— 24stundir/Golli
EFtir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.
EFtir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

Beinn útlagður kostnaður FL Group vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á Inspired Gaming Group (IGG) í lok síðasta árs, um 792 milljónir króna, var vegna aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar og umsaminna bótagreiðslna til IGG vegna þess að hætt var við yfirtökuna. Inni í þessari tölu er ekki kostnaður FL Group innanhús vegna hinnar ætluðu yfirtöku.

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs FL Group, segir ekki hægt að gefa upp frekari sundurliðun á kostnaðinum né hvaða aðilar fengu greiðslurnar. Hann bendir á að upphæðin sé einungis um 1,6 prósent af þeim 50 milljörðum krónum sem fyrirhugað var að greiða fyrir IGG. „Þetta er ungt félag og þykir leiðandi í svona hugbúnaði. Þetta er þróunarfélag sem er að breytast í arðbæran rekstur en er með fjármagnsklafa á sér og hluti af yfirtökunni snerist um að endurfjármagna félagið.“

Svörin skýra ekkert

„Mér finnst þessi svör ekki skýra neitt,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi í FL Group, sem fór fram á það á aðalfundi félagsins fyrr í mánuðinum að fá að vita kostnað vegna athugunar á kaupum á IGG. Svörin bárust honum á miðvikudag. Hann segist eiga fullan rétt á því að vita hverjir það voru sem fengu greiddan þennan sérfræðikostnað vegna IGG. Vilhjálmur segir ennfremur að fleiri af þeim svörum sem honum bárust þarfnist ítarlegri skýringa. „Í þessum svörum er gengið út frá því að ég hefði verið að óska eftir skýringum til að geta greitt atkvæði um ársreikning félagsins. En það var ekki þannig heldur var ég að óska eftir þeim vegna þess að félagið var að tapa heiftarlega.“ Hann segist ekki vera búinn að gera upp við sig hvort eða hvernig hann muni fara fram á ítarlegri skýringar á þeim svörum sem hann hefur þegar fengið.

Gengið fallið mjög mikið

IGG framleiðir meðal annars leikjaskjái á bari, bingóvélar og veðmálastöðvar. FL Group á þegar hlut í félaginu. Velta IGG á síðasta ári var um 25 milljarðar króna á gengi dagsins í dag og hagnaður þess fyrir skatta 573 milljónir króna á núverandi gengi.

FL Group gerði yfirtökutilboð í IGG í september síðastliðnum og var gengi á hvern hlut í því þá 340 pens. Tilboð FL Group hljóðaði upp á 385 pens á hlut, sem samkvæmt FL Group er eðlilegt verð þegar um yfirtökutilboð er að ræða. Í desember var hins vegar hætt við yfirtökuna og að sögn Júlíusar var það vegna breyttra aðstæðna á markaði, enda varð lánsfé skyndilega mun dýrara. Síðdegis í gær var gengi IGG 124,25 pens á hlut, eða þriðjungur af því sem yfirtökutilboð FL Group hljóðaði upp á.

Í hnotskurn
Vilhjálmur Bjarnason lagði átta spurningar fyrir stjórn FL Group á aðalfundi félagsins 11. mars síðastliðinn. Ein spurninganna sneri að kostnaði vegna athugunar á kaupum félagsins á IGG. Þegar Landssíminn var seldur fyrir 66,7 milljarða var heildarkostnaður 786 milljónir. 104 milljónir voru vegna sérfræðinga og 687 milljónir í söluþóknun til Morgan Stanley, sem sá um útboðið.