— 24 stundir/Valdís Thor
„Eftir langa og stranga umhugsun hef ég komist að niðurstöðu, uppáhaldsborgin mín er Höfðaborg í Suður-Afríku.

„Eftir langa og stranga umhugsun hef ég komist að niðurstöðu, uppáhaldsborgin mín er Höfðaborg í Suður-Afríku. París kom reyndar sterk inn í annað sætið sökum menningar og matargerðarlistar, en sólin, sjórinn og sandurinn höfðu sigur að lokum,“ segir Þórhallur Sævarsson auglýsingaleikstjóri.

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur

dista@24stundir.is

Ég fór fyrst til Höfðaborgar í vinnuferð í ágúst 2004 (þá var reyndar hávetur þar í borg, eingöngu 15-20 gráðu hiti) og heillaðist ég strax af fólkinu, arkitektúrnum og mögnuðum ströndunum sem flestar liggja innilokaðar á milli hárra kletta. Ég hef komið þangað nokkrum sinnum síðan og hægt og rólega kynnst borginni betur og betur. Vandamálið var hins vegar að í þessum vinnuferðum er maður í mjög vernduðu umhverfi, það er passað mikið upp á mann og tækifærin til að upplifa hina sönnu stemningu borgarinnar af skornum skammti. Það breyttist hins vegar í janúar 2007 þegar ég og Baldur Eyþórsson kvikmyndatökumaður og vinur minn leigðum okkur sinn Harald Davíðssoninn hvor og lögðum út í að kynnast borginni frá fyrstu hendi.

Hvernig er andinn í borginni?

Borgin er mjög lífleg og leikur strandlífið stórt hlutverk í daglegu lífi borgarbúanna. Hún líður hins vegar, því miður, ennþá fyrir tvískiptingu kynþáttanna. En fyrst og fremst er fólkið ótrúlega vinalegt og opið, sama af hvaða kynþætti það er.

Uppáhaldsveitingastaðurinn ?

Fyrir alvöru afríska stemningu og mat er „Mama Africa“ frábær, góður matur og flott framreiðsla. Þar er líka spiluð lifandi tónlist og sérstaklega gaman að sjá afríska djassara í „full swing“. Ég veit að staðurinn hljómar ferðamannalega, en er upplifun sem enginn má láta framhjá sér fara.

Hins vegar er „The Cape Colony“ á Mount Nelson-hótelinu alveg brilljant fyrir nútíma suðurafríska matreiðslu, frábæra þjónustu og enn betra útsýni ufir höfnina.

Eftirminnileg máltíð?

Borðaði hádegismat fyrir utan borgina á verndarsvæði fyrir villt dýr, svona mini safari-stemning. Þar var setið 300 m frá vatnsbóli og hægt að fylgjast með dýrunum í mesta hitanum svala sér við vatnsbólið – eini tími dagsins þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir.

Uppáhaldsbúðirnar?

Skemmtilegasta búðin var hengirúmabúð í gamla miðbænum sem seldi eingöngu hengirúm í öllum stærðum og gerðum. Var mjög spenntur en gerði mér svo grein fyrir að hvorki íbúðin mín né íslenskt veðurfar væru alveg að virka fyrir afslöppun í hengirúmi.

Einnig fann ég mjög merkilega búð á stærð við Hagkaup í Kringlunni sem seldi eingöngu hatta.

Hvað keyptir þú þér síðast?

Í fyrrnefndri hattabúð keypti ég mér suðurafrískan „gangster“ hat, honum svipar til Trilby-hatta en er gerður úr ofnu plasti. Hann kom sér vel til að skýla manni fyrir sólinni og mér fannst ég vera massa töff.

Uppáhaldsbarinn?

Willy's Beach Bar&Grill í Camps Bay (ein af bestu ströndunum) er í miklu uppáhaldi. Hann er lítill bar við Camps Bay-strandgötuna, mjög „local“ staður - ef Kaffibarinn væri strandbar í S-Afríku, þá væri hann Willy's Bar. Eigandinn er Willy, fimmtugur brimbrettagaur með sítt ljóst hár og alltaf í góðu skapi. En það var einmitt Villi sjálfur sem leigði okkur mótorhjólin og tók okkur Baldur upp á sína arma til að kynna okkur fyrir „alvöru“ borginni.

Geturðu hugsað þér að búa þar?

Ég er ekki viss um að ég myndi vilja búa þar í lengri tíma, þó að borgin sé frábær. Fjarlægðin frá Íslandi, fjölskyldu og vinum spilar þar inn í, en flugið frá London tekur tólf tíma. En til styttri tíma, eitt til tvö ár, í þessari veðráttu og með vínlöndin fyrir utan borgina, gæti það verið skemmtileg tilbreyting frá kuldanum og vosbúðinni á Klakanum.

Eftir að hafa búið bæði í London og Köben gæti París verið næst á listanum, ef ekki væri fyrir litla sem enga frönskukunnáttu og áhyggjur af holdafari sökum einstakrar matarmenningar.

Ertu önnur manneskja í

annarri borg?

Mesti munurinn er ströndin, hef reynt að fara í Nauthólsvíkina en það er bara ekki eins! Annars reyni ég nú yfirleitt bara að vera ég sjálfur.

Hvað finnst þér markvert að sjá í borginni?

Það er möst að ganga/keyra á topp Table Mountain sem rís tignarlega yfir borginni og er eiginleg Esja Höfðaborgar. Bestu strandirnar eru í Camps Bay og Clifton, „sundowner“ (við sólarlag), drykkur á Willy's Bar, næturlífið á Long Street í gamla miðbænum, vínsmökkun í WineSense og svo mætti lengi telja. Einnig myndi ég mæla með að heimsækja hin svokölluðu „Township“ hverfi, fátækrahverfi borgarinnar og kynnast frá fyrstu hendi hörmungum apartheid-stefnunnar. Það er reynsla sem lætur engan ósnortinn.