Veiðar Grásleppuveiðar hófust fyrr í mánuðinum en fara hægt af stað.
Veiðar Grásleppuveiðar hófust fyrr í mánuðinum en fara hægt af stað. — Morgunblaðið/Helgi Mar
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is GRÁSLEPPUVERTÍÐIN fer bæði hægt og misjafnlega af stað eftir stöðum. Veiðarnar eru hafnar fyrir Norðausturlandi, en veður hefur á köflum verið óhagstætt.
Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

GRÁSLEPPUVERTÍÐIN fer bæði hægt og misjafnlega af stað eftir stöðum. Veiðarnar eru hafnar fyrir Norðausturlandi, en veður hefur á köflum verið óhagstætt. Verð á hrognum er nú hærra en í fyrra, en þó ekki nógu hátt að mati Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda.

„Veiðin hefur verið alveg þokkaleg á stöðum eins og Húsavík, Vopnafirði og Bakkafirði. Á Siglufirði hefur veiðin verið léleg og á Raufarhöfn, Þórshöfn og við Eyjafjörðinn virðist hún einnig fara lakar af stað en í fyrra. Það er reyndar erfitt að segja til um raunverulega stöðu, því veðrið hefur verið mjög slæmt,“ segir Örn.

50 daga takmörkun

Vertíðin mátti byrja 10. marz fyrir Norðausturlandi og voru margir, sem byrjuðu þá en sumir bíða enn átekta. Veiðarnar eru takmarkaðar við 50 daga á hvern bát, frá því net eru fyrst lögð í sjó. Veiðin hefst svo síðar á öðrum stöðum við landið.

En hvernig standa markaðsmálin?

„Við leggjum mikla áherzlu á það að menn hefji ekki veiðar nema hafa áður tryggt sér sölu hrognanna. Með því teljum við að við getum veitt upp í þær 8.000 tunnur af hrognum, sem við stefnum að. Heildarveiði í öllum heiminum í fyrra varð mun minni en búizt hafði verið við. Við reiknuðum með því að veiðin myndi skila um 30.000 tunnum af hrognum, en niðurstaðan varð aðeins 22.000 tunnur.

Fyrir vikið vonuðumst við til þess að það skilaði sér í betra verði í upphafi þessarar vertíðar, en þeirrar síðustu. Verðið á síðustu tunnunum í fyrra var mjög gott, en það hafa ekki orðið þær verðhækkanir sem við höfðum vænzt. Verðið er auðvitað hærra en í fyrra, enda hefur gengið gefið eftir. Við teljum engu að síður að þurfi að vera töluvert hærra en verið er að greiða í dag. Menn eru líka nokkuð á varðbergi og halda fastar í hrognin núna,“ segir Örn.

Selt með ýmsum hætti

Sala hrognanna er með ýmsum hætti. Siglfirðingar selja sín hrogn beint til kaupanda í Svíþjóð. Aðrir nota milliliði til að selja og meðal útflytjenda á hrognum er Jón Ásbjörnsson hf. Loks eru þrjár niðurlagningarverksmiðjur í landinu sem kaupa hrogn, en það eru Fram Foods, Ora og Vignir Jónsson.

Örn segir að á þessu ári sé gert ráð fyrir framleiðu á 8.000 tunnum af hrognun hér og sama magni á Grænlandi og Nýfundnalandi og loks að Norðmenn verði með 2.500 til 3.000 tunnur og að heildarveiði geti orðið um 28.000 tunnur. Markaðurinn taki árlega um 30.000 tunnur og miðað við fyrirliggjandi upplýsingar eigi hann því að þola 28.000 tunnur. Hins vegar sé alveg óljóst hver framvinda verði. Þar ráði veðrið til dæmis miklu.

Í hnotskurn
» Gert er ráð fyrir framleiðslu á 8.000 tunnum af hrognum hér og sama magni á Grænlandi og Nýfundnalandi og loks að Norðmenn verði með 2.500 til 3.000 tunnur og að heildarveiði geti orðið um 28.000 tunnur.
» Heildarveiði í öllum heiminum í fyrra varð mun minni en búizt hafði verið við. Við reiknuðum með því að veiðin myndi skila um 30.000 tunnum af hrognum, en niðurstaðan varð aðeins 22.000 tunnur, sem er mun minna en markaðurinn þolir.