæknin, og er í dag vettvangur allra sem áhuga hafa á upplýsingatækni eða nota hana í störfum sínum. „Félagið er þverfaglegt, enda er upplýsingatækni notuð í öllum starfsgreinum – orðin hluti af hversdagslífi okkar allra bæði í starfi og einkalífi: allt frá bílum og þvottavélum til banka og stjórnsýslu.“

Í dag stendur Skýrslutæknifélagið fyrir fræðsluviðburðum, fundum og ráðstefnum um það sem efst er á baugi í upplýsingatækni og tæknilausnum: „Félagið starfar í faghópum þar sem meðlimir geta unnið nær sínu áhugasviði og störfum,“ segir Svana Helen, en hjá félaginu starfar m.a. faghópur um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu, hópur um fjarskipti, hópur um upplýsinga- og öryggismál, og deildin UT-konur sem starfar að því að efla konur sem starfa í upplýsingatækni og auka áhuga ungra stúlkna á tækninámi. Einnig starfar innan félagsins öldungadeild eldri félaga sem vinna m.a. að skráningu sögu upplýsingatækni á Íslandi. Félagið gefur út fagtímaritið Tölvumál og síðast en ekki síst má nefna orðanefnd félagsins sem hefur frá stofnun félagsins lagt mikinn metnað í að auðga íslenskt mál með því að þýða þau erlendu tækniorð sem fylgja upplýsingatækninni. Hefur nefndin íslenskað þúsundir tækniorða til þessa og gefið reglulega út Tækniorðasafn, bæði í bókarformi og sem rafræna uppflettingu og leit á vef félagsin, www.sky.is