— Mynd/Skessuhorn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Viggó I. Jónasson viggo@24stundir.is „Hugsanlega mun ég senda fulltrúa í keppnina en ætla ekki að taka ákvörðun um það strax.
Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

„Hugsanlega mun ég senda fulltrúa í keppnina en ætla ekki að taka ákvörðun um það strax. Arnar Laufdal, eigandi keppninnar, var nú ekkert sérstaklega ánægður með mig en ég vildi líka aðeins finna hvernig landið liggur og hvort fólk saknaði þess að hafa keppnina,“ sagði Silja Allansdóttir, umboðsaðili keppninnar Ungfrú Vesturland, í samtali við Skessuhorn en hún hefur ákveðið að þetta árið verði keppnin um fegursta fljóð Vesturlands ekki haldin.

Silja, sem hefur haldið keppnina um Ungfrú Vesturland síðastliðin 15, sagði við Skessuhorn að hún hafi verulegar áhyggjur af aldri keppenda. „Auk þess langaði mig að hafa stelpurnar í keppninni aðeins eldri. Þær hafa margar tekið þátt í kringum átján ára aldurinn en mér finnst það svolítið ungt.“ Þrátt fyrir að keppnin falli niður þetta árið reiknar Silja fastlega með því að haldin verði vegleg keppni um titilinn ungfrú Vesturland á næsta ári.

Femínistar fagna keppnisleysi

Femínistar hafa lengi haft horn í síðu fegurðarsamkeppna og kemur því ekki á óvart að keppnisleysinu sé fagnað á þeim bænum. „Ef þetta er upphafið að endinum þá náttúrlega fagna ég því. Kannski er fólk að verða meðvitaðra um að konur eru ekki sýningargripir,“ segir Sóley Tómasdóttir og veltir fyrir sér hvort öðruvísi fegurðarsamkeppnir séu farnar að hafa áhrif.

„Kannski hefur keppnin Óbeisluð fegurð haft svona ofboðslega mikil áhrif. Það væri mjög gaman ef svo er.“

Silja Bára Ómarsdóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, tekur undir orð Sóleyjar og bætir við að hún sé ánægð að umboðsaðilinn hafi áhyggjur af ungum aldri keppenda. „Þetta eru góðar fréttir að fólk sem hefur staðið að þessum keppnum sé farið að sjá að þetta er kannski ekki heilbrigt umhverfi fyrir ungar konur.“ Silja vonar að fleiri keppnishaldarar sjái að sér og að fegurðarsamkeppnir heyri sögunni til. „Að keppa í einhverju sem þú ræður ekki yfir, hvers konar skilaboð sendir það? Ég vona bara að fleiri keppnir fari sömu leið.“