[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.
Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Litlar líkur eru á að Ísland sniðgangi Ólympíuleikana sem fram fara í Kína í ágúst vegna meintra mannréttindabrota kínverskra yfirvalda í Tíbet og víðar en köll um slíkt eru orðin hávær í mörgum ríkjum Evrópu og víðar. Hafa átök þau er staðið hafa yfir í Tíbet undanfarið kveikt á ný deilur um þýðingu þess að halda stærstu íþróttaleika heimsins í ríki sem sannað þykir að hafi ítrekað virt almenn mannréttindi að vettugi.

Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, segir málið ekki hafa verið rætt með formlegum hætti hjá yfirstjórn sambandsins enn sem komið er þó fyrir liggi að sitt sýnist hverjum um málið. „Fyrir mér persónulega finnst mér meginatriðið að íþróttum og stjórnmálum sé ekki blandað saman. Við vonum auðvitað að farsæl lausn náist á vandamálum tengdum Kína en það verður að gerast á réttum vettvangi sem er Sameinuðu þjóðirnar en ekki innan frjálsra félagasamtaka sem stunda íþróttir. Það er ekki okkar hlutverk að leysa vandamál á borð við þau sem nú eru í Tíbet.“

Ólafur bætir við að leikar á borð við Ólympíuleika séu afl til friðar og slíku verði að halda aðskildu frá stjórnmálum. „Við virðum mikils störf mannréttindasamtaka en vonum að þau virði okkar störf líka.“

Töluverð umræða er nú um málið víða um heim. Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, útilokar ekki að Frakkar sniðgangi leikana alfarið og franska ríkissjónvarpið ætlar ekki að senda frá leikunum í sumar nema leyfi verði gefið til að mynda einnig og sjónvarpa mótmæli og kröfugöngur hvers konar en fjölmiðlafólki var til að mynda öllu vísað frá Tíbet þegar hvað mest gekk þar á fyrir stuttu.

Þá kallar dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Thomas Bodström, eftir því að sænska íþróttafólkið sniðgangi opnunarhátíð leikanna enda sé ljóst að Kínverjar ætli að nýta sér í ystu æsar að þeim viðburði er sjónvarpað til alls heimsins. Betra tækifæri til að sýna mátt og megin Kína á heimsvísu gefst ekki og hafa ýmsir höfundar víða um heim líkt sjónarspili Kínverja nú við tilburði nasista á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 þegar umheimurinn fékk að sjá hversu allt gekk vel og bjart var yfir hjá hinum kynhreinu aríum þess lands.